Tengdar greinar

Kynlíf eftir miðjan aldur

Kynlíf er mikilvægur þáttur í lífi flestra og leikur risastórt hlutverk í öllum rómantískum samböndum. Þar sem það virðast vera fyrirfram ákveðnar hugmyndir að kynþörf hverfi eftir vissan aldur er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning. Kynlífið breytist bara eftir því sem við eldumst.

Margir finna fyrir breytingum sem hafa áhrif á kynferðislega virkni eftir því sem þeir eldast. Þar á meðal er minni löngun til kynlífs, sársauki við kynmök og minnkað þol.

Þessar breytingar eiga sér stað hjá öllum, bæði konum og körlum, í mismiklum mæli og mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim og kynna sér hvernig hægt er að mæta áskoruninni um að halda áfram að stunda skemmtilegt og heilbrigt kynlíf.

Hvaða breytingar hafa áhrif á kynlífið?

Aldursfordómar birtast meðal annars í því að gert er ráð fyrir að fólk hætti öllu kynlífi eftir vissan aldur. Staðreyndin er samt sú að samkvæmt nýlegri rannsókn sem framkvæmd var á fólki á aldrinum 65 til 80 ára að þetta er fjarri sanni. Kynlíf hefur ekkert aldurstakmark og í rannsókninni kom fram að 65% þeirra sem voru spurðir, bæði karla og kvenna, svöruðu að þau væru kynferðislega virk. Kynlíf hefur með öðrum orðum ekki aldurstakmark en mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir breytingunum á líkama okkar sem getur haft áhrif á kynlífið og bregðast við, því mörg úrræði eru til.

Nokkrar líkamlegar breytingar verða á líkama okkar þegar við eldumst. Konur finna þær þegar þær byrja að ganga í gegnum breytingaskeiðið og estrogenframleiðsla minnkar og á sama aldursskeiði verða breytingar á líkama karla. Og af því að þetta er vandamál sem allir finna fyrir er búið að finna ráð við mörgum þessara kvilla. Þar má nefna stinningarvandamál hjá körlum, þurrk í leggöngum hjá konum og geðsveiflur hjá báðum kynjum. Allt getur þetta haft áhrif á kynlöngun og hægt er að fá ráð hjá læknum.

Vandamál sem geta komið upp

Ef fólk upplifir erfiðleika við að ná fullnægingu gæti verið ráð að láta athuga hjartað. Þetta gætu verið merki um hjarta- og æðasjúkdóma sem gera vart við sig að meðaltali 7–10 árum síðar hjá konum en körlum. Hjarta- og æðasjúkdómar eru samt meginorsök skyndidauða hjá konum yfir 65 ára. Annað heilsufarsvandamál hjá konum á þessum aldri er kynsjúkdómar. Þar sem ekki er lengur um að ræða að verða ófrísk eftir breytingaskeið eru konur ekki eins passasamar um að nota smokk við skyndikynni. En konur ættu alltaf að hugsa fyrst og fremst um öruggt kynlíf. Í rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum á árunum 2014 til 2018 kom í ljós að tilfellum gonorrhea fjölgaði um 164%, syphilis um 120% og chlamydiu um 86%. Það segir sig sjálft að allir ættu að fara í skoðun ef minnsti vafi leikur á smiti.

Að viðhalda heilbrigðu kynlífi

Góðu fréttirnar eru að þótt þurrkur í leggöngum og sársauki við kynlíf geri vart við sig þá eru margskonar meðferðir í boði til að draga úr óþægindum og gera kynlífið ánægjulegt aftur. Þar má nefna estrógenstíla, Dehydroepiandrosterone, sem eru áhrifaríkir við að meðhöndla þurrk í leggöngum.

Konur geta einnig notað stungulyf (hyalonic acid) sem þjónar sem smurefni til að viðhalda raka. Annar kostur er staðbundin hormónameðferð sem er ákjósanleg meðferð til að endurnýja og byggja upp slímhúð legganganna og er talin vera öruggari kostur en hormónameðferð.

Lítil kynhvöt

Lítil kynhvöt getur orsakast af ýmsum þáttum eins og líkamlegum eða andlegum veikindum, lágu sjálfsmati og lélegri líkamsímynd. Það eru til leiðir sem hjálpa fólki að sigrast á þessum hindrunum og auka kynhvötina að nýju. Þar sem kynlífið er svo stór þáttur þegar kemur að vellíðan, sama á hvaða aldri fólk er, er þeim sem eiga við þetta vandamál að stríða ráðlagt að hitta meðferðaraðila sem sérhæfa sig í þessu vandamáli og útvega t.d. lesefni, því leiðirnar eru margar til að laga vandamálið.

Sum þunglyndislyf hafa áhrif á kynlöngun en til eru lyf sem læknar ráðleggja í staðinn ef vandamálið kemur upp.

Atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Vertu opinská(r) við bólfélaga um skilgreininguna á kynlífi.
  • Prófaðu kynlífsmeðferð.
  • Ráðfærðu þig við lækni þinn.

Nánd er mjög mikilvægur þáttur í hverju rómantísku sambandi út lífið. Jafnvel þótt líkamlegu breytingarnar sem verða á líkama okkar eftir því sem við eldumst þvingi okkur til að njóta kynlífs á annan hátt geta bæði konur og karlar enn lifað heilbrigðu og skemmtilegu kynlífi. Nauðsynlegt er að huga vel að líkama okkar og vera opin fyrir breytingum sem geta bætt líkamsstarfsemi og kynlöngun.

Betra kynlíf eftir 60

Margir upplifa betra ástarlíf en þeir gerðu þegar þeir voru yngri. Fyrir því eru margar ástæður. Tilfinningasamband við maka er dýpra, færri truflanir, engar áhyggjur af barneignum og einfaldlega meiri tími til að leika sér. Þar fyrir utan hefur reynslan safnast í sarpinn sem nýtist nú til enn frekari leikja!

Ritstjórn september 15, 2021 11:10