Tengdar greinar

Þrefaldur heimsmeistari æfir 4-5 sinnum í viku

Sigurður Haraldsson æfði sig í spjótkasti við íþróttavöllinn í Laugardal einn sólardag fyrir skömmu. Það var augljóst að þar var vanur maður á ferð, enda þrefaldur heimsmeistari í kastgreinum. Fékk þrenn gullverðlaun á Heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum sem haldið var í vor í Búdapest, og tvenn silfurverðlaun. Hann keppti  í flokki 85-90 ára. Hann skýrir þennan frábæra árangur með því að hann hafi stundað kastíþróttirnar reglulega og æft vel.  Hann æfir 4-5 sinnum í viku.

Verða öldungar 35 ára

Sigurður stundaði íþróttir mikið á yngri árum og var þar samferða Clausen bræðrum. Þegar lífsbaráttan hófst fyrir alvöru, hann stofnaði fjölskyldu, fór að vinna og byggja hús hætti hann hins vegar allri íþróttaiðkun. Hann sagði að hann hefði verið í þannig störfum að þau hefðu ekki leyft miklar frístundir. Hann var til dæmis bæjargjaldkeri á Akranesi um tíma og síðar kaupfélagsstjóri og útgerðarmaður á Snæfellsnesi. Hann segist hafa byrjað aftur í íþróttum um sjötugt. Hann keppir eingöngu í kastgreinum og fékk gullverðlaun í sleggjukasti, lóðkasti og kringlukasti á heimsmeistaramótinu, en silfur í kúlukasti og spjótkasti. Hann var hrifinn af Búdapest, en þar var keppt í fimm daga. Segir að hún sé falleg borg, en dvalið var á hóteli í hólma úti í Dóná. Það er athyglisvert að í íþróttunum verða menn öldungar 35 ára, en Sigurður segist sjá fyrir sér gamla menn með grátt hár og sítt skegg þegar hann hugsi um öldunga. Það er ekki að sjá, þegar hann kastar spjótinu á æfingasvæðinu að hann sé mikið eldri en sextugur. Það er greinilega hægt að halda sér í góðu formi með því að æfa íþróttir, og Sigurður æfir  4-5 sinnum í viku, eina til eina og hálfa klukkustund í senn.

Ritstjórn maí 29, 2014 14:02