Lambakjöt í karríi

Kjöt í karríi var oft á boðstólum fyrir nokkrum árum síðan en er orðið frekar fáséð á borðum landsmanna. Samt finnst flestu fólki það afbragðsgott.  Við ákváðum að rifja upp gamla takta og bjóða upp á þetta hnossgæti. Uppskriftina fundum við á vefnum lambakjot.is. Hún er ætluð fyrir fjóra og það sem til þarf er:

1 kg súpukjöt, framhryggur eða annað lambakjöt á beini
1 l vatn
2 lárviðarlauf
pipar
salt
4 -5gulrætur
30g smjör
2- 3tsk. karríduft
2.5 msk. hveiti

Kjötið sett í pott. Ef bitarnir eru stórir er e.t.v. best að skipta þeim í minni bita. Köldu vatni hellt yfir og hitað að suðu. Froða fleytt ofan af. Lárviðarlaufi, pipar og salti bætt í pottinn og látið malla við fremur hægan hita í um 25 mínútur. Gulræturnar hreinsaðar, skornar í bita og settar út í. Látið malla í um 25 mínútur í viðbót. Þá er kjötið og gulræturnar tekið upp úr og haldið heitu. Smjörið brætt í öðrum potti. Karríduftinu stráð yfir, hrært og látið krauma í um 1/2 mínútu. Þá er hveitinu stráð yfir og hrært þar til það hefur samlagast smjörinu. Soði hellt saman við smátt og smátt, þar til sósan er hæfilega þykk, og hrært stöðugt á meðan. Látið malla í 5-10 mínútur. Svolitlum rjóma eða mjólk e.t.v. hrært saman við ogbragðbætt með pipar og salti eftir smekk. Kjötið borið fram með gulrótunum (eða soðnum kartöflum), hrísgrjónum og sósu.

Ritstjórn febrúar 8, 2019 11:31