Óhætt er að segja að hjónin Trausti Valdimarsson læknir og Herdís Guðjónsdóttir matvælafræðingur verji töluverðum tíma í að leika sér nú þegar þau eru komi á hinn virðulega 67 ára aldur. Þau eru samhent hjón sem taka á móti aldrinum með stæl og eru fullkomið dæmi um það þegar hreyfing verður að lífsstíl sem sameinar.
Segist vera með eldri konu
Trausti segist reyndar vera með eldri konu en hann verður ekki 67 ára fyrr en í nóvember á meðan Herdís varð 67 í maí. Hann er starfandi læknir og hún matvælafræðingur og þau eru aðeins farin að minnka við sig vinnu, þ.e. komin niður í 80% og 75%. Bæði vita þau mætavel hvað þarf til þess að þriðja og fjórða aldursskeiðið geti orðið ánægjulegt þar sem öllu skipti að heilsan haldi. Þau hafa alla tíð stundað einhverja hreyfingu. Hann hefur lengi æft hlaup og Herdís badminton fyrir utan ýmislegt annað. Nú hafa hjólreiðar fangað hug þeirra. Haustið 2023 hófu þau þátttöku í Rynkeby hjólreiðaverkefninu. Hjólaleiðin er frá Kolding í Danmörku til Parísar dagana 29. júní til 6. júlí en hjólaðir eru 1250 km á 8 dögum. Er ekki svolítið mikið í fang færst að hjóla svona langa vegalengd? Þau svara því bæði til að svo sé sannarlega ekki. Skipulag verkefnisins sé svo fullkomið og undirbúningur nákvæmur. ,,Yfirstjórn Rynkeby verkefnisins er í Danmörku þar sem er geysilega öflugt fólk sem skipuleggur ferðina úti og hér heima er ekki síður góður stýrihópur sem sér um allar aðgerðir“, segja þau Trausti og Herdís.
Hjólað til styrktar Umhyggju
Á Íslandi er hjólað til styrktar Umhyggju – félags langveikra barna. Alls söfnuðust 3.5 milljónir evra í sumar frá öllum Evrópulöndunum sem er veruleg fjárhæð og léttir líf langveikra barna og aðstandenda þeirra svo um munar. „Jákvæðar hliðar þessa hjólaverkefnis eru því margvíslegar,“ segir Trausti. Í fjölskyldum margra þátttakenda hefur barn veikst alvarlega og jafnvel látist. Trausti og Herdís kynntust þeirri skelfingu þegar dótturdóttir þeirra veiktist fyrir nokkru. „Hún náði sér sem betur fer en hún var hætt komin þegar flogið var með hana í sjúkraflugi til Svíþjóðar í aðgerð,“ segja þau. „Fljúga þurfti vélinni í lágflugi alla leið af því hún var með lungnasýkingu og loftbrjóst. Loftþrýstingurinn mátti því ekki fara undir sérstök mörk. Verum þakklát fyrir öflugt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Víða annars staðar hefði barnið ekki lifað þessi veikindi af.“
Af hverju Rynkeby
„Á Covid tímanum spjallaði ég við vinkonu sem hafði hjólað nokkrum sinnum með Rynkeby,“ segir Herdís, ,,og hún kveikti áhuga minn. Við erum auk þess að æfa þríþraut með Ægi og æfingarfélagi sem er í stjórn Rynkeby á Íslandi. Vinkona mín hvatti okkur til að sækja um þátttöku í verkefninu,“ segir Herdís.
„Við fórum í viðtal þar sem við gerðum m.a. grein fyrir því að við værum með gott tengslanet sem hjálpar þegar kemur að peningasöfnuninni. Einnig værum við í góðu líkamlegu formi og það varð úr að við vorum samþykkt inn,“ segja þau og brosa. „Verkefnið gengur út á að við hittumst á sameiginlegum æfingum minnst einu sinni í viku. Æfingarnar eru innanhúss yfir vetrartímann og um leið og vorar taka utanhúss æfingar við. Þá þurfum við að læra að hjóla hratt í hópi án þess að rekast hvert á annað. Við þurfum að ná yfir 2500 kílómetrum í lærin frá áramótum. Það eru allir á eins gulum hjólum og fötum sem gerir stemminguna meiri.“
Allt jákvætt við puðið
Þátttaka í þessu verðuga verkefni felur í sér töluverða vinnu sem þau Trausti og Herdís eru sammála um að sé bæði gefandi og skemmtileg. „Það er alltaf gaman og fjörugt að leika sér með skemmtilegu fólki og svo er þetta áhugavert ferðalag og lífsreynsla og um leið erum við að gera góðverk. Og fyrir utan að kynnast fjörugu fólki kemur öll þessi skemmtun okkur í gott líkamlegt form,“ segja þau og brosa.
Starfmaður Rynkeby átti hugmyndina
„Árið 2007 hjóluðu tveir starfsmenn danska Rynkeby ávaxtasafafyrirtækisins til Parísar og söfnuðu áheitum sem þeir gáfu til langveikra barna. Það gekk svo vel að þeir ákváðu að útfæra hugmyndina og fljótlega stækkaði hún þannig að til urðu Rynkeby hópar í fjölda Evrópulanda. Nú eru allar Norðurlandaþjóðirnar með sína hópa og í ár voru Færeyingar með fleiri hjólara en við og sendu tvö lið eða 60 manns á meðan við vorum bara með 28,“ segir Trausti og brosir.
Söfnun stór hluti verkefnisins
Aldursdreifingin var 29 til 67 ára en flestir miðaldra. ,,Þetta fólk er komið á þann stað í tilverunni að það hefur tíma og peninga til að leika sér á besta aldri,“ segir Trausti. ,,Og ekki er verra að geta látið gott af sér leiða um leið en söfnun fyrir Umhyggju er stór hluti af verkefninu.“ Trausti segir til dæmis frá því að honum hafi tekist að selja páskaegg til fjölda samstarfsmanna. Einnig safnist talsverðar fjárhæðir í tengslum við góðgerðarkvöldverð sem er alltaf mjög skemmtileg stund og margir mæta árlega á.
„Það er töluverð vinna sem felst í þessari söfnun en það er bara jákvætt og gaman og allir voða glaðir. Síðasta ár söfnuðust 36 milljónir og þetta ár vonandi enn meira. „Styrkir frá fyrirtækjum eru geysilega mikilvægir en mörg þeirra eru með ár eftir ár og má þar nefna sem dæmi Nóa Síríus. Gullstyrkir eru a.m.k. 400.000 krónur en þá fá fyrirtækin vörumerkið á búninga okkar.“
Þjónustuliðið stór þáttur
„Við erum með yndislegt þjónustulið sem við kölluðum umhyggjuliða með okkur alla leið. Þau sem óku á undan voru búin að undirbúa komu okkar í pásunum þar sem þau biðu okkar í búningum og spiluðu skemmtilega tónlist og dekruðu við okkur. Maturinn sem við fengum í pásum var gefinn af stórum hluta frá matvælafyrirtækjum á Íslandi. Þau sem óku á eftir okkur gerðu ekki minna gagn því þar var „hjólahvíslari“ sem vissi allt um viðgerðir á hjólum. Þetta umhyggjulið gerði sannarlega gæfumuninn því þetta hefði verið vonlaust nema fyrir þessa frábæru skipulagningu þeirra. Þar var valinn maður í hverju rúmi.
Við vorum með tvo klæðnaði til skiptanna í ferðinni og höfðum þann háttinn á að við fórum í sturtu í fötunum í næturstað. Þannig þvoðum við fötin og sjálf okkur á hverju kvöldi og morguninn eftir voru fötin frá deginum þar á undan tilbúin fyrir næsta hjóladag. Svona gekk þetta mjög vel,“ segja þau og hlæja.
Persónulegt bréf frá aðstandendum
„Á þriðja degi fékk hver og einn persónulegt bréf frá foreldri langveiks barns. Það var mjög áhrifamikið og hvetjandi því svona hjólreiðar taka á. En verkefnið er svo verðugt að ekki kemur til greina að gefast upp,“ segja þau.
Þeir sem vilja taka þátt í þessu verðuga hjólaverkefni geta farið inn á www.team-rynkeby.is og sótt um og nú er umsóknarfresturinn til 31. ágúst. Þar er hægt að sækja um að vera hjólari eða að vera með í aðstoðarliðinu. Umsóknir eru skoðaðar og metið hvort fólk er tilbúið í líkamlegu átökin en líka hvort fólk geti tekið þátt í söfnuninni. Þetta er svo skemmtilegt verkefni og allir eru tilbúnir í söfnunina. Þátttakendur borga sjálfir hjólin, fatnað og ferðakostnað. Einnig borgar aðstoðarfólkið ferðakostnað. Þannig leggja allir eitthvað til. Allt sem safnast fer til Umhyggju sem er afhent með viðhöfn í lok september.
Ekki hætta að hreyfa okkur?
Trausti og Herdís þakka fyrir að geta tekið þátt í verkefni eins og Team Rynkeby. „Sumum finnst allt þetta hreyfibrölt vera heldur of mikið en staðreyndin er sú að ef við veljum frekar sófann þá hættum við fyrr að geta hreyft okkur“. Ég kvaddi hjónin sem voru á leiðinni í afmæli barnabarns og fóru auðvitað hjólandi í það boð.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar