Tengdar greinar

Valdi óvenjulegan lífsstíl

Helga fór á námskeið í Myndlistaskóla Kópavogs, nú þegar tóm gafst, og nýtur þess í botn.

Helga Þórólfsdóttir hefur ekki farið sömu leið í lífinu og við hin. Hún hefur löngum stundum verið staðsett á átakasvæðum á vegum Rauða krossins og býr nú yfir ómetanlegri þekkingu og reynslu. Nú er hún að komast á eftirlaun og er að skrifa niður og sortera það sem á dagana hefur drifið í starfi hennar á stríðshrjáðum stöðum. Hún segir nefnilega að það sem blasi við okkur í í fjölmiðlum og stríðsmyndum finnist henni víðs fjarri því sem hún hefur orðið vitni að í störfum sínum. Auk þess að starfa fyrir Rauða krossinn, hefur Helga starfað sem ráðgjafi, m.a. fyrir utanríkisráðuneytið og NATO og sem þróunar- og jafnréttisfulltrúi í Afganistan.

Helga á einn son og fjögur barnabörn en segir að lífsstíllinn sem hún valdi sér hafi ekki rúmað maka fram að þessu.

Sambúð hentaði ekki

Helga eignaðist son sinn ung og hann byrjaði snemma að eiga börn svo nú á Helga fjögur dásamleg barnabörn. ,,Þegar strákurinn minn fór sem skiptinemi til Japan fór ég í mína fyrstu vinnuferð til Sómalíu árið 1993. Þegar hann varð eldri og flutti að heiman fór ég aftur út til þess að vinna fyrir Rauða krossinn á átakasvæðum í Evrópu, Afríku og Asíu.“ Þetta var lífsstíll sem Helga valdi sér en honum fylgdu þær fórnir að vera mikið í burtu frá fjölskyldunni. ,,Það skipti mig þó miklu máli að koma reglulega heim og vera í tengslum við fjölskyldu og vini og sem betur fer hefur mér tekist að halda rótum á Íslandi.“

Helga er fædd og uppalin í Kópavogi en bjó lengi í Vesturbæ Reykjavíkur og Þingholtunum en er nú komin aftur í Kópavoginn. Ástæðan fyrir því að hún fór aftur í Kópavoginn var að hún fékk góða íbúð þar sem hún sá út á sjó. ,,Svo ákvað ég að góð leið til að komast vel inn í samfélagið væri að taka þátt í framboði Vina Kópavogs sem eru grasrótarsamtök sem berjast fyrir vandaðri stjórnsýslu og betra samfélagi með þátttöku íbúa í Kópavogi. Það hefur verið bæði gaman og gagnlegt.

Friðarfræðin

Farið yfir öryggisreglur áður en farið er út úr herstöðinni.

Helga lærði upphaflega Félagsráðgjöf í Lundi í Svíþjóð og stafaði við barnavernd, m.a með stuðningi við fósturfjölskyldur. Eftir það hóf hún vinnu hjá Rauða krossinum á Íslandi, en fór fljótlega að starfa erlendis. Þegar hún hafði starfað í nokkur ár á alþjóðavettvangi, kom hún heim og  tók við stöðu yfirmanns alþjóðadeildar Rauða krossins. Helga fór nokkru síðar í framhaldsnám til Bretlands í friðarfræðum og í lausn ágreiningsmála. Verkefnin í náminu lituðust mikið af reynslu hennar af mannúðarstarfi á Alþjóðavettvangi. Hún skoðaði m.a. samskipti á milli erlends hjálparstarfsfólks og heimafólks. ,,Það koma mjög oft upp árekstrar á milli fólks vegna ólíkra viðhorfa hvort sem um er  að ræða starf á átakasvæðum eða vegna náttúruhamfara,“ segir Helga. ,,Mitt hlutverk var að gera samninga við innlenda samstarfsaðila sem unnu í náinni samvinnu við Alþjóðaráð Rauða kossins við framkvæmd verkefna. Í hlutverkinu fólst líka að veita ráðgjöf og styðja aðra stjórnendur í því hvernig þeir framkvæmdu sín verkefni í samvinnu, þar sem viðhorf beggja ættu rétt á sér. Þess vegna fannst mér áhugavert að skoða nánar samskipti hjálpastarfsfólks og heimamanna. Nafnið á ritgerðinni í friðarfræðunum var „listin að hjálpa ókunnugum.“

Þegar Helga kom heim 2019 fór hún að vinna sem sáttamiðlari fyrir vinnustaði og stjórnendaráðgjafi í samvinnu við sálfræðistofuna Líf og Sál. „Það var frábært að fá tækifæri til að vinna með öflugu og flottu teymi á frekar litlum vinnustað eftir að hafa unnið á flóknum og fjölmennum vinnustað,“ segir Helga og brosir en starfsfólk Alþjóðaráðsins er um tuttugu þúsund. Hún er núna í hálfu starfi og nýtur þess að geta varið tíma sínum í ýmis hugðarefni eins og að mála myndir sem henni þykir mjög gaman.

Margir fastir í sinni sögu

Helga segir að það sé bæði gefandi og skemmtilegt að vinna við sáttamiðlun því staðreyndin sé sú að í 90% tilvika finnur fólk leið til þess að breyta samskiptum sínum við aðra, þannig að öllum líði betur. ,,Sáttamiðlun ber árangur þegar fólk er sjálft tilbúið að bregðast öðruvísi við, og er ekki pikkfast í þeirri sögu að hinn þurfi að vera öðruvísi og þá lagist allt. Mín nálgun í sáttamiðlun er „narrative“ og byggir á þeirri hugmynd að við manneskjurnar tökumst á við lífið með því að segja okkur sögur um hver við erum og hver við eru ekki, og þá hver hin eru og hver þau eru ekki. Við getum alltaf búið til nýja sögu og það er óþarfi að vera föst í sögu sem veldur okkur og öðrum vanlíðan.

Helga vinnur líka sem stjórnendaráðgjafi. ,,Þetta er mjög gefandi starf því stjórnendur sem leita sér handleiðslu eru yfirleitt góðir stjórnendur sem eru tilbúnir að nýta sér utanaðkomandi ráðgjöf. Þeir vilja geta speglað sig og skoða mismunandi leiðir til að bregðast við krefjandi úrlausnarmálum sem oft tengjast samskiptum á vinnustaðnum. Ég læri alltaf eitthvað af þeim stjórnendum sem ég vinn með.

Ákvað að taka út lífeyrinn 65 ára

Á fundi með formanni félagasamtaka.

Ég hætti í fastri stöðu hjá Alþjóðaráðinu þegar ég var 63 ára en þar er gert er ráð fyrir starfsfólk fari á eftirlaun 62 ára. Ég var reyndar kölluð til baka í fyrrasumar til að fara til Úkraínu í tveggja mánaða verkefni fyrir Alþjóðaráðið, en nú er ég alveg hætt og komin heim,“ segir Helga  og brosir.

,,Ég hef svo lengi unnið mikið hjá stórri stofnun og það var kominn tími til að breyta til. Það fór mikil orka í stofnunina sjálfa, innri málefnin og stofnanapólitík. Áhættan við að vinna stjórnunarstörf hjá svona risa er að auðvelt er að missa sjónar á tilganginum með starfinu. Innri málefni gefa ekki sömu orku og þegar maður er í návígi við fólkið sem samtökin eru til fyrir. Maður þurfti oft að minna sjálfa sig og aðra á fyrir hvaða manneskjur við vorum að vinna.  Nú nýt ég þess að vinna minna á litlum vinnustað með mjög góðu fagfólki sem er líka skemmtilegt og það skiptir máli. Ég nýt þess frjálsræðis að ráða hvaða verkefni ég tek að mér sem er mér mikils virði. Fyrir mig er þetta fullkomin staða að vera í eftir að hafa verið hjá svo stórri stofnun lengi.“

Erfið samskipti taka gífurlega orku 

,,Það er mjög þakklátt starf að vinna við  sáttamiðlun. Ég er að vinna með fólki sem er virkilega að fara út fyrir þægindaramma sinn og það er ekkert gefið að fólk treysti ókunnugum til að fara með sér í það ferðalag,“ segir Helga. ,,Flestir hafa lært að takast á við samskipti og gera hlutina á einhvern ákveðinn hátt sem hefur hentað þeim vel, en svo rekst fólk á vegg þegar samskipti við ákveðinn einstakling eða einstaklinga fara að valda vanlíðan. Það er erfitt að takast á við vanlíðan sem tengist því sem einhver annar gerir eða segir. þegar fólk er komið í þrot þá finnur það oft ekki hvernig það sjálft getur haft áhrif á líðan sína með því að hugsa öðruvísi og bregðast öðruvísi við.  Þar sem einstaklingar hafa ekki vald til þess að breyta annarri manneskju verður fólk fast í vanlíðaninni, nema það  geri sjálft eitthvað öðruvísi.  Það að stíga inn í samtal með manneskju sem fólk hefur átt erfið samskipti við  krefst kjarks. Fyrsta skrefið er mjög stórt og erfitt og því miður bíður fólk oft of lengi með að leita eftir aðstoð. Margir halda að hlutverk sáttamiðlara sé að dæma um hvor aðilinn hafi rétt fyrir sér en það er misskilningur. Ég tala oft um að sáttamiðlun sé eins og námskeið í að gera hlutina öðruvísi og fara nýjar leiðir. Það getur verið mjög spennandi og það er mikill léttir þegar fólk sér grein fyrir því að það er hægt að fara nýjar leiðir. Þau sem taka þátt í ferlinu bera ábyrgð á að finna saman nýja leið með aðstoð sáttamiðlara. Álag vegna erfiðra samskipta á vinnustað getur leitt til þess að fólk veikist. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk fái stuðning fyrr, því ef ekkert er gert, endar það oft með því að fólk nær ekki að njóta sín í vinnunni, veikist eða hættir. Markmiðið er að fólki geti sinnt starfi sínu vel í góðu samstarfi við aðra og þá líður fólki oftast velí vinnunni sinni,“ segir Helga.

Hefur lifað öðruvísi lífi

Helga að klæða sig í skothelt vesti á leið út úr herstöðinni í Faryab.

Helga segir að það hafi verið mjög gagnlegt og lærdómsríkt að hafa fengið tækifæri til að búa í öðruvísi samfélagi en hún kom úr sjálf. ,,Maður kynnist sjálfum sér á allt annan hátt við ólíkar aðstæður en maður er alinn upp við. Á þann hátt þurfti ég að takast á við hluti sem ég fékk ekki undirbúning fyrir og  hefur verið mjög gefandi fyrir mig.“

Helga fór fyrst til Sómalíu og síðan til Líberíu. ,,Þar var reyndar mjög erfitt að vera því þar voru svo mikil átök og það endaði með að við þurftum að flýja. Þaðan fór ég til Georgíu í Kákasus, síðan Bosniu, Tajikistan og Úganda.  Ég kom síðan  heim 2001 og fór að vinna sem yfirmaður alþjóðastarfs Rauða krossins. Ég tók mér frí til að fara í meistaranámið í Bretlandi sem Rotary friðarstyrkþegi, en samtökin veittu og veita enn mjög rausnarlega samkeppnisstyrki. Eftir að hafa lokið tveimur meistaragráðum, tók ég aftur við stöðunni minni hjá Rauða kross Íslands. Fljótlega, eða korteri í hrun, sagði ég upp starfinu og ákvað að fara í doktorsnám í mannfræði og halda áfram að vinna með það sem ég skoðaði í meistaraverkefnunum mínum. Ég fann fyrir ákveðinni þörf til að tengja þá þekkingu sem ég hafði aflað mér, bæði á vettvangi átaka og í meistaranáminu.

Á herstöð í norður Afghanistan.

Ég hafði líka verið hvött  af kennurum mínum við háskólann í Bradford, til að gera eitthvað meira með seinni meistararitgerðina. Hluti af doktorsnáminu var að gera vettvangskönnun á herstöð í Afganistan. Doktorsnámið tók lengri tíma en ég hélt og háskólaumhverfið átti ekki alls kostar við mig. Ég setti því doktorsritgerðina á ís og fór aftur til starfa fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins, fyrst í Írak, síðan í Íran og að lokum á Evrópsku svæðaskrifstofunni Búdapest þar sem ég bar ábyrgð á samvinnuverkefnum Alþjóðaráðsins í Evrópu og mið Asíu. Þar starfaði ég þar til ég kom heim 2019.

Íslendingar ekki öðruvísi en aðrir

Helga segir frá konu, sem hún var að vinna með í Bosníu, sem sagði henni að það þegar hún fylgdist með hryllingi með innrásinni í Írak, þá hefði ekki verið til í hennar villtustu fantasíu að ekki löngu seinna myndi hún sitja inni á baðgólfi með barnið sitt í fanginu af því það væri verið að sprengja allt í kring. ,,Þessi kona og fleiri sem ég talaði við sögðu að þau hafi alltaf haldið að stríð kæmi vegna óvinarins sem kæmi að utan, en ekki vegna ofbeldis úr þeirra eigin röðum. Ég held við ættum að vara okkur á að að halda að hér geti ekki brotist út stríð því ofbeldið kemur ekki alltaf að utan. Stríð getur alveg brotist út á milli þeirra sem eru ekki svo ólíkir. Ég held til dæmis að íbúar Úkraínu og íbúar Rússlands séu ekki svo ólíkir.

Forsendur skipulagðs ofbeldis eða stríðs er óvinavæðing, sem byrjar með pólariseringu (skautun) þar sem við segum okkur sjálfum og öðrum sögur um óvininn sem ber að óttast, ráðast á eða verjast.  Við þurfum að gæta þess vel að búa ekki til óvinasögur og skoða vel hvað geti komið í veg fyrir það að til verði óvinir. Við lifum svo mörg í okkar eigin búbblu og ég tek sjálfa mig ekki út fyrir sviga því mér þykir ég tilheyra forréttindabúbblu og þekki ekki marga þar fyrir utan. Það er hættulegt þegar einstaklingar og hópar upplifa sig án áhrifa og vera útilokaða og finnst þeir geta ekki notið þeirra lífsgæða sem íslenskt samfélag og náttúra hefur upp á að bjóða. Við þurfum líka að mínu mati að setja spurningarmerki við ríkjandi hernaðarhyggju sem segir að skipulagt ofbeldi sé lausn á einhverjum vanda.“

Ritgerðin endar í bók

Helga talar um að henni finnst gífurlegt bil á milli þeirra hugmynda sem eru ríkjandi um stríð og þess sem hún hef upplifað. ,,Staðreyndin er sú að mikið af því sem maður sér á átakasvæðum er allt annað og öðruvísi en það sem maður sér í fjölmiðlum,“ segir Helga. ,,Ég tala nú ekki um það sem maður sér í stríðsmyndum þar sem hetjan er upphafin“. Ákveðnir þættir stríðsreksturs er yfirleitt ekki fjallað mikið um. Þar er ég að tala um það sem heillar fólk við stríð, sögur sem þarf að segja til þess að fólk sé tilbúið að fara í stríð og hverjir hafi beinan og óbeinan ávinning af stríðsrekstri og þá hvernig. Ég held að við verðum að skoða þetta, því ef við einblínum bara á hryllinginn og eymdina, vonda leiðtogann og góða leiðtogann þá breytum við engu. Hlutirnir eru aldrei svartir og hvítir og á átakatímum eru alltaf raddir sem aldrei fá að heyrast því það er bara pláss fyrir að vera með eða á móti. Það er ekki pláss fyrir öðruvísi sögur sem ekki byggja á hernaðarhyggju. Ef við ætlum að komast út úr vítahring ofbeldis þá verðum við að hlusta eftir nýjum og öðruvísi sögum sem ekki gera ráð fyrir að ofbeldi sé lausn á deilumálum. Í sáttamiðlun er hlutverk sáttamiðlarans að hjálpa þátttakendum að finna nýja sögu sem báðir aðilar geta sætt sig við. Sáttamiðlun gengur ekki út á að fólk fallist í faðma og verði bestu vinir og allt verði gott. Hún gengur út á að fólk ákveði hvernig það geti áfram unnið saman án þess að samstarfið valdi vanlíðan. Það er nýja sagan þeirra.

Haldið upp á 17. maí á norskri herstöð í norður Afghanistan 2010 þar sem allt var drapplitað og í brúnum tónum. Starfsmönnum þótti því skemmtilegt að klæða sig upp í lit.

Mér finnst ótrúlega áhugavert að skoða hvaða sögu maður segir sjálfum sér og öðrum um hver við erum sem þjóð eða einstaklingur sem réttlætir það að maður geti drepið ókunnunga. Því finnst mér áhugavert að skoða ekki bara hvaða sögu Pútín og aðrir ráðamenn  segja sér til að réttlæta innrás í Úkraínu, heldur líka hvaða sögur þau segja sem styðja hann. Og hvaða sögur þau segja sem fórna lífi sínu viljug og óviljug í vopnuðum átökum  og einnig hvaða sögur eru sagðar af þeim sem beita ofbeldi sem viðbrögð við ofbeldi.  Kosturinn  við að komast á eftirlaun og vinna minna, er að nú hef ég tíma til að halda áfram að skoða þessar sögur. Ég hef mikla þörf fyrir að koma mínum hugmyndum frá mér og ég hef ákveðið að skrifa bók þar sem eg nota lífsreynslu mína og það efni sem ég hef viðað að mér í námi mínu.“ segir Helga og ekki leikur nokkur vafi á því að sú bók verður áhugaverð aflestrar.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 24, 2023 08:23