Knýjandi þörf að segja frá aðsteðjandi hættu

Heimurinn eins og hann er.

Stefán Jón Hafstein þekkja flestir Íslendingar, að minnsta kosti þeir  sem komnir eru á miðjan aldur. Framan af fór Stefán nokkuð  hefðbundna leið í lífinu, var í Vogaskóla, fór þaðan í MR og svo upp í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á bókmenntir og ensku. Eftir það lá leið hans til London þar sem hann lauk BA námi í fjölmiðlafræði frá Polytechnic of Central London 1979. Þá kom hann heim í nokkur ár og starfað við fréttir og dagskrárgerð hjá RUV og var áberandi í fjölmiðlum. Eftir það hófust kynni Stefáns af alþjóðlegum störfum en hann starfaði um tíma hjá Rauða krossinum í Genf og Eþíópíu og gegndi trúnaðarstörfum víðar, en hann fór um svipað leyti til Bandaríkjanna þar sem hann lauk MA gráðu frá háskólanum í Pennsylvaníu í boðskiptafræðum.

Flestir muna eftir Stefáni sem stjórnanda vinsælu spurningakeppninnar ,,Gettu betur“ á árunum 1991-1994. Hann hóf fljótlega að taka þátt í stjórnmálastarfi, tók meðal annars þátt í undirbúningi og stofnun Samfylkingarinnar á árunum 1999 – 2000 og varð borgarfulltrúi um fimm ára skeið.

Þvælingur um heiminn

Stefán Jón og eiginkona hans Guðrún Kristín Sigurðardóttir hafa þvælst saman um heiminn vegna náms þeirra og vinnu hans en hann hefur verið starfsmaður Utanríkisráðuneytisins í mörg ár. Guðrún hefur lengi starfað sem hönnuður hjá Icewear þar sem hún hannar ullarvörur en hefur líka verið með Stefáni víða, til dæmis þegar hann var staðsettur í Namibíu og Malaví. ,,Þegar ég kom til Rómar fyrir þremur árum var það fimmta landið á ellefu árum sem ég starfaði í svo þvælingurinn hefur verið talsverður,“ segir Stefán og brosir.

Undanfarið hefur Guðrún verið heima á Íslandi á meðan Stefán hefur verið staðsettur úti og þau sættu sig við að vera í fjarbúð um tíma en nú er Stefán kominn heim. ,,Það er af sem áður var að það þyki sjálfsagt að maki, sem oftast voru konur, fylgi manni sínum og hugsi um hann,“ segir Stefán og brosir.

Ætti að vera skyldulesning

Stefán var í Róm í þrjú ár, þar á undan í Úganda í þrjú ár og þar á undan í Malaví og Namibíu. Allur þessi þvælingur hefur fært Stefáni reynslu og þekkingu sem hann hefur nú komið á bók sem sumir segja að ætti að vera skyldulesning en hún hlaut nafnið „Heimurinn eins og hann er“.

Skrifaði bók í einverunni í Róm

Stefán lauk við handritið að bók sinni þegar allir urðu að halda sig heima vegna heimsfaraldurs. Hann var þá staddur í Róm í vinnu fyrir Utanríkisráðuneytið og eins og hann segir brosandi ,,hvað er upplagðara en að skrifa bók þegar maður getur ekkert farið út úr húsi.“

Upphafið að því að Stefán hóf að skrifa þessa bók segir hann hafa verið þegar hann byrjaði að punkt hjá sér atriði um vináttu sína og mikils vinar sem hafði greinst með banvænan sjúkdóm, Viktors Smára Sæmundssonar. Hann rifjaði upp ferðir þeirra úti í náttúrunni þar sem þeir áttu saman margar góðar stundir og ástin á náttúrunni kviknaði. ,,Þessi skrif áttu ekki að verða bók til að byrja með heldur aðeins vangaveltur mínar um lífið og tilveruna nú þegar samferðamenn mínir og jafnaldrar fóru að kveðja þessa jarðvist einn af öðrum. Einn af þeim vinum sem ég hef þurft að kveðja var hundur sem við vorum búin að eiga lengi og það var líka erfitt. Það kennir manni að fara vel með tímann sinn en ég er til dæmis búinn að skrifa fimm minningargreinar undanfarið. Ég fór að skoða heiminn upp á nýtt, hann er að breytast ansi hratt núna og mér þótti gott að velta því fyrir mér. Úr varð þessi bók sem nú er komin út þremur árum eftir að ég byjaði að punkta hjá mér minningar,“ segir Stefán.

Vandamálin blasa við

,,Það er nú að renna upp fyrir okkur að í loftslagsmálunum, vistkerfunum og matvælakerfum mannkynsins eru miklir erfiðleikar og vandamál sem blasa við,“ segir Stefán alvarlegur. „Ef maður skrifar svona sögu í Róm er nærtækt að velta fyrir sér þessu hrunda heimsveldi sem blasir við allt um kring. Hvernig gat það gerst og erum við á einhvers konar viðlíka vegferð og þessir snillingar, sem þá voru uppi, gengu í gegnum?.“

Erum búin að drepa 70% á mínum líftíma

Stóri þráðurinn í bók Stefáns eru hugleiðingarnar hans um náttúruvána sem við stöndum frammi fyrir en hún er líka um störf  hans í þróunarsamvinnu í Afríku og áhyggjur hans af hungri í heiminum. „Ég hélt ég hefi skilið heiminn nokkurn veginn þegar ég var búinn að mennta mig og farinn að taka þátt í lífinu en allt í einu blasti við mér alveg nýtt sjónarhorn,“ segir Stefán. Hann er nú búinn að starfa víða og sjá margt og vera á stóra sviðinu þar sem eru stóru stofnanir Sameinuðu þjóðanna. „Allt í einu uppgötvaði ég samhengi sem ég hafði ekki séð áður sem er að við höfum aldrei staðið frammi fyrir jafn flóknum veruleika og núna. Og það eru mörg neikvæði teikn á lofti. Til dæmis hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að loftslagið og höfin tala saman í einu kerfi. Höfin taka við einum þriðja af því kolefni sem við losum og þau hafa hitnað langt umfram andrúmsloftið. Þetta kerfi, höfin og loftið, tala saman á hverri einustu sekúndu. Höfin taka við alveg gríðarlegum hita sem ekki má losna út. Og svo er það árásin á vistkerfin sem var ein af þessum stóru og hræðilegu uppgötvunum sem ég gerði, en á mínum líftíma erum við búin að drepa 70% af öllum dýrum og plöntum, fuglum og hryggleysingum á jörðunni. Hvað finnst ykkur um það?“

Erum í þjónustu vistkerfanna en ekki herrar

Stefán vitnar í ýmsar merkar manneskjur sem hafa haft áhrif á hann og þar á meðal er Leonardo da Vinci sem sagði „Allt tengist“ og annar er Guðmundur Páll Ólafsson sem sagði: „Við höfum náð að skilja einstaka hluti lífsins í þeim tilgangi að skilja betur hvert einstakt brot en þar með höfum við misst sjónar á heildinni.

„Og hvernig segjum við þessa sögu þannig að fólk skilji en án þess að það falli í þunglyndi yfir þessari hræðilegu stöðu sem við erum búin að koma okkur í?“ spyr Stefán Jón.

„Ég hef gaman af að segja frá þessum furðulegu árum í Róm, það er um 1500, þegar endurreisnin hefst. Þá eru Michaelangeló, Leonardó da Vinci og Rafael samankomnir þrír að skapa þessi stórkostlegu listaverk. Þar er rosalegur sköpunarkraftur samankominn á einum punkti og ég held við þurfum nú að undirbúa okkur undir nýja endurreisn og virkja sem best þann sköpunarkraft sem við búum yfir í dag. Ég fékk þessa knýjandi þörf fyrir að leggja mitt af mörkum og reyna að koma fleirum í skilning um þessa aðsteðjandi hættu með því að skrifa bókina „Heimurinn eins og hann er“,“ segir Stefán Jón Hafstein sem er mikið niðri fyrir um hættuna sem steðjar að okkur mannfólkinu og nauðsyn þess að við leggjumst á eitt.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

 

Ritstjórn desember 30, 2022 08:00