Bogi Ágústsson og jólasiðirnir

Bogi  Ágústsson

Frá jólaboði á Amtmannsstíg 2. Bogi er litla barnið lengst til hægri á myndinni.

Eins og alþjóð veit er minni Boga Ágústssonar um ólíklegustu málefni geysilega  mikið, okkur hinum til ómældrar ánægju og fróðleiks. En þegar hann er beðinn um að rifja upp jólasiðina úr æsku spyr hann hlæjandi hvort ekki megi bjóða mér að spyrja sig um Brexit. Það sé honum ofarlega í huga þessa dagana. Hann muni nefnilega ekki svo mikið eftir sérstökum jólasiðum úr eigin æsku og sé í rauninni enginn sérstakur jólastemmningsmaður. En þegar gengið er á Boga kemur nú eitt og annað í ljós.

Bogi segir að hans eigin fjölskylda hafi eiginlega viðhaldið jólasiðum úr æsku að undanskilinni laufabrauðsgerðinni. “Móðir mín var að norðan og kom með þann sið svo ég vandist því að skera laufabrauð sem barn og unglingur en ég og konan mín höfum ekki viðhaldið þeim sið.” Bogi minnist þess ekki að hafa fengið í skóinn sem barn þótt hann hafi látið jólasveininn gefa sínum eigin börnum skógjöf. Það hafi bara ekki tíðkast þegar hann var barn svo hann muni. Hann fékk hins vegar mikið af bókum í jólagjöf enda haft gaman af lestri frá því að hann varð læs.

Í æsku Boga var oftast lambahryggur á borðum á aðfangadag enda var það sparimaturinn í þá daga, en á heimili hans nú er oftast hafður hamborgarhryggur eða annað svínakjöt. Rjúpur eða hreindýr voru ekki á borðum á jólunum í æsku hans og svo sé ekki heldur á hans heimili í dag.

Nú, eins og þá, hafa fjölskylduboðin viðhaldist líkt og hjá flestum Íslendingum.

Í barnæsku Boga komu systkini föður hans og fjölskyldur þeirra saman á heimili Sigfúsar Sighvatssonar, ömmubróður hans. Sigfús og fjölskylda hans bjuggu í stóru húsi sem langafi og –amma Boga byggðu að Amtmannsstíg 2. Það hús er nú í eigu Menntaskólans í Reykjavík. “Þetta var alltaf fjölmenn veisla, nokkurskonar ættarmót,” segir Bogi og bætir við að þessar veislur séu sér minnisstæðastar úr jólum æskunnar. “Þarna komu saman afkomendur langafa og –ömmu og það var mikill fjöldi og alltaf gaman.”

Í dag segir Bogi að nú séu stærstu hefðirnar fjölskylduboðin sem allir kannast við. Nánasta fjölskylda komi saman á aðfangadag og á jóladag. “Þetta eru hefðir sem víðast eru viðhafðar nema núna um þessi jól sem verða öðruvísi en alltaf. Allur jólaundirbúningur hófst  mun fyrr en í venjulegu ári út af faraldrinum og svo verða öll veisluhöld minni í sniðum en við erum vön. Við verðum að laga okkur að því þessi jól og mig grunar að margir muni sakna boðanna,” segir Bogi sem er nú líklegast meira jólabarn en hann heldur.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn desember 22, 2020 07:49