Sveitastrákur sem lét drauma rætast

,,Mér finnst eins og ég sé að segja frá því sem gerðist á nítjándu öld þegar ég tala um æsku mína en hún átti sér sem sagt stað á þeirri tuttugustu,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og brosir. Hann hefur allskonar titla í lífinu eins og rithöfundur, tónlistarmaður og útgefandi þrátt fyrir að hafa kosið að fara ekki í langskólanám. Aðalsteinn  segir að ef við berum gæfu til að nýta okkur það sem lífið færir okkur sé lífsins skóli ómetanlegur. Svo sé alltaf hægt að bæta við menntunina í rólegheitum.

Alinn upp með gömlu fólki

Aðalsteinn er fæddur á Húsavík og alinn upp á sveitabænum Öndólfsstöðum í Reykjadal þar skammt frá og á bænum voru afar hans og ömmur líka. ,,Það er sannarlega gæfa mín að hafa alist upp með mörgu gömlu fólki. Ég ólst upp við sagnamennsku og gamla íslenska menningu sem hefur verið ómetanlegt veganesti.“ Aðalsteinn segist hafa áttað sig á því hvað hann græddi mikið á því sjálfur að hafa alist upp með gömlu fólki því börn fái innsýn í annan heim í gegnum eldra fólk

Karlakórsæfingarnar settu sín spor

Annað sem mótaði Aðalstein eflaust sem barn var að hafa setið karlakórsæfingar með föður sínum allt frá fimm ára aldri, ,,Pabbi minn bæði bóndi og húsgagnasmiður og var með trésmíðaverkstæði á bænum sem hentaði til æfinga fyrir karlakórinn í sveitinni og þá var það auðvitað nýtt. Ríkisútvarpið var auk þess alltaf í gangi þar sem hljómaði ýmis tónlist og fróðleikur. Gömul íslensk menning síaðist því inn óumbeðið sem varð til þess að ég byrjaði snemma að hlusta á þjóðlagatónlist sem verður svo að hluta minn grunnur í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina.

Skrifaðist á leti að kjósa frekar lestur en að vinna

Aðalsteinn segist ekki hafa verið mikið fyrir bústörf sem barn en naut þess í staðinn að vera inni að lesa,. ,,Það skrifaðist auðvitað á leti að vilja frekar liggja í bókum en að moka skít út úr

5 ára í sveitinni og ekki farinn að lesa en mátar í staðinn boxhanska.

fjárhúsunum eða mjólka kýrnar en mér þótti það aldrei gaman. Foreldrar mínir voru hins vegar skilningsrík og ég nýtti fyrsta tækifæri sem gafst til að komast ,,út í heim”.

Tónlistin dró hann að Verslunarskólanum

,,Ég vildi fara til Reykjavíkur sem mér þótti stórborg þar sem ævintýrin og tækifærin biðu mín og það reyndist svo auðvitað vera. Ég naut þess virkilega að vera í Verslunarskólanum sem ég valdi af því ég hafði séð kór skólans í sjónvarpinu og þótt hann mjög skemmtilegur og var því fljótur að koma mér í kórinn. Eftir grunnnám valdi ég að fara í máladeild, enda hafði ég verið heppinn með tungumálakennara, en verslunarfögin hafa auðvitað nýst mér vel þrátt fyrir að ég væri ekki jafn áhugasamur um þau. Ég er að tala um vélritun og bókfærslu. Ég færi til dæmis allt mitt bókhald sjálfur,“ segir Aðalsteinn hróðugur. Tungumálin hafa nýst honum vel því ,,þýðandi” er einn af titlunum sem hann ber.

Fór í háskólann en hafði ekki tíma fyrir námið

Eftir stúdentsprófið fór Aðalsteinn í Háskólann en fann sig ekki þar og ákvað að hætta. ,,Ég byrjaði snemma að hlusta á þjóðlagatónlist og þar er minn grunnur. Þar lá áhugi minn og spratt svo fram í því sem ég fór að gera síðar. Ég var farinn að skrifa ljóð og semja tónlist og gekk til liðs við félagið  Vísnavini þar sem ég fann mig mjög vel. Ég fór líka söngtíma hjá Göggu Lund og svolítið í tónskóla Sigursveins en hef ekki farið í formlegt tónlistarnám. Ég lærði bara sjálfur að glamra á gítar. Og svo var ég tvo vetur í Leiklistarskóla Helga Skúlasonar, en námið þar hefur nýst mér við að lesa upp og koma fram.”

Aðalsteinn 10 ára. Upprennandi sauðfjárbóndi með forustukindina Hosu.

Sérstök menning að vera sjálfbjarga

Aðalsteinn var ungur þegar honum skildist að maður ætti að vera sjálfbjarga og geta gert flest sjálfur. ,,Það hefur auðvitað skipt miklu málið að ég hef ekki verið að efast mikið um eigin getu. Ég hef hiklaust látið verða af því að gera það sem mig hefur langað til að gera og það hefur gengið meira og minna. Menntun rithöfunda byggist auðvitað fyrst og fremst á lestri.  Þaðan kemur menntun þeirra að stórum hluta þótt auðvitað sé hægt að stytta sér leiðina með því að fara í skóla en grunnurinn er samt sá sami.”

Hefur viljað fara eigin leiðir

1983 kynnist Aðalsteinn Önnu Pálínu Árnadóttur og þá hófst nýr kafli í lífi hans. Þau áttu farsælt líf og samstarf í tvo áratugi, eignuðust saman þrjú börn, sem öll eru viðriðin tónlist, og gáfu út fjölda hljómplatna, en Anna Pálína lést langt um aldur fram 2004. Rauður þráður í gegnum líf Aðalsteins er sjálfstæði og sú vissa að það sé betra að einbeita sér að því sem maður hefur gaman að. ,,Ég læt frekar illa að stjórn,” segir hann og brosir. ,,Það hentar mér mjög vel að hafa getað ráðið ferðinni þegar  það á við. Það kom í ljóst að það hentaði mér mjög vel að geta stofnað og stjórnað útgáfumálum eftir mínu höfði. Þess vegna varð Dimma til árið 1992. ,Líf okkar Önnu Pálínu snerist bæði um heimili og vinnu. Útgáfan var hugsuð sem aukabúgrein sem síðan vatt upp á sig og er nú að verða þrjátíu ára.”

Nýr kafli með öðrum áskorunum

Aðalsteinn segist hafa haldið að tónlistarkaflinn í lífi sínu hefði verið búinn við fráfall Önnu Pálínu. Hann komst að því að svo var ekki og að lífið hélt áfram þrátt fyrir allt. Útgáfan vatt upp á sig og síðan hefur Dimma gefið út fjölda bóka og hljómdiska, m.a. djasstónlist og þar má nefna tónlist með Sigurði Flosasyni, Gunnari Gunnarssyni, Kristjönu Stefánsdóttur, Andrési Þór og Agnari Má Magnússyni að ógleymdum Svavari Knúti úr þjóðlagageiranum. ,,Í bókaútgáfunni er ég svo heppinn að hafa mikilvirkan og virtan höfund sem heitir Gyrðir Elíasson.”

Hugsar ekki um aldurinn

Aðalsteinn segir að hann hafi haft að leiðarljósi að gera helst ekki það sem hann hefur ekki gaman af. ,,Nú verða 30 ár á næsta ári síðan ég stofnaði þetta litla fyrirtæki og ég hugsa að ég haldi áfram að vinna við það á meðan ég hef ánægju af þeim verkefnum sem því fylgja. Ég á mjög erfitt með að hugsa mér einhvern endi á því.”

Ástin á bókinni

Aðalsteinn segist vera  gamaldags útgefandi. ,,Ég gef út bækur af því þær eru og hafa alltaf verið partur af lífi mínu. Ég hef ekki mikinn áhuga á nýjum miðlum. Í mínum huga er það efnið, umgjörðin og útlit bókanna sem spilar saman. Bók er í rauninni flókið fyrirbæri sem þarf að samsvara sér vel,” segir hann og bætir við að sem betur fer hafi sumt af því sem hann hefur gefið út gengið mjög vel. ,,Maður verður víst ekki ríkur af útgáfu, en ef öll verkefni ganga illa missir maður auðvitað móðinn. Sem betur fer hafa flest verkefni sloppið fyrir horn og sumt hefur gengið mjög  vel. Útgáfan mín er fyrst og fremst  hugsjón, en um leið lifibrauð að hluta.”

Sérviska mín fær að ráða

Sumir hugsa fram í tímann og vilja gæta þess að gera ýmislegt áður en þeir verða of gamlir til að geta það lengur. Aðalsteinn segist ekki hugsa mikið um það og kannski sé það hans sérviska. Hann viðurkennir þó að hugsa um líkamann og heilsuna og hafi tekið upp á því að skokka þegar hann varð fertugur. ,,Mér finnst ég verulega heppinn að vera við góða heilsu en það er ekki af því ég stundi einhverjar hópíþróttir. Það rímar mjög vel við það hvernig ég kýs að lifa lífinu því ég fer út að skokka þegar mér hentar, hleyp helst þrisvar í viku og það gerir u.þ.b. 20 km í viku. Það virkar mjög vel fyrir mig.”

Ástin og áhugamálin

Aðalsteinn varð ástfanginn að nýju fyrir 8 árum og er giftur Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur þýðanda og frönskukennara í Kvennaskólanum. Hún hefur komið inn í fyrirtæki hans sem þýðandi svo í annað sinn nýtur hann þess að vera giftur konu sem deilir með honum áhugamáli. ,,Ég er reyndar svo heppinn að Jóhanna hefur líka svolítið önnur áhugamál en ég og stundum nær hún að draga mig út úr bókaskápnum. Við höfum ferðast mikið saman og eigum fallegan garð sem hún ræktar af alúð, en ég reyni að hjálpa til. Hún hefur gaman af að fara á skíði, en það er ekkert fyrir mig. Við höfum samt farið í skíðaferðir þar sem hún skíðar á meðan ég skrifa. Það væri hvorki gaman fyrir mig né hana ef ég færi að brölta eitthvað á skíðum sem gæti endað með ósköpum.”

Að verða gamall

Aðalsteinn segist ekki kvíða því að verða gamall maður. ,,Ég hlakka til að verða eldri en er meðvitaður um að það geti verið erfitt fyrir samferðafólk mitt ef sérviska mín fer að taka yfir. Ég mun reyna að verða ekki allt of óstýrilátur þegar að því kemur,” segir Aðalsteinn og hlær.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 20, 2021 07:00