Lengi lifir í gömlum lygaglóðum

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Lygin og lygasögur hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og flest okkar hafa brugðið fyrir okkur hvítri lygi um ævina. Einstaka konur og menn hafa gerst stórlygarar og nokkrum úr þeirra röðum hefur tekist að lifa góðu lífi á lygum. Það gerði til dæmis islenska dvergkonan og Húnvetninginn Ólöf Sölvadóttir, en ævisaga hennar, “Ólöf Eskimói”, kom út árið 2004.

Lygar leiða sjaldan til góðs, en þó kemur það fyrir endrum og eins, að þær koma að gagni.

Ég varð óvænt vitni að einu slíku tilfelli, þegar ég var stödd á fundi um umhverfisvernd í heimabæ mínum Santa Barbara í Kaliforníu, þar sem vitnað var í lygi úr einni af lygasögum Ólafar til að réttlæta stuðning við baráttuna gegn hlýnun jarðar.

Áður en ég segi þá sögu, ætla ég að segja nokkur deili á Ólöfu sjálfri og hvernig það æxlaðist að hún gerðist stórlygari í Ameríku.

Ólöf fæddist árið 1858 að Ytri-Löngumýri í Svínavatnshreppi í Húnavatnssýslu.

Þegar hún var 18 ára, árið 1876, flutti hún af landi brott ásamt fjölskyldu sinni til Ameríku.

Þar lést hún í úthverfi Chicago borgar árið 1937, 79 ára að aldri, eftir langan frægðarferil og varð andlát hennar að frétt í stórblaðinu Chicago Tribune.

Framalíkur ómenntaðrar dvergkonu frá Íslandi voru ekki miklar í Ameríku á þessum árum, en Ameríka hafði þó eitt fram að bjóða, sem Ísland hafði ekki: Fjölleikahús, þar sem dvergar, risavaxið fólk og manneskjur af framandi toga gátu aflað sér lífsviðurværis með því að sýna sig.

Ólöf var ekki lengi að uppgötva þennan starfsmöguleika og réði sig til starfa í fjölleikahúsi, þar sem hún var til sýnis sem eiginkona dvergs.

Sirkússtarfið hefði getað orðið ævistarf Ólafar, en örlögin ætluðu henni annað og meira, því Ólöf brá sér fljótlega í dulargervi Eskimóakonu, og með lygina að vopni, sagði hún sögur af lífi sínu á Grænlandi og varð fyrir vikið bæði fræg og rík í Ameríku.

Þessu óvænti viðsnúningur á lífi Ólafar réðist af því, að á þessum árum kepptust menn, einkum og sér í lagi Bretar og Norðmenn, um að verða fyrstir manna til að stíga fæti á Norðupólinn.

Bandaríkjamenn áttu líka sinn fulltrúa í keppninni, landkönnuðinn Róbert E. Peary. Hann skar sig úr hópi keppenda, að því leyti að hann taldi vænlegast að komast á Norðurpólinn landleiðina í gegnum Grænland. Og honum tókst það og varð hann fyrstur manna á Norðurpólinn, en það var árið 1909.

Mikill áhugi fyrir þessari Norðurpólskeppni Peary ríkti meðal Bandaríkjamanna; síðar var sagt að áhugi þeirra á kapphlaupi hans hafi jafnast á við hinn eldheita áhuga sem seinna greip um sig meðal Bandaríkjamanna á keppninni um að verða fyrstir allra til að senda menn til tunglsins.

Á tímum Róbert E. Peary komst hið áður óþekkta land Grænland skyndilega í brennidepil og óhemju mikill áhugi blossaði upp meðal Bandaríkjamanna á þessu nálæga, en um leið framandi landi og íbúum þess.

Ólöf var gjarnan spurð að því hvaðan hún væri og þegar hún svaraði því til að hún væri frá Íslandi ráku menn upp stór augu og sögðu að þar sem hún væri frá landi ísa hlyti hún að vera Eskimói.

Ólöf var í fyrstu afar ósátt við þennan misskilning, en þegar prestur nokkur bauð henni að koma í kirkjuna til sín til að fræða sóknarbörn hans um lífið á Grænlandi, gegn góðri greiðslu, sló hún til. Hún fór heim og samdi skrautlega sjálfsævisögu um líf sitt á Grænlandi, sem að vonum var lygasaga frá upphafi til enda.

Eins og sóknarpresturinn vænti, fylltist kirkjan af aðdáendum Peary til að hlusta á Ólöfu. Frásögn hennar sló rækilega í gegn og markaði upphaf frægðarferlis hennar sem fyrirlesara og eins aðalsérfræðings Bandaríkjanna um Grænland og líf Eskimóa þar.

Á  áratuga löngum ferli sínum sem Ólöf Eskimói, ferðaðist Ólöf um Bandaríkin þver og endilöng og flutti, áður en yfir lauk, 2500 opinbera fyrirlestra um mannlífið á Grænlandi.

Menntafrömuðir landsins gerðu sér fljótt grein fyrir því að fræða þurfti skólabörn í barnaskólum í landsins um Grænland og íbúa þess. Engar kennslubækur um þetta efni voru til, svo útgáfu fyrirtækið Rand McNally réði kennslukonu að nafni Mary E. E. Smith til að skrifa kennslubók sem hlaut nafnið Eskimo Stories, og kom bókin út árið 1902. Bókin var notuð sem kennslubók í bandarískum barnaskólum í hálfa öld og mótaði hugmyndir Bandaríkjamanna um líf og menningu Grænlendinga um langan aldur.

Við gerð bókarinnar studdist Mary E.E. Smith að miklu leyti við ævisögu Ólafar Eskimóa, sem rithöfundurinn Albert S. Post hafði skráð eftir Ólöfu. Sú bók kom út árið 1887 og naut mikilla vinsælda og var meðal annars á námsskrá nemenda við kennaradeild Columbia háskóla í New York um árabil.

Ólöfu var að vonum annt um, að enginn gæti þefað það uppi að hún væri ekki grænlenskur  Eskimói, heldur bara dvergkona ofan af Íslandi og gerði allt sem hún gat til að tryggja að sannleikurinn um uppruna hennar kæmi ekki í ljós.

Ólöfu, sem var í senn séð og slungin,varð ljóst að í stað þess að forðast að nefna Ísland á nafn í frásögn sinni væri mun tryggara að hafa Ísland með og tókst henni listilega að flétta Íslandi inn í frásögn sína.

Það gerði hún á eftirfarandi hátt: Hún sagðist hafa fæðst og búið með fjölskyldu sinni í litlu þorpi nyrst á austurströnd Grænlands. Þar bar til tíðinda dag einn, að íslenskt hvalveiðiskip strandaði við strönd þorpsins, skipið brotnaði í spón, en áhöfnin bjargaðist öll og dvaldi vetralangt í þorpinu góða.

Þegar sólin fór að hækka á lofti að vori fylltust íslensku hvalveiðimennirnir heimþrá og báðu föður Ólafar um að lána þeim hundana sína og hundasleða til að komast aftur til Íslands yfir ísbrúna, sem Ólöf sagði að lægi á milli þorpsins hennar nyrst á austrströnd Grænlands og Íslands.

Faðir hennar var fyrst í stað tregur til af ótta við að hann mundi aldrei fá hundana sína aftur, en svo sló hann til og ákvað að fara með hvalveiðimönnunum til Ísland. Og var Ólöf með í för.

Að sögn Ólafar bjuggu þau dágóðan tíma á íslenskum bóndabæ og þar lærði hún að tala íslensku. Því til sönnunar söng hún oft vísu á íslensku fyrir áheyrendur sína.

Áætlanir þeirra um að snúa aftur heim til Grænlands breyttust þó og í stað að fara til baka til Grænlands, slósust hún og faðir hennar í hóp Íslendinga, sem voru að flytja til Ameríku.

Fyrir nokkrum árum sótti ég fund í Santa Barbara, þar sem forystukonur-og menn allra helstu trúarsöfnuða bæjarins voru saman komnir til að fjalla um hlýnun jarðar og hættuna sem af henni stafar.

Hver forkólfurinn á fætur öðrum steig í pontu og skýrði frá því hvað olli því að þeir sjálfir og söfnuðir þeirra ákváðu að leggja lóð sitt á vogarskálarnar í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Síðasti ræðumaðurinn var eldri Baptista prestur úr einum íhaldsamasta kirkjusöfnuði bæjarins. Hann sagði sem satt var, að hann og söfnuður hans hefði, ólíkt öllum öðrum söfnuðum í bænum, lengi ekki trúað á sannleiksgildi kenninga fræðimanna um hamfarahlýnun og ógnina sem af henni stafaði.

En svo snérist honum hugur. Og þetta var það sem olli því: Hann hafði, að sögn, hitt mann sem hann þekkti vel og treysti. Þessi maður hafði sagt honum að nú væri ísbrúin mikla milli norðausturs Grænlands og Íslands horfin, hún hefði bráðnað vegna hlýnunar sjávar, og nú kæmist enginn lengur yfir ísbreiðuna milli norðausturstrandar Grænlands og Íslands.

Baptista presturinn skildi að sögn, að mikið hlyti að hafa þurft til að önnur eins ísbreiða hefði horfið si sona, svo honum varð ljóst að eitthvað óeðlilegt væri á seiði.

Í framhaldi af því tókst honum að sannfæra söfnuð sinn um sannleiksgildi kenninga um loflagsvána. Og nú studdi hann sjálfur og söfnuður hans þessa baráttu af heilum hug.

Ljóst er að hugmyndin um tilvist ísbrúarinnar miklu var sótt í lygasmiðju Ólafar og í þetta sinn leiddi lygasaga Ólafar til góðs!

Ekki sem verst!

 

Inga Dóra Björnsdóttir ágúst 7, 2023 07:00