Karlar söfnuðu hnífum, konur skeiðum, en hvað með gafflana?

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

 

Það hefur hent mig nokkrum sinnum að miðaldra karlmenn hafa stoltir boðist til að sýna mér hnífa- safnið sitt. Þessi hnífasöfn voru hýst í sértilgerðum,vönduðum skápum. Og í þeim mátti sjá hnífa af ölíkum stærðum og gerðum, sumir með breiðum, aðrir með miðlungs og enn aðrir með mjóum blöðum, en allir voru þeir með hvössum og vel slípuðum eggjum og með fagurlega gerð sköft, útskorin úr viði eða úr beini….

Ég þekkti líka konur sem söfnuðu skeiðum, einkum úr silfri, og nokkrar þeirra bjuggu svo vel að eiga skeiðarekka, þar sem þær gátu stillt upp sínum fallegustu skeiðum og haft til sýnis uppi á vegg í stásstofum sínum.

Silfurskeiðar voru, eins og amma mín fræddi mig unga um, lengi vel eitt það mesta og dýrasta djásn, sem finna mátti á íslenskum heimilum. Flest heimili áttu enga silfurskeið, aðeins tréskeiðar eða hornskeiðar, þegar vel lét. Nokkrar áttu örfáar silfurskeiðar, en heldri manna heimili prýddu oft tugir silfurskeiða, sem reyndust vera eitt það verðmætasta af lausamunum í innbúi þeirra.

Þetta átti við um heimili langalangaafa míns, sem var prestur að Ásum í Skaftafellssýslu. Hann lést árið 1891, af drykkju, aðeins 45 ára að aldri, skuldum vafinn. Hann skildi eftir sig konu og 15 börn og eins og tíðkaðist þá, var heimili prestekkjunar leyst upp og eignir búsins seldar á uppboði af hreppsnefndinni til að greiða upp í skuldir manns hennar.

Það eigulegasta af innbúi þeirra hjóna reyndist vera tólf silfurskeiðar, sem fóru fyrir tvær krónur hver á uppboðinu, sem taldist miklir peningar á þeim tíma. Ekkjan fylltist trega við að missa þessa djásnir úr eigu sinni og kaupandinn sá aumur á henni og bauð henni að kaupa þær til baka á sama verði og hann hafði keypt þær. Ekkjan hafði að vonum ekki efni á því, og svo fór að einhver velviljaður henni, keypti tvær skeiðar og gaf henni, og þessar skeiðar ku enn vera til í eigu afkomenda hennar.

Þegar ég heyrði talað um hinar mismunandi gerðir skeiða, sem Íslendingar notuðu, þá taldi ég að sú staðreynd að Íslendingar notuðu aðeins hnífa og skeiðar, en ekki gaffla, þegar þeir neyttu matar síns, réðist af því að þeir sátu á rúmstokknum í baðstofunni og átu mat sinn úr öskum, en sátu ekki við matarborð og sneiddu mat af flötum diskum, eins og nú tíðkast. – En nýlega komst ég að því, að þessir þættir réðu því ekki að Íslendingar neyttu matars síns aðeins með hnífum og skeiðum, heldur réði því djúp andúð hinnar kristnu kirkju á göfflum og notkun þeirra.

Gafflar og notkun þeirra töldust vera ögrun og ógn við Guð, skapara mannsins. Guð hafði skapað manninn með sína guðsgaffla, hina tíu fingur, og það voru helgispjöll að nota manngert áhald við að neyta matar síns í stað þessarar miklu Guðsgjafar, fingur og hendur.  Maðurinn átti að handleika matinn, en ekki særa hann og skemma með gaffal að vopni. – Þegar býsantísk prinsessa, búsett í Feneyjum, lést af Svartadauða, var gaffalnoktun hennar kennt um, en gafflar höfðu verið notaðir í Miðausturlöndum allt frá tímum Forn Egypta.

Gafflar sáust fyrst á matarborðum í Evrópu á sautjándu öld, og þá nær einungis hjá aðlinum og það var ekki fyrr en undir lok 19. aldar að gafflar komust í almenna noktun meðal kristinna Vesturlandabúa.

Nú er ég ekki nógu kunnug um hvort eitthvað sé um að ungir menn á Íslandi safni hnífum, en ég þykist vita að ungar konur á Íslandi í dag hafi almennt ekki mikinn áhuga á að safna skeiðum, sérstaklega ekki silfurskeiðum, sem fellur á og þarf að pússa reglulega….þær hafa svo mörgu að sinna.

Kristileg viðhorf réðu því að gafflar voru óþekktir á Íslandi lengst af, en það er aldrei að vita, nema einhverjir, konur eða karlar, taki upp á því, nú á 21. öld, að safna göfflum….

Inga Dóra Björnsdóttir nóvember 15, 2023 22:29