Lesandann langar í meira

Una reynir að synda í þykku sírópi. Hún hefur ekki ánægju af neinu lengur, finnur engar tilfinningar, er bara dofin og hefur misst allan lífsþorsta. Læknirinn hennar stingur upp á að hún nýti sér nýtt tilraunakennt meðferðarúrræði í litlu þorpi úti á landi þar sem myrkrið er allsráðandi í svartasta skammdeginu. Una fer og upp á yfirborðið taka að fljóta minningar úr æsku. Þetta er helsti söguþráður Kul, nýrrar skáldsögu Sunnu Dísar Másdóttur.

Það hljómar kannski ekki líklega að hægt sé að skrifa spennandi bók um kulnun og afleiðingar streitu en Sunnu Dís tekst það. Kul er spennandi og athyglisverð bók. Frá fyrstu stundu smeygir Una sér inn að hjartarótum lesandans og honum er ekki sama um hvernig fer fyrir henni. Hann er líka spenntur að vita hvað varð til þess að hún er komin á þennan stað í lífi sínu. Hvað gerðist í æsku hennar og hvers vegna talar hún ekki við Magga bróður sinn? Þetta verður til þess að maður les og les allt þar til bókin er búin.

Í þorpinu, sem manni finnst að hljóti að vera vestur á fjörðum, kynnist Una alls konar fólki. Sævari, hinum stóíska, sem hefur búið allt sitt líf í þessu litla þorpi, tekist á við náttúruöflin og séð ýmislegt koma og fara. Hákoni, hinum hugmyndaríka frumkvöðli, drífandi og aðlaðandi en kannski ekki endilega sá sem hleypur brautina á enda. Listakonan Myrra, hugmyndarík og skapandi en umfram allt umburðarlynd og styðjandi en úthaldið kannski ekki hennar besti eiginleiki frekar en hjá Hákoni. Við sögu koma einnig samferðamenn Unu í meðferðinni, náttúra staðarins, fjölskylda og vinir Unu. Allt vel unnar og lifandi persónur.

Þessi fyrsta skáldsaga Sunnu Dísar Másdóttur er vel uppbyggð og áhugaverð. Flestir geta samsamað sig Unu, sem setur undir sig hausinn og keyrir í gegnum lífið án þess að staldra mikið við eða reyna að gera upp hlutina. Fyrr eða síðar lendir slíkt fólk á hinum margumtalaða vegg og verður að skoða sjálft sig og sambönd sín við aðra. Þetta er ein af þessum bókum sem skilja lesandann eftir hungraðan í meira. Hann langar að fylgja Unu áfram, vita meira um fjölskyldu hennar og vinina og samferðafólkið í meðferðarúrræðinu fyrir vestan, ef það er fyrir vestan. Það er vart hægt að gefa bók betri meðmæli en það.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 26, 2024 07:00