Lesgleraugun fyrsta merkið um aldurinn

Jón Snædal

Sjónin breytist þegar við eldumst og það kemur að því að flest okkar þurfa að fá sér lesgleraugu. Þessu valda breytingar í augasteinunum sem verða stífari með aldrinum þannig að þeir breyta ekki lögun sinni jafn auðveldlega þegar horft er á hluti í mismunandi fjarlægð, og þeir gerðu þegar við vorum yngri.

Miklar tækniframfarir í augnlækningum

Jón Snædal öldrunarlæknir segir nú sé hægt að lækna marga augnsjúkdóma með nýrri tækni. Ský á auga sé  algengt þegar aldurinn færist yfir, en miklar tækniframfarir í augnlækningum komi í veg fyrir blindu af þeim sökum og einnig vegna gláku, þar sem hægt sé að halda þýstingi í augunum niðri. Fólk með til að mynda sykursýki geti þurft að vera í eftirliti til að  það fái ekki blindu. Þetta hafi gengið vel og blinda meðal eldra fólks sé orðin miklu sjaldgæfari en áður var.  Tæknin hafi gert það auðveldara að skipta um augasteina en áður. Efnin sem eru notuð ‚í aðgerðinni séu betri og tæknin öruggari en var, en augasteinsaðgerðir eru nú algengasta læknisaðgerð í heiminum.

Heyrnardeyfa einn áhættuþáttanna í heilabilun

„Ég held að heyrnartap sé meira vandamál hjá eldra fólki“, segir Jón. „Ég held að það sé lúmskara en sjóntap. Menn bregðast seinna við og verður hættara við að eingangra sig. Þröskuldurinn fyrir sjónina er lægri og menn bregðast strax við ef eitthvað er að og fara til augnlæknis“. Jón segir að í breska læknatímaritinu Lancet hafi verið samantekt á rannsóknum á því hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir heilabilun.  Þar kom fram að 2/3 af orsökum heilabilunar eru erfðir og aldur, en 1/3 er vegna einhvers sem menn geta sjálfir haft áhrif á. „Það kom á óvart að heyrnardeyfa er einn áhættuþáttanna í heilabilun“, segir hann.

Menn átta sig síður á heyrnartapi en sjóntapi

Það eru fyrst og fremst  hrörnunarbreytingar í innra eyra sem  valda því að heyrnin dofnar með aldrinum. En það getur einnig verið að fólk sé með mergtappa í eyrnagöngunum sem er hægt að hreinsa og laga.  En hvað heldur Jón Snædal að valdi því að menn bregðast seinna við heyrnartapi en sjóntapi? „Það getur verið hégómaleiki, að menn vilji ekki fara að ganga með heyrnartæki á meðan það þykir allt í lagi að ganga með gleraugu. Gleraugnanotkun er almennari en notkun heyrnartækja.  Heyrnin dofnar líka svo hægt að menn átta sig ekki á því. Það eru hæstu tónarnir sem fara fyrst. Menn laga sig að því . Þú ert kannski að tala við einhvern og það er skvaldur í kring og þú skellir skuldinni á skvaldrið. Svo kemur þú heim og finnst þetta allt í lagi. Menn átta sig ekki jafn vel á heyrnartapi og sjóntapi“.

 

Ritstjórn október 9, 2019 08:01