Margskipt gleraugu

Yfirleitt breytist sjónin hjá fólki sem er komið yfir miðjan aldur. Uppúr fertugu byrja margir að nota lesgleraugu, en þegar fólk er komið um fimmtugt þarf það oft á margskiptum gleraugum að halda. Það sem gerist með aldrinum er að augasteinninn, sem er eins og linsa í auganu, verður stífur með aldrinum og hættir að geta breytt lögun sinni, verða ýmist kúptur eða flatur, eftir því hvort sjónin beinist að einhverju sem er nálægt, eða öðru sem er fjær. Þá koma gleraugun til skjalanna.

Margskipt gleraugu verða betri og betri

Flestir fá sér margskipt gleraugu, með glerjum sem á fagmáli nefnast „progressive“ gler. Þau virka þannig að styrkur glersins er vaxandi eftir því sem neðar dregur í glerinu. Neðst er glerið sterkast. Björn Már Ólafsson augnlæknir segir að margskiptu glerin séu stöðugt að verða fullkomnari og til að mynda sé breidd lesglersins neðst orðin meiri en áður var. En hann segir að ýmsir kjósi að eiga jafnframt lestrargleraugu með einum styrkleika til að lesa uppí rúmi á kvöldin, því margskiptu gleraugun henti ekki jafn vel í það.

Margskipt gler eru á breiðu verðbili og sama gildir um gleraugnaumgjarðirnar.

Margskiptir augasteinar í stað gleraugnanna

Með aldrinum vill koma ský á augað og þá er hægt að skipta um augasteina.   Það hafa orðið miklar framfarir í gerviaugasteinum að sögn Björns Más. Nú eru komnir margskiptir gerviaugasteinar, sem virka svipað og margskipt gleraugu og gera það að verkum að fólk þarf ekki lengur að ganga með gleraugu. Eldri gerð gerviaugasteina var einungis með einn styrkleika og gat fólk þá valið um hvort það vildi vera með lesgleraugu, eða gleraugu til að horfa fjær sér.

Dýrari en venjulegir augasteinar

Björn Már segir þess dæmi að fólk sem vill geta hætt að ganga með gleraugu, fái sér margskipta augasteina nokkuð snemma á ævinni. En þeir eru dýrari en venjulegir augasteinar og Sjúkratryggingar borga ekki í þeim, en greiða hins vegar fyrir augasteinsaðgerðir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 

 

 

Ritstjórn mars 2, 2015 12:49