Markus Klinger kom fyrst til Íslands árið 1988. Þá var hann nýútskrifaður sjóntækjafræðingur og rekinn áfram af ævintýraþrá. Hann langaði að prófa að vinna og búa í öðru landi. Það er óhætt að segja að það hafi reynst örlagaríkt ævintýri því hann hefur búið hér meira og minna síðan og kynnst uppsveiflum og dýfum íslensks efnahagslífs. Markus er hins vegar ævinlega fyrstur til að bjóða aðstoð sé hennar þörf.
Það vakti talsverða athygli í fjölmiðlum þegar Markus bauð öllum börnum er hingað kæmu frá Úkraínu ókeypis sjónmælingar og gleraugu. Þetta var hans framlag til stuðnings því fólki er hingað þurfti að flýja undan ógnum stríðsins. Hann hefur einnig styrkt margvísleg íslensk góðgerðarfélög rausnarlega og í áratugi ferðast til Vestmannaeyja og á Vestfirði til að bjóða þjónustu sína þar. Það vakti nýlega athygli okkar að eftirlaunaþegar geta valið um 35% afslátt af gleraugum í verslun hans eða fá tvenn fyrir verð einna.
„Já, það kom til á árunum 1999-2000,“ segir hann. „Mjög margir eldri borgarar voru þá í viðskiptum hjá okkur og það var ekki auðvelt fyrir alla að kaupa gleraugu. Þetta er dýrt þótt það sé líka fjárfesting eins og ég segi alltaf við fólk sem er að kaupa gleraugu. En ég ákvað að bjóða sérstakan afslátt til eldri borgara og öryrkja en hann nemur sem sagt 35%. Í tveir fyrir einn tilboðinu felst hins vegar að fólk fær önnur gleraugu alveg frítt með, umgjörð og gler. Það er eiginlega eins og 50% afsláttur.
Margir velja þá gjarnan sólgleraugu eða eitthvað allt annað til að breyta til, til dæmis eina titaníumumgjörð og eina úr plasti. Aðrir kjósa meira afgerandi umgjörð. Við erum erum til að mynda með merkið Cazal, mjög skemmtileg hönnun og vandaðar þýskar umgjarðir framleiddar í Þýskalandi. Ég á yfir 14000 umgjörðir á lager svo það er nærri útilokað að fólk finni ekki umgjarðir við hæfi hjá mér.“
Tapaði andvirði tveggja íbúða
Markus brosir enda er óhætt að gleðjast yfir svo einstöku vöruúrvali. Hann er upphaflega frá Austurríki og það vildi svo heppilega til að þegar hann fór að leita að vinnu utan heimalandsins var íslenskur sjóntækjafræðingur fyrstur til að svara honum.
„Fyrst kom ég hingað í júní 1988 meira og minna af forvitni,“ segir hann. „Ég hafði kynnst Íslendingum úti í Salzburg eftir að ég kláraði optical-námið langaði mig að öðlast reynslu erlendis og hafði sótt um vinnu í nokkrum löndum meðal annars hér. Ég fékk strax svar frá gleraugnaversluninni Fókus sem var í Lækjargötu 6b niðri í kjallara. Hingað kom ég og fór að vinna fyrir Áslaugu og Frank Cassata. Ég ætlaði bara að vera hér í ár. Þremur árum seinna árið 1991 opnaði ég mína eigin gleraugnaverslun í Borgarkringlunni. Hún hét Gleraugnasmiðjan og ég átti hana með Helmut Kreigler. En árið 1995 fór Borgarkringlan á hausinn og ég tapaði allri minni fjárfestingu. Þetta var á sínum tíma upphæð sem nám verði tveggja íbúða í Reykjavík.“
Fyrirtæki Markusar varð ekki gjaldþrota en þrotabú Borgarkringlunnar gleypti það fjármagn sem hann hafði lagt í verslun sína. Þetta varð til þess að hann ákvað að reyna fyrir sér í Austurríki en kreppa ríkti á Íslandi á þessum árum sem gerði það enn vænlegraa að forða sér héðan.
„Ég vann í nokkrum gleraugnabúðum í Austurríki og Þýskalandi,“ segir hann, „en ég endaði á að koma aftur til Íslands árið 1999. Þá opnaði ég Sjón og rak hana á Laugavegi 62 við hliðina á Gilbert úrsmið í tuttugu ár. Ég opnaði útibú í Glæsibæ 2002 og annað í Garðabæ 2004 en flutti alfarið í Glæsibæ 2017, var þá búinn að selja í Garðabæ. Ég flutti mig vegna þess að ekki var lengur hægt að fá bílastæði á Laugavegi. Fólk hringdi og sagði mér að það treysti sér ekki til að koma niður á Laugaveg af þessum ástæðum og það kaus frekar að koma í Glæsibæ því hér er nóg af stæðum og þau kosta ekkert. Það var því miklu betra að vera bara hér.“
Býður sérstaka ábyrgðartryggingu
Það getur verið flókið að finna réttu gleraugun og oft er fólk ekki alveg með tilfinningu fyrir hvað klæðir það. Aðstoðar þú viðskiptavini við að finna út úr því?
„Já, hundrað prósent,“ segir Markus. „Það skiptir okkur öll máli að líta vel út með gleraugu. Þau sitja í miðju andlitsins og setja svip á það. Hluti af námi í sjóntækjafræðum er að skoða andlitslag, hlutföll í andliti og annað sem skiptir máli til að gleraugu sitji rétt og séu klæðileg. Öll gler hjá okkur koma frá Þýskalandi og eru framleidd í Munchen úr besta gleri sem völ er á. Við erum líka með Sjón-ábyrgð. Það er tveggja ára ábyrgð á okkar vöru sem þýðir að ef upp kemur eitthvert vandamál, til dæmis ef djúphreinsa þarf gleraugu eða skipta þarf um nefpúða er það allt frítt hjá okkur. “
Innréttingar og umgjarðir frá miðri síðustu öld
Og enn standa flutningar fyrir dyrum. Markus er með tvö pláss í Glæsibæ hvort á móti öðru en flytur fljótlega í 132 m2 rými í verslanamiðstöðinni og hyggst hafa þar tvö sjónmælingaherbergi og rúma aðstöðu fyrir viðskiptavini til að skoða og máta.
„Ég ætla að vera með sér sólgleraugnabúð þar sem Sjón Retro er núna,“ segir hann. Sjón Retro ber nafn með rentu því þar er að finna úrval umgjarða frá sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og vinsælustu merki þess tíma. Innréttingarnar eru einnig sögulegar. „Þessar hillur eru úr Optik, gömlu gleraugnabúðinni á Lækjartorgi og frá árinu 1968. Ég keypti hana árið 2009. Og afgreiðsluborðið er frá árinu 1981, mjög falleg og stílhrein mubla. Hér er líka taska frá árinu 1956.
Við eigum yfir 3800 stykki af retro-gleraugum sem eru orginal og framleidd í Evrópu. Virkilega skemmtilegar umgjarðir allt frá merkjum eins og Dior yfir í tískutrend eins og noveau style. Eitthvað sem var vinsælast og vandaðast á sínum tíma og eru að koma aftur í dag. Ég setti þetta í geymslu á sínum tíma en nú koma til mín listamenn og fólk sem vill skapa eigin stíl og spyr hvort ég eigi ekki gleraugu eins og voru 1970 eða jafnvel fyrr. Þannig byrjaði þessi retro-sala. Ég er líka með eigin umgjarðir, Sjón Reykjavík, ég hanna þær sjálfur og þær eru mjög vinsælar. Þess vegna er líka auðvelt fyrir mig að ráðleggja fólki hvað það eigi að kaupa.
Ég er búinn að vera í gleraugnabransanum frá árinu 1984 og finnst alveg ofboðslega skemmtilegt að selja gleraugu. Og að hjálpa fólki að búa til flotta ímynd og skapa sinn stíl er líka gaman og skiptir rosalega miklu máli,“ segir hann að lokum og það er auðheyrt að áhugi hans á starfinu hefur síst dvínað með árunum.