Lesið með ömmu og afa

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um skort á lesskilningi íslenskra barna. Pisa-könnun leiddi í ljós að árangri þeirra hrakar í stað þess að batna og drengirnir okkar eru verst staddir. Við þessu þarf að sporna og eitt ráð er að halda bókum að börnum, sannfæra þau um að bókmenntir séu skemmtilegar, mikilsvirði og góð afþreyting.

Sú kynslóð sem nú er óðum að tínast út af vinnumarkaði lá í bókum. Það var ekki annað að hafa en bókasöfnin og þar opnaðist dásamlegur og víðfeðmur heimur. Börn að leysa sakamál, bræða steinhjörtu ættingja, leiða hina fullorðnu úr svartnætti sorgar í ljósið eða bara bjarga sér sjálf af útsjónarsemi og styrk. Sumir telja að minni áhugi á lestri endurspegli skort á góðum bókum en svo er ekki. Enn eru ótalmargir snilldargóðir höfundar að skrifa barnabækur og svo eigum við enn fleiri hundruð hillukílómetra af góðum bókum. Og afi og amma hafa alltaf gengt og eiga að gegna stóru hlutverki í að kenna börnum að lesa. Til eru lýsingar af því í skáldsögum og ævisögum þegar amma sat í baðstofunni með prjónana og lét krakkann stauta sig fram úr Íslendingasögum, guðsorðabók eða öðrum tyrfnum texta. Þeir tímar að að lesefni meira við hæfi byrjenda hafi ekki verið til eru liðnir.

Nýlega opnaði menntamálaráðherra vefinn Orðatorg og í fyrra var gefin út bókin Orð eru ævintýri. Henni var dreift meðal leikskólabarna sem hluti af átaki til að bæta orðaforða og málskilning ungra barna. Þar gegna afar og ömmur einnig mikilvægu hlutverki. Margar feykilega góðar bækur eru til fyrir yngsta aldurshópinn en meðal þeirra skemmtilegustu eru svokallaðar flipa bækur. Margir þekkja bækurnar um Depil sem eru svona en nýlega kom út hjá Forlaginu Sk0ðum Múmínhúsið. Þar lyfta börnin flipa og fá að sjá hvað leynist þar á bak við og þannig taka þau þátt í framvindu sögunnar.

Bók við hæfi 

Okkur hættir til að að hætta of snemma að lesa með börnunum. Flestum finnst þegar þau eru orðin læs geti þau sjálf valið sér bækur og lesið. Þau hafa hins vegar mismunandi mikla eirð í sér til þess og kjósa þess vegna frekar annað form afþreyingar. Ef afi eða amma sest hins vegar með þeim og byrjar bókina er von til að þau haldi áfram og klári sjálf. Þá er gott að þekkja söguþráðinn í þeirri bók sem er valin til að vera viss um að hún höfði til þessa tiltekna barns.

Það er einmitt mikilvægt að börn samsami sig söguefninu og finnist þau hafa eitthvað með það að gera. Bækur Ævars Þórs Benediktssonar ganga beinlínis út á það. Þær eru byggðar upp eins og tölvuleikir. Lesandinn getur haft áhrif á framvindu sögunnar og ráðið endanum. Þessar bækur eru ekki bara skemmtilegar heldur kenna þau frábærar lexíur í frásagnartækni og hvernig sögur eru byggðar upp. Reynsla undirritaðrar er þau hafa ekki síður gaman af að fylgja ekki endilega fyrirmælum bókarinnar og skapa súrrealíska furðusögu. En í því felst líka verðmætur lærdómur. Nýjasta bók hans er Nýi nemandinn. Hún er sniðinn að aldurshópnum 7-10 ára.

Að lesa fyrir og með barnabörnunum skapar nánd ekki bara líkamlega þótt það sé vissulega bónus að leyfa sér að kúra með þeim, jafnvel stálpuðum krökkum og lesa, heldur einnig umræðugrundvöll og færi á að barnið finni að hjá ömmu og afa er öruggt rými til að tala um allt. Það er líka mikilvægt að vera góð fyrirmynd og sýna börnunum hversu mikils þú metur bækur og hve mjög þú nýtur þeirra. Það vekur og viðheldur áhuga þeirra á lestri.

Að lokum er svo vert að nefna að nýlega var Blómin á þakinu eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur, bók sem var myndlýst af Brian Pilkington endurútgefin. Þetta er einstaklega falleg saga um samband eldri konu og barns. Í mars á næsta verður sýnd leikgerð eftir bókinni í Þjóðleikhúsinu og mjög spennandi að lesa saman bókina og fara síðan með börnin á sýninguna. Blómin á þakinu er meðal klassískra íslenskra barnabóka en í þeim hópi eru líka bækur Guðrúnar Helgadóttur, Auðar Haralds, Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Gunnars Helgasonar og ótal fleiri höfunda. Úrvalið er nóg og fátt skapar meiri eða betri nánd en að lesa saman og tala um bókina á eftir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 10, 2024 07:00