Spaghetti sem barnabörnin elska

Er von á barnabörnunum um helgina? Matarsmekkur fullorðinna og barna er ekki alltaf sá sami en hér er skotheld uppskrift sem Lifðu núna áskotnaðist frá ömmu þriggja stúlkna á aldrinum 2ja til 9 ára og tveggja  drengja 6 og 7 ára. Að sögn ömmunnar þykir öllum börnunum þetta afskaplega gott. Uppskriftina fékk amman af vefnum Ljúfmeti og lekkerheit. Á Ljúfmeti og lekkerheit eru margar afar skemmtilegar uppskriftir.

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

  • 2 msk ólívuolía
  • 6 stórir plómutómatar
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 2 tsk hunang
  • 1 tsk balsamik edik
  • svartur pipar úr kvörn
  • 1½ dl rjómi
  • 2-3 dl vatn sem spaghettíið var soðið í
  • salt

Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið tómatana í litla bita og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið tómata, lauk og hvítlauk. Bætið grænmetisteningi, hunangi og balsamik ediki á pönnuna og kryddið með pipar. Látið sjóða saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Lækkið hitann, bætið rjóma saman við og látið sjóða saman um stund. Þegar spaghettíið er tilbúið er 2-3 dl af spaghettivatninu bætt á pönnuna og rétt látið sjóða saman. Að lokum er spaghettíinu bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman.

Ritstjórn apríl 12, 2019 12:26