Leyfðu þinni rödd að hljóma

Er hugrekki eitthvað sem eingöngu er ætlað þeim ungu? Þeir eru jú í toppformi, eiga tímann fyrir sér og geta leiðrétt mistökin ef einhver verða. Eftir lestur bókar Höllu Tómasdóttur, Hugrekki til að hafa áhrif, sannfærist maður hins vegar fljótt um að djarfur hugur og ástríða er nokkuð sem allir á öllum aldri geta ræktað með sér og fundið leið til ástunda því hugrekki er ekki meðfæddur eiginleiki sem þú annað hvort hefur eða hefur ekki. Það er eins og hver annar vöðvi, þarf þjálfun og æfingu með ýmsum ráðum sem Halla er nösk á að sjá og benda á.

Þetta er vel skrifuð bók, einstaklega vel uppsett og fróðleg. Halla talar af persónulegri reynslu en leitar einnig í smiðju margra merkilegustu einstaklinga bæði núlifandi og sögunnar. Hún talar einnig frá hjartanu og kannski nær þessi bók einmitt þess vegna til manns. Það er aldrei of seint að breyta um farveg, fara nýjar leiðir að gömlum markmiðum eða bara breyta um gír í hversdagslífinu og leyfa draumum að rætast.

Gamli frasinn að ekki sé hægt að læra af reynslu annarra er hér vendilega afsannaður og fólki beinlínis sýnt hvernig það getur fetað í fótspor þeirra fremstu á ótal sviðum og látið rödd sína hljóma sterkt og skýrt.

Ritstjórn desember 6, 2023 07:00