Honum Davíð Guðbjartssyni, fyrrverandi lögreglumanni, lífskúnstner og listamanni leiðist aldrei. Hann hefur mörg áhugamál, er á leiðinni í hnapphelduna. Ætlar að biðja sinnar heittelskuðu á Tenerife á næstu dögum.
Reykjavík var með allt öðrum blæ þegar Davíð hóf störf í lögreglunni, í lok sjöunda áratugar síðustu aldar. Í raun minnti Reykjavík meira á lítið sveitaþorp í þá tíð. Skemmtistaðir ekki opnir nema til tvö á laugardögum og eitt á föstudögum og í miðri viku áttu skemmtanaþyrstir að vera komnir heim fyrir miðnætti. Borgin breyttist svo smátt og smátt, opnunartími skemmtistaða lengdist, bjórinn hélt innreið sína og ferðamönnum fjölgaði svo um munaði. „Ég hef upplifað miklar breytingar á störfum lögreglumanna. Ástandið í dag er ekkert líkt því sem var. Það er svo mikið að veruleikafirrtu fólki og fíkniefnaneytendum sem lögreglan þarf að hafa afskipti af. Fólki sem er viti sínu fjær.
Ofbeldið hefur harðnað
Þegar ég var að byrja í lögreglunni heyrði það til undantekninga að fangageymslur fylltust í miðri viku. Það var bara um helgar sem það gerðist,“ segir hann og bætir við að lögreglan hafi staðið nær fólki í þá gömlu góðu daga. „Ég var einn af síðustu göngueftirlitsmönnum lögreglunnar. Þá fór maður á milli skemmtistaða og kráa og ræddi við fólk. Í dag er ofbeldið miklu harðara en það var.“ Davíð vann lengst af á miðbæjarstöð lögreglunnar en hún var lögð niður fyrir nokkrum árum og hann segist sakna hennar. Segist í raun ekki skilja af hverju hún var lögð niður, það hafi verið full þörf á henni ekki síst eftir að ferðamönnum fjölgaði í miðbænum. Þeir hafi leitað mikið á stöðina. „Svo höfðum við eftirlit með þeim sem oft eru kallaðir góðkunningjar lögreglunnar,“ segir hann og brosir. Hann fluttist svo á lögreglustöðina í Breiðholti og þaðan á stöðina á Seltjarnarnesi.
Allt annað líf
Vaktavinna er hlutskipti lögreglumanna og Davíð segir að það hafi verið gríðarleg breyting að komast á fastar dagvaktir en hann komst á slíkar vaktir síðasta áratuginn sem hann var í lögreglunni, „það var allt annað líf.“Davíð söng fyrsta tenór í lögreglukórnum í þrjátíu ár og minnist þess með mikilli gleði. „Það var ofboðslega gaman,“ segir hann. „Við sungum við ýmis opinber tækifæri og fórum á norræn kóramót lögreglumanna og 2006 til St. Pétursbogar. Það var ógleymanleg ferð, borgin er falleg og svo var vel tekið á móti okkur.“ Davíð hætti í lögreglunni árið 2009 og þá má segja að líf hans hafi tekið u-beygju. „Um það
leyti sem ég var að hætta ákveð ég að læra tréútskurð. Ég vissi að það var verið að kenna hann á vegum Korpúlfa -félags eldri borgara í Grafarvogi, á Korpúlfsstöðum. Þangað fór ég og hann Helgi Bernódusson tók mig í læri. Helgi veiktist og varð að hætta og bað mig um að taka við af sér. Hann sagði við mig: „Davíð þú ert svo góður við fólkið“. Ég sagðist gera þetta með einu skilyrði, að ég mætti leita til reyndari manna ef ég lenti í vandræðum með eitthvað og það samþykkti stjórn Korpúlfa,“ segir hann.
Ein stór fjölskylda
Vinnustofan á Korpúlfsstöðum er falleg og björt. Davíð hafði forystu um að hún var öll tekin í gegn fyrir rúmu ári. Hann smíðaði ný vinnuborð og nú geta á þriðja tug manna lagt stund á tréútskurð þar. Samhliða því að kenna tréútskurð er Davíð í framhaldsnámi í tréútskurði hjá Friðgeiri Guðmundsyni einum þeim færasta í greininni hér á landi. „Ég líki þessu við háskólanám. Hjá honum læri ég nýja tækni og er núna að læra þrívíddar útskurð.“ Davíð kennir tréútskurð þrjá daga í viku á Korúlfsstöðum. Yfirleitt mæta rúmlega tuttugu í hvert skipti. „Þetta er mikið sama fólkið sem kemur en það bætast alltaf einhverjir nýir við. Það er alveg frábært að vera hér. Fólkið er alveg yndislegt og hér hjálpast allir að. Mér finnst stundum að þetta sé mín önnur fjölskylda,“ segir hann.
Fékk nóg af göngubrettum
Davíð er virkur í starfi Korpúlfa. Hann er í tveimur gönguhópum á vegum félagsins. „Ég hef verið í líkamsrækt í áratugi. Þegar maður var í lögreglunni varð maður að vera í góðu líkamlegu formi til að geta tekist á
við erfið verkefni eins og handtaka menn sem voru með mótþróa. Ég byrjaði að æfa í Sænska frystihúsinu en það var þar sem hús Seðlabankans stendur núna. Ég held bókstaflega að ég hafi æft á öllum líkamsræktarstöðvum í borginni. Ég fékk hreinlega nóg af göngu og hlaupabrettum og að lyfta lóðum. Ég segi stundum í gríni og alvöru að loftið inni á þessum stöðum sé misgott. Ég nýt þess í dag að ganga úti í staðinn fyrir að finna bara svitalyktina af næsta manni. Það er svo gott að finna ferskt útilofið leika um sig og vindinn strjúka vanga. Ég er í hraðgönguhóp og svo er það sniglahópurinn, en í honum er fólk sem vill fara hægar yfir.“
Íslendingar ekki nógu og snyrtilegir
„Oft tökum við með okkur ruslapoka og tengur til að tína upp rusl sem verður á vegi okkar. Það er ótrúlega mikið af rusli sem við erum að tína. Íslendingar eru ekki nógu snyrtilegir, því miður,“ segir hann. Þetta eru þó ekki einu göngurnar sem Davíð hefur lagt stund á. Hann var í gönguklúbbnum Ferli þegar hann var í lögreglunni. „Ómar Smári Ármannsson stjórnaði þeim klúbb. Við gengum vítt og breitt um Reykjanesið og um suðvesturhornið. Þetta voru oft langar göngur allt upp í átta tíma. Svo geng ég oft með syni mínum á góðviðrisdögum, vítt og breytt um borgina,“ segir Davíð sem kveðst hvergi nærri hættur í fjallgöngum þó gönguhópar Korpúlfa hafi átt hug hans allan síðustu ár.
Lærir myndlist
Talið berst að tónlist en Davíð er mikill tónlistarunnandi. Hann spilar bæði á harmónikku og píanó. Var svo frægur að vera einu sinni í hljómsveit, það var hljómsveit Karls Jónatanssonar. „Ég tók nikkuna stundum með þegar ég var að ganga með Ferli og spilaði þá í hellum sem við fundum. Hljómburðurinn í hellum er magnaður. Svo spila ég alltaf á nikkuna þegar listamenn sem eru með vinnustofur hér á eru með einhverjar uppákomur. Þá geng ég á milli herbergja og spila fyrir gesti og gangandi. Þó tónlistin og tréútskurðurinn skipi stóran sess í lífi Davíðs þá leggur hann stund á fleira. Hann er líka nemandi í myndlist og hefur verið í Myndlistarskóla Kópavogs. „Ég málaði mína fyrstu mynd 1973 af Vestamanneyjagosinu. Móðurbróðir minn Jóhannes Frímannsson var myndlistarmaður og ég var mikið hjá honum sem unglingur. Hann kenndi mér margt, meðal annars að blanda liti og gera allskonar kópíur. Það kom mér að góðum notum þegar ég fór í Myndlistarskólann. Ég þurfti ekki að byrja frá grunni heldur fékk strax að takast á við erfiðari verkefni. Svo hef ég líka verið að læra að móta leir. Fór á leirnámskeið í fyrra og þar opnaðist nýr heimur fyrir mér, það er alveg ótrúlega gaman að vinna með leir,“ segir hann.
Ætla að finna rómanstískan stað og biðja hennar
Það má með sanni segja að Davíð hafi fyllt líf sitt af allskyns skemmtilegum áhugamálum eftir hann hætti í lögreglunni. Hann er nú staddur á Tenerife, en það er í
fyrsta skipti sem hann fer þangað. Þar er hann með unnustu sinni Þuríði Matthíasdóttur. „Við erum búinn að þekkjast í nokkur ár. Ég ætla að finna einhvern fallegan rómantískan stað, skella mér á skeljarnar og biðja hennar formlega. Við erum búinn að velja hringana,“ segir Davíð. Hann segir að það sé gott að vera ástfanginn á þessum aldri en Davíð er fæddur 1948 og Þuríður 1939. „Aldur er afstæður og skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er að fólki falli vel saman. Hún er yndisleg manneskja. Við deilum sömu áhugamálum. Við syngjum bæði í kór Átthagafélags Strandamann, dönsum mikið saman og höfum ánægju af því að ferðast. Við erum miklir félagar,“ segir hann. Davíð segir að þau hafi velt því fyrir sér að gifta sig úti en það verði þó líklega ekki fyrr en þau komi heim aftur. „Þó ég hafi verið með annan fótinn heima hjá Þuríði síðustu ár höfum við ekki verið í sambúð. Við ætlum að fara að búa saman þegar við erum gift,“ segir hann að lokum, fullur tilhlökkunar.