Ef maður hefur ekki tíma fyrir heilsuna núna mun maður ekki eiga heilsu fyrir tímann síðar meir

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir  skrifar

Nú í upphafi árs hafa líklega margir sett sér markmið af margvíslegum toga. Mörg tengjast bættri heilsu hvort sem er andlegri eða líkamlegri. Það er ánægjulegt að sjá hve fólk virðist vera orðið duglegra að hreyfa sig og þá sér í lagi að stunda útivist. Síðustu mánuði hafa margir reimað á sig gönguskóna þar sem bæði sundlaugar og líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar. Ég bý svo vel hér í Hveragerði að umhverfis heimili mitt er aragrúi göngu- og hjólaleiða við allra hæfi og markvert hve margir eru á ferli miðað við fyrir alheimsfaraldur.

Við erum nú síðustu mánuði búin að vera að glíma við heimsfaraldur, kórónuveiru og afleiðingar hennar, sjúkdóminn Covid-19. Efnahagslegur kostnaður við að hefta útbreiðslu veirunnar er gríðarlegur og ljóst að mörg ríki verða lengi að jafna sig. Þá er ónefndur sá harmur sem sjúkdómurinn hefur valdið en þegar þetta er ritað hafa yfir 2 milljónir manna látist á heimsvísu af völdum veirunnar.  Kórónuveirufaraldurinn hefur tekið yfir alla umræðu síðustu mánuði og mun vafalaust gera það áfram. Við sjáum þó fyrir endann á þessum ósköpum með tilkomu bóluefnis og vonandi munu bólusetningar ganga vel á næstu mánuðum. Það er þó vert að nefna að við erum stödd í öðrum faraldri sem mun minni umræða er um en það er hinn svokallaði „Lífsstílsfaraldur 21. aldarinnar“. Það má færa fyrir því rök að nú sé raunveruleg hætta á að næsta kynslóð komi til með að lifa skemur en þær kynslóðir sem undan hafa gengið. Ég átti nýlega spjall við kunningjakonu mína sem starfar við líkamsþjálfun og næringarráðgjöf. Eitt er það sem hún sagði sem hefur setið í mér síðan en það var að sú stefna sem við höfum rekið hér á landi í heilbrigðismálum væri viðbragð en ekki forvörn og að nú stæðum við á tímamótum þar sem hver manneskja yrði að gera allt sem í hennar valdi stæði til að koma í veg fyrir að þurfa að nýta sér heilbrigðiskerfið. Þessi vinkona mín vildi meina að þegar ég verði orðin eldri og þurfi kannski á þjónustu að halda að þá yrði enginn til að sinna mér þar sem yngri kynslóðin verði orðin háð þjónustunni á undan mér! Í dag eru um 70-80% kostnaðar í heilbrigðiskerfinu tilkominn vegna lífsstílssjúkdóma og á bara eftir að aukast. 90% Íslendinga látast úr ósmitnæmum sjúkdómum og um helmingur þessara dauðsfalla er hægt að tengja við lífsstíl viðkomandi. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvað valdi þessari sjúkdómsbyrði hér á landi? Svarið er: ViÐ sjálf!

Því ber að fagna því að í upphafi hvers árs leggi margir af stað með góð fyrirheit í farteskinu um að taka heilsuna í gegn á nýju ári. Árangurinn er misjafn en eins og ég sagði í upphafi sé ég sífellt fleiri sem nýta sér nærumhverfið til góðra göngutúra og annarrar útiveru.

Ég hef allavega sett mér það markmið að hreyfa mig meira á þessu ári sem nýgengið er í garð og borða meira grænt!

Guðrún Hafsteinsdóttir

Guðrún Hafsteinsdóttir janúar 18, 2021 08:15