Telur hægt að bjarga bæði mannslífum og efnahag

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka lífeyrissjóða skrifar.

 

Þegar þetta er ritað stöndum við frammi fyrir því að líklega munu yfirvöld hér á landi herða sóttvarnir frá því sem verið hefur undanfarnar vikur. Þrátt fyrir að hert hafi verið á fjölda þeirra sem mega koma saman, veitingahúsum verið gert að loka fyrr á kvöldin og íþróttastarfsemi takmörkuð hefur okkur ekki tekist að fækka smitum. Veirunni vex ásmegin ef eitthvað er. Þreyta er farin að segja til sín og margir hafa stigið fram og reynt að draga úr trúverðugleika sóttvarnalæknis og þeirra sem lagt hafa línur í þessum efnum síðustu mánuði. Það er miður þar sem í upphafi faraldursins fann maður fyrir mikilli samstöðu í samfélaginu enda náðum við árangri í vor og fengum dásamlegt sumar þar sem við gátum farið nokkuð frjálslega um, ferðast, hitt vini og sótt veislur. Það hefur ekki verið raunin nú í haust. Heimsóknarbönn hafa verið endurvakin á dvalar- og hjúkrunarheimilum þannig að aftur þurfa þeir sem þar búa að vera fjarri ástvinum sínum.  Í vikunni kom hópur fólks saman á Austurvelli til að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég gleðst alltaf yfir því að búa í frjálsu landi þar sem hver og einn hefur tækifæri til að lýsa skoðunum sínum, hverjar sem þær eru. Ég skil einnig áhyggjur fólks sem misst hefur lífsviðurværi sitt og býr nú við algjöran tekjumissi. Ég hafna aftur á móti öllum hugmyndum um hvers kyns skiptingu á milli björgunar mannslífa eða björgunar efnahagslífsins því ég trúi því að hægt sé að samræma þessi tvö markmið. Því við stöndum nú frammi fyrir því að það er í þágu beggja markmiða að takmarka samneyti fólks og þar með takmarka ákveðna starfsemi og eins að fólk haldi sig sem mest heima. Við megum aldrei missa sjónar á því að líf er líf og að hvert líf skiptir máli óháð því á hvaða aldursskeiði við erum.  Setjum nú öll undir okkur hausinn. Tökum þetta föstum tökum og náum þessari veiru niður á næstu tveimur, þremur vikum og þá getum við vonandi haldið gleðilega aðventu svo ekki sé minnst á gleðileg jól! Við erum búin að sýna það að við gátum þetta í vor með samstöðunni, gerum það aftur!

Guðrún Hafsteinsdóttir nóvember 2, 2020 07:54