Hvaða sálma viltu láta syngja í jarðarförinni þinni?

Lilja Björk Ólafsdóttir

Lilja Björk Ólafsdóttir

Viltu láta endurlífga þig ef hjarta þitt stöðvast? Viltu fá að deyja heima þegar þar að kemur, eða á sjúkrahúsi? Viltu láta brenna þig? Viltu vera í eigin fatnaði eða líkklæðum og hvaða tónlist eða sálma viltu láta syngja í jarðarförinni þinni? Viltu kannski ekki ákveða þetta, heldur láta aðstandendur um það? Þetta eru spurningar sem menn eru líklega ekki mikið að velta fyrir sér dagsdaglega. Lilju Björk Ólafsdóttur á Dalvík, sem er menntaður forvarnarráðgjafi fannst vanta farveg fyrir umræðu af þessu tagi og gaf út bæklinginn Réttur minn til að velja fyrir 4 árum.

Gott að hafa þetta á hreinu

Lilja Björk sendi bæklinginn, sem er ókeypis, til allra heilsugæslustöðva landsins, og nú fæst hann víðar, t.d. hjá félögum eldri borgara, á ýmsum dvalarheimilum, útfarastofum, hjá heimahjúkrun, trúfélögum, dagdeildum, Karitas, líknardeild, hjá Ljósinu og Lífinu. Eftir að hafa misst báða foreldra sína, fannst henni mikilvægt að opna umræðuna um óskir varðandi lífslok og útför og gera hana auðveldari og aðgengilegri með því verkfæri sem bæklingurinn er. Hún varð áþreifanlega vör við það þegar faðir hennar lést eftir stutt og erfið veikindi, hversu erfitt það var að taka þessar ákvarðanir fyrir hann, óvitandi um hans óskir ef einhverjar voru. Það auðveldaði undirbúninginn mikið þegar móðir hennar féll frá nokkrum árum síðar, að hún hafði verið búin að setja fram skýrar óskir í þessum efnum.

Bæklinginn má finna á ýmsum stöðum, svo sem hjá heilsugæslunni og félögum eldri borgara

Bæklinginn má finna á ýmsum stöðum, svo sem hjá heilsugæslunni og hjá félögum eldri borgara

Hefðbundin jarðarför eða ekki

Hún segir að allir sem vilji geti fyllt bæklinginn út, sama á hvaða aldri þeir séu og hvort þeir eru veikir eða heilbrigðir. Það sé ekkert mál að breyta honum ef afstaða fólk breytist með aldrinum eða fylla út nýjan.  Bæklingurinn skiptist í tvo meginhluta; Lífslok og útför. Í lífslokahlutanum getur viðkomandi einstaklingur merkt við þrjá valmöguleika; í fyrsta lagi er ósk um að allar meðferðir beinist að því að viðhalda lífi og starfsemi líffæra, þ.e. að halda lífi eins lengi og mögulegt er, í öðru lagi er ósk um að meðferðir til að lengja líf verði ekki notaðar, þ.e. að láta ekki lengja líf sitt ef viðkomandi er dauðvona, heldur fái líknandi meðferð og í þriðja lagi að menn treysti aðstandendum sínum til að taka þær ákvarðanir sem snúa að meðferð við lífslok. Einnig er gert ráð fyrir að viðkomandi geti skrifað niður aðrar óskir og fyrirmæli varðandi lífslok.  Í útfararhlutanum geta menn hakað við óskir um 1) hefðbundna jarðarför, 2) bálför 3)borgaralega útför án þjónustu prests. Síðan er hægt að fylla út ýmsar óskir sem menn kunna að hafa um skipulag útfarar, tónlist, legstað, skreytingar og fleira. Það er einnig hægt að tilnefna ábyrgðarmann sem menn treysta til að koma óskum sínum til skila. Lilja Björk bendir á að þetta séu fyrst og fremst óskir einstaklingsins og vonandi muni aðstandendur fylgja þeim eftir.

Hægt er að nálgast bæklinginn á tilgreindum stöðum eða panta hann á: retturminn@gmail.com

Ritstjórn ágúst 22, 2016 11:07