Alllir þekkja liti jólanna og vita að grænt, rautt, hvítt og blátt eru uppstöðulitir þessarar hátíðar. En hvers vegna skyldu þessir tilteknu litir vera svo órjúfanlega tengdir þessari hátíð? Svarið liggur djúpt í menningu ríkja Vestur-Evrópu og sumt má rekja til kristni annað lengra aftur.
Grænn
Sígrænar plöntur eins og greni, mistilteinn, kristþyrnir og bergflétta hafa um verið tákn um seiglu lífsins og hringrás náttúrunnar. Þessar jurtir sem aldrei missa lit sinn þótt snjór kuldi svæfi aðrar plöntur hafa verið notaðar til að lífga upp á og skreyta híbýli manna í þúsundir ára. Þær færa birtu í myrkrinu og minna fólk á að eftir vetur kemur vor. Rómverjar notuðu greinar sigrænna runna í janúar til að tryggja sér lukku á nýju ári og góða uppskeru. Í Egyptalandi til forna voru pálmagreinar bornar inn í hús meðan á vetrarhátíð þeirra stóð og skreytt með þeim.
Í mörgum löndum Evrópu tíðkaðist sá siður á miðöldum að setja upp svokölluð paradísarleikrit og oft var aðfangadagskvöldið notað til slíkra sýninga. Í þeim var sögð einhver saga úr Biblíunni en fæstir áhorfenda voru læsir og þetta því góð leið til að koma boðskap kristninnar til skila. Á sviðinu stóð jafnan paradísartréð úr Edensgarði og venjan var sú að valið væri fallegt sígrænt furutré og það skreytt eplum. Þetta er líklega undanfari jólatrésins.
Rauður
Epli voru órjúfanlega tengd jólum í mörgum löndum Evrópu. Þau voru borðuð til hátíðabrigða og nokkur safarík og falleg rauð epli geymd á köldum stað til að þau héldust sem ferskust til jóla. Og eins og minnst var á áðan voru þau notuð til að skreyta paradísartréð í jólasýningunum. Í þeim voru þau auðvitað tákn um fall Adams og Evu og brottrekstur þeirra úr Edensgarðinum. En rauður er líka litur berja kristþyrnisins og hann sagður vera þar tilkomin vegna blóðs krists sem dó á krossinum með þyrnikórónu á höfði. Þess vegna bera biskupar rauðar hempur og rauður er líka sá litur sem sagt er að Sankti Nikulás hafi klæðst og þess vegna varð hann að einkennisbúningi jólasveinsins
Gylltur
Gylltur er litur sólarinnar og ljóssins. Hann hefur verið notaður til að tákna sólina og guði henni tengda í flestum menningarheimum. En ljósið og birta sólar er auðvitað mun mikilvægari um miðjan vetur en alla jafna á sumrin. Að auki tengdust gylltur og rauður eldinum og hann hélt á mönnum hita yfir köldustu mánuðina og var því meðal þeirra náttúruafla sem menn dýrkuðu og reyndu að beisla. Eftir að kristni tók að breiðast út varð gylltur táknlitur fyrir fæðingu Jesú, enda var gull meðal þeirra gjafa sem vitringarnir þrír færðu barninu í jötunni. Síðar yfirfærðist liturinn á stjörnuna sem vísaði vitringunum veginn til barnsins. Stundum er stjarnan raunar silfurlit en þar sem gylltur er hlýrri litur er hann mun algengari í allri myndlist og kristnum táknmyndum.
Hvítur
Hvítur vísar auðvitað til snjósins og kuldans um miðjan vetur en hann er einnig tákn sakleysis og hreinleika í vestrænum menningarheimi. Hvítir pappírsvafningar voru einnig notaðir til að skreyta paradísartéð og þar með tákna hreinleika Adams og Evu áður en Adam bragðaði á eplinu en þeir vísuðu einnig til brauðsins sem kristnir menn borða þegar gengið er til altaris og sakramentið þegið. Þá minnast þeir þess að kristur dó fyrir þá á krossinum.
Hvitt er þess vegna mikið notað í kirkjum og venjulega hluti af altarisskreytingum um jólin. Oft er hvítur dúkur breiddur yfir altarið og hvít kerti í stjökum kirkjunnar. Í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni er dúkurinn hins vegar gylltur.
Blár
Blái liturinn er tengdur Maríu guðsmóður. Á miðöldum voru blá litarefni dýrari en gull svo aðeins kóngafólk eða mjög ríkt fólk gat leyft sér að ganga í bláu. Málverk frá þessum tíma sýna Maríu oft klædda bláu til að sýna hversu mikilvæg og merkileg persóna hún var. Blár er einnig tákn himinsins og guðsríkis. Á aðventunni er purpurarautt, fjólublátt og blátt mikið notað í til skreytinga í kirkjum og altarisdúkarnir eru oft í þeim litum. Rétttrúnaðarkirkjan sker sig úr hvað þetta varðar og notar rautt í stað hins bláa.
Þetta eru hinir hefðbundnu litir jóla en undanfarin ár hefur tíska ráðið lit skreytinga í húsum. Silfurlitur, svartur, appelsínugulur og grár eru meðal þeirra lita sem orðið hafa ríkjandi en engin hefð er fyrir notkun þeirra og þeir hvorki tákna neitt tengt jólum né eiga sér sögu. Vilji fólk halda heiðri hefðirnar velur það því grænt, rautt, hvítt, gyllt eða blátt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.