Endurlífgun, nei takk

Dönsk kona, Edith Knudsen sem er 82ja ára, hafnar endurlífgun. Fari svo að hjarta hennar hætti að slá, vill hún ekki að því verði komið af stað aftur. Hún leggur til að eldra fólk sem er sama sinnis, gangi með armband til að sýna að það vilji ekki láta endurlífga sig eftir hjartastopp. Þetta má lesa á vef Danska Ríkisútvarpsins.

„Ég sé fyrir mér að skatrgripahönnuðir geti útbúið silfurarmband sem er hægt að hafa um úlnliðinn. Þannig geta allir séð, hvaða skoðun þeir sem bera armbandið hafa á endurlífgun“, segir hún og segist óttast það líf sem kunni að bíða hennar, ef hjarta hennar hættir að slá og er komið í gang aftur með rafstuði. „Ég hef lifað lengi og mig langar ekki að enda sem grænmeti“, segir hún.  Edith hefur séð að ýmislegt getur farið úrskeiðis þegar fólk er endurlífgað. „Það gerist hjá nokkuð mörgum og þeir eiga ekki gott líf eftir það“, segir hún.

Hjartastopp er góð leið til að kveðja

Það er mikilvægt að ókunnugt fólk geti áttað sig á því strax, ef gamall maður eða kona vilja ekki endurlífgun. Ef hjartað stöðvast til dæmis í matvörubúð, stoðar það lítt að hafa skrifað nei takk, í skjal sem er hjá lækninum. „Og ekki get ég mótmælt ef ég er meðvitundarlaus“, segir hún og bendir á að ef hún bæri armbandið góða sem hafnar endurlífgun myndu þau skilaboð komast til skila undireins.“Mér finnst að það eigi að nota endurlífgun fyrir yngra fólk sem er mikilvægt að geti haldið lífinu áfram. Fyrir okkur sem eigum langt og farsælt líf að baki er ekki jafn mikilvægt að allt sé reynt til að halda okkur á lífi“, segir hún.

Hún óttast ekki að óskir þeirra sem eru með armbandið verði virtar að vettugi. „Ef menn hafa sjálfir keypt svona armband, þá eru þeir búnir að hugsa málið til enda og taka afstöðu. Þeir eru þannig alveg ákveðnir í sinni afstöðu“ segir hún og saknar þess að nú skuli ekki vera til leið til að koma þessari afstöðu til skila til umhverfisins. „Ég er forlagatrúar. Ef ég hníg allt í einu niður væri það frábær leið til að kveðja þetta jarðlíf“

Ritstjórn ágúst 3, 2016 11:33