Litirnir í lífinu

Litir geta auðgað líf okkar, glatt okkur en líka dregið fólk niður. Litafræði er áhugavert fag og fyrir nokkrum árum kom út bókin Lífið í lit eftir Dagny . Höfundur hefur sérhæft sig í litum, áhrifum þeirra á skynfærin og hvernig við tjáum upplifun okkar af þeim. Litleysið í tilverunni veldur Dagny Thurman-Moe áhyggjum og sú tilhneiging okkar að fara öruggu leiðin í litavali í stað þess að njóta litríkrar tilveru.

Lífið í lit er handbók, blanda af fræðslu, hugmyndum og ráðum. Litaval okkar  er háð tísku og stundum eru bjartir litir málið og þess á milli eingöngu daufir eða mildir litir. Mjög margir kjósa ákaflega íhaldssaman og varkáran stíl þegar kemur að innanhússhönnun eða utanhússmálningu en eru hins vegar djarfir og litaglaðir þegar kemur að förðun eða fatnaði.

Algengt er að fólk óttist að fá leið á tilteknum litum. Græni veggurinn, rauðu buxurnar eða appelsínuguli sófinn eru kannski alveg málið þegar þau voru keypt en ári síðar hefur pendúll tískunnar sveiflast í öfuga átt og eigandi þeirra er eyðilagður yfir að hafa ekki varið peningum sínum betur. Dagny hvetur fólk hins vegar til að láta slíkt ekki á sig fá. Hún segir að litir veiti gleði, því fjölbreyttari og bjartari því betra. Hún segist aldrei hafa málað einn vegg hvítan á heimili sínu.

Góð ráð

Hún vinnur mikið með og eftir litapallettum en það eru kerfi lita og litatóna sem raðað er saman til að mynda heild. Dagny kýs annað hvort að nota mismunandi blæbrigði eins litar þegar hún setur upp pallettu fyrir íbúð eða hús eða að raða saman nokkrum litum. Í hliðstæðri pallettu er valdir litir sem eru nálægt hver öðrum í litahringnum en andstæð palletta er akkúrat öfug. Sú hliðstæða skapar milt og fallegt rými þar sem ekkert truflar augað en hin andstæða vekur til umhugsunar en jafnframt styðja litirnir hver við annan, undirstrika sérstöðu hvers og eins. Þetta má oft sjá utanhúss og þar undirstrika andstæðurnar sérkenni arkitektúrsins en nota má ndstæðu pallettunna og afbrigði hennar með góðum árangri innanhúss líka.

Gildi þess sem Dagny gerir verður lesandanum fljótt ljóst því myndirnar í bókinni eru sérstaklega vel til þess fallnar að sýna með dæmum það sem fjallað er um í textanum. Í kaflanum Byggingalist og almenningsrými tekur hún myndir af byggingum og hverfum og breytir þeim rafrænt þannig að augljóst er hversu gríðarlega litir geta breytt útliti götumyndarinnar og jafnframt upplifun fólks af þessu umhverfi. Hún segir einnig merka sögu lita í byggingalist.

Þinn eigin stíll

Í seinni hluta bókarinnar leiðir hún lesendur sína í allan sannleika um hvernig þeir geta nýtt sér fræði hennar til að skapa sér eigin stíl bæði innanhúss, utan, í fatavali og förðun. Þarna eru sömuleiðis skemmtilegar myndir sem endurspegla notagildi fatnaðar. Ein flík getur orðið að mörgum með því einu að skipta um fylgihluti.

Alltof oft dæmum við notagildi og endingu hluta út frá litum. Fatnaður í gráum, bláum og svörtum tónum er ekki klassískar en bláir, gulir og grænir og hið sama gildir um bíla. Dagny bendir á að langt fram eftir 20. öld voru bílar mjög litríkir en síðan fóru menn að óttast að skæru litirnir drægju úr endursöluvirði þeirra. Þetta er alrangt og hið sama á við um föt. Flestir telja sig örugga í svörtu en staðreyndin er sú að þeir fá mun meiri athygli í fallega litum fötum og þá skiptir sniðið mun minna máli.

 „Gildi þess sem Dagny gerir verður lesandanum fljótt ljóst því myndirnar í bókinni eru sérstaklega vel til þess fallnar að sýna með dæmum það sem fjallað er um í textanum.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.