Ljósmyndir hafa sál og segja sögu

Ljósmyndir fanga minningar, frysta augnablik í tíma og segja oft magnaða sögu. Þær geta hrært við fólki, breytt veraldarsögunni og kveikt á ímyndunaraflinu.

Í dag taka allir mikið magn mynd. Sumir eru beinlínis alltaf með símann á lofti og taka myndir af nánast öllum sínum athöfnum. Hvert er gildi slíkra mynda og hver er tilgangur ljósmynda í einkasöfnum? Eiga þær allar erindi þeirra við framtíðina og hvað þær segja um fortíðina? Flestir eiga gamlar myndir af forfeðrum, viðburðum í fjölskyldunni og ferðalögum sínum. Af og til sjáum við dreift á facebook gömlum myndum þar sem verið er að spyrja hvort einhver þekki fólki, viti hvar myndin var tekin eða hvenær. Mjög oft fást svör. Í Þjóðaminjasafninu og Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru varðveittar fjölmargar ljósmyndir sem segja sögu af fólki, menningu, staðháttum og viðburðum. Þau mörgu og stóru ljósmyndasöfn sem til eru í tölvum í dag munu ekki gegna sama hlutverki. Vegna þess til að mynda að myndirnar eru ekki áreiðanlegar.

Tölvutæknin hefur opnað skapandi fólki nýja möguleika á að búa til falleg listaverk, bæta útlit sitt, klippa saman nokkrar myndir og  margt fleira. Áður gátu ljósmyndir kollvarpað hugmyndum okkar um veruleikann vegna þess að þar komu fram ýmsar staðreyndir sem höfðu í minni okkar skolast til. Ljósmyndin var eitt sinn talin taka af allan vafa, segja sannleikann óbrenglaðan en nú er það ekki svo. Ljósmyndin er aðeins einn rammi og það sem er innan hans takmarkað og stundum búið að hagræða því á marga vegu.

Gamalar ljósmyndir úr fórum afa og ömmu voru uppstilltar, stífar og teknar í umhverfi sem fólkinu var framandi en þær sýndu fólkið eins og leit út á þessari stundu. Þær myndir hafa gildi vegna þess og sumar sýna allt aðra mynd af ættingjum en maður hafði áður. Ljósmyndir frá æsku okkar sem ólumst í byrjun seinni hluta síðustu aldar tengjast minningum sem hafa varðveist vegna myndarinnar. Ljósmyndin vekur upp bæði tilfinningar, hugrenningar og jafnvel líkamlegt viðbragð. Í framtíðinni kann að vera að þessar myndir hafi mikið gildi fyrir sagnfræðinga og aðra sem vinna að því að skoða og skilgreina sögu og menningu þjóðarinnar. Það er þess vegna vel þess virði að fara í gegnum gamla ljósmyndasafnið sitt og skrifa eitthvað um hverja mynd til fróðleiks fyrir komandi kynslóðir. Hvar myndin var tekin, af hvaða tilefni, hvaða fólk er á henni og svo framvegis allt eftir því hvað er merkilegast við þessa tilteknu mynd.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.