Á RÚV var fyrir nokkru sýnd heimildakvikmynd um Georgiu O’Keeffe, einn athyglisverðasta listmálara Bandaríkjanna. Hún var kölluð móðir amerískrar nútímalistar eða módernismans þar í landi en það viðurnefni er alls ekki fjarri lagi því verk hennar voru frumleg og efnistökin einstök. Georgia bjó lengst af hluta ársins í Nýju Mexíkó og varð vitni að því á hverju ári hvernig eyðimörkin lifnaði við á regntímanum. Hún málaði gróskuna og fegurðina sem kviknaði í þurrum jarðveginum en lifði stutt. Hún var kvenréttindakona, ákaflega sjálfstæð og einlæg í list sinni. Verk hennar heilla enn í dag, enda falleg, dulúðug og torræð.
Georgia fæddist 15. nóvember 1887 í Sun Prairie í Wisconsin. Foreldrar hennar voru kúabændur á sléttunum miklu og Georgia mun sennilega hafa lifað ekki ósvipuðu lífi og Laura Ingalls Wilder úr Húsinu á sléttunni í uppvextinum. Hún var önnur í röðinni af sjö systkinum og elst systranna. Öll börnin í fjölskyldunni nutu góðrar menntunar og Georgia stundaði háskólanám þar til hún ákvað að gerast listamaður. Þá hóf hún nám í School of the Art Institute í Chicago í eitt ár en hélt síðan til New York og var í læri hjá William Merritt Chase árið 1907. Þar vann hún sín fyrstu listamannsverðlaun fyrir kyrralífsmynd.
Verðlaunin fólu í sér sumarnámskeið í listum í Lake George í New York fylki en Georgia ákvað að þiggja þau ekki. Hún sagðist ekki kæra sig um að verða listamaður vegna þeirra eftiröpunaraðferða sem notaðar voru við myndlistarkennslu á þessum árum. Henni fannst ekkert rými fyrir sköpun og fólk lítið fá að móta eigin stíl og sýn. Áhuginn kviknaði þó aftur þegar hún fór í háskólann í Virginiu og lærði hjá Alon Bement sem kynnti fyrir henni frumlegar aðferðir Arthurs Wesleys Dows. Þær fólust í því að hvetja listamenn til að nota línur liti og skyggingu í hárfínu jafnvægi til að tjá tilfinningar sínar.
„Um þetta leyti fór Georgia einnig að mála blóm. Fyrstu blómamyndir hennar gengu fram af bandarísku miðstéttinni, enda var ekki verið að leyna að þar væri á ferð lofsöngur konu til kvenleika síns.“
Vann um tíma við kennslu
Georgia tók kennarapróf árið 1915 og starfaði um tíma sem aðstoðarkennari hjá Bement. Hún kenndi líka myndlist í unglingaskólum og seinna í Columbia háskóla. Þar hóf hún að vinna kolateikningar sem áttu eftir að vekja mikla athygli. Þegar henni bauðst staða yfirkennara við nýstofnaðan háskóla West Texas A&M University ákvað hún að slá til. Þar heimsótti hún oft Palo Duro gil og málaði myndir af fallegum náttúrulegum formum sem hún sá þar.
Árið 1916 fór Anne Politzer með nokkrar kolateikningar Georgiu til ljósmyndarans Alfred Stieglitz. Hann rak þá galleríið 291 og hafði þegar náð miklum frama sem ljósmyndari. Hann varð yfir sig hrifinn og sagði Anne að teikningarnar væru einlægustu og hreinustu listaverk sem komið hefðu inn fyrir dyr gallerísins í langan tíma og hann vildi endilega fá að sýna þær. Svo mikill var áhugi hans og hrifning að honum láðist að láta Georgiu vita hvenær hann hyggðist hengja þær upp og hún varð undrandi þegar hún frétti að teikningar hennar væru til sýnis í galleríinu.
Þetta kom þó ekki að sök og allt næsta ár skrifuðust þau Georgia og Alfred á og hann fékk sendar vatnslitamyndir og fleiri teikningar sem urðu uppistaðan í fyrstu einkasýningu hennar. Hann bauð henni að flytja til New York og fljótlega eftir komu hennar þangað varð þeim ljóst að þau voru ástfangin. Hann var kvæntur og það tók næstum fimm ár að fá skilnaðinn í gegn. Fyrir þann tíma hófu Georgia og Alfred að búa saman en þau giftu sig árið 1924 skömmu eftir að skilnaðurin gekk í gegn.
Brúðkaupið til að róa dóttur hans
Síðar sagði Georgia að brúðkaupið hefði meira verið til að stuðla að meiri stöðugleika í lífi Kittyjar, dóttur Alfreds, sem þá var til meðferðar á geðsjúkrahúsi við ofskynjunum og þunglyndi. Alfred var tuttugu og þremur árum eldri en Georgia en þau áttu ást sína á listum sameiginlega. Alfred tók margar myndir af konu sinni og til eru eftir hann allt að 350 portrettmyndir af henni. Hann tók einnig af henni nektarmyndir sem ollu hneykslun en Georgia sagði við vinkonu sína að sér fyndist myndirnar ekki hafa neitt með sig að gera. Þær væru sjálfstæð listaverk og fyrst og fremst hans sýn og vinna.
Fjölskylda Alfreds átti fallegt hús við Lake George í Adirondack-fjöllum og þar bjuggu þau fyrstu hjúskaparár sín. Georgia málaði umhverfið þar mikið og upp úr árinu 1925 byrjaði hún að búa til nærmyndir af fyrirbærum í náttúrunni. Hún rýndi ofan í blóm, steina og kletta og dró þar fram hvert smáatriði eins og horft væri í gegnum stækkunargler. Hún og Alfred tilheyrðu hópi framúrstefnulistamanna í Bandaríkjunum á þessum árum og má m.a. nefna að Charles Demuth, Arthur Dove, Marsden Hartley og John Marin. Þau fengu innblástur hvert frá öðru og óhætt að fullyrða að áhrifa þeirra á verk hinna gæti ef vel er að gáð.
Um þetta leyti fór Georgia einnig að mála blóm. Fyrstu blómamyndir hennar gengu fram af bandarísku miðstéttinni, enda var ekki verið að leyna að þar væri á ferð lofsöngur konu til kvenleika síns. Þótt hér væri á ferð nákvæm eftirgerð af innra byrði svarta írisblómsins minnti myndin meira á kvensköp en blóm. Þessar myndir Georgiu komu í kjölfar abstrakt tímabils í list hennar og listfræðingar hafa gjarnan viljað túlka þau með hliðsjón af freudískum kenningum.
Rýndi ofan í náttúrufyrirbærin
Enn frekara skref í átt að þessari nærrýni gekk hún þegar hún tók að sér að mála auglýsingaplaköt fyrir ávaxtaframleiðanda á Hawaii. Allt hjálpaðist þetta hins vegar að við að búa hana undir eyðimerkur og frjótt land Nýju Mexíkó. Þangað kom hún árlega frá 1929 og málaði af hitasóttarkenndum ákafa. Kannski var því ekkert undarlegt að árið 1932 fékk hún taugaáfall, að hluta til vegna þess að henni hafði ekki tekist að klára veggmynd fyrir Radio City Music Hall á tíma. Hún náði heilsu eftir góða hvíld og hélt áfram að vinna mikið.
„Í eðli sínu var hún mikill einfari og kaus iðulega að ferðast ein. Hún var einmitt ein í bústað sínum þegar Alfred fékk heilablóðfall árið 1946.“
Hún var orðinn vinsæll og virtur málari og hafði vart undan að framleiða verk. Yfirlitssýningar á verkum hennar voru settar upp í flestum virtustu listamiðstöðvum Bandaríkjanna þar á meðal í NOMA í New York. Hún heillaðist á þessum árum af stað sem kallaður var the Black Place eða Svarti staðurinn sem var í næsta nágrenni við bústað hennar í Nýju Mexíkó. Þar var hún oft dögum saman við vinnu sína. Í eðli sínu var hún mikill einfari og kaus iðulega að ferðast ein. Hún var einmitt ein í bústað sínum þegar Alfred fékk heilablóðfall árið 1946. Hún flýtti sér strax til hans en hann dó skömmu síðar. Georgia jarðsetti ösku hans við Lake George og var næstu þrjú árin að ganga frá dánarbúinu. Eftir það flutti hún alfarin til Nýju Mexíkó.
Einstök fegurð
Þar bjó hún til æviloka. Hún teiknaði fram í andlátið þótt hún hafi þurft að hætta að mála árið 1972 eftir að hafa nánast misst sjónina en hún gat áfram gert blýantsteikningar. Hún lést 6. Mars 1986 og eftir að hafa hlotið margvíslegan heiður vegna listar sinnar meðal annars Presidental Medal of Freedom-orðuna úr hendi Gerald Fords forseta. Hún þótti fremur hornótt og ekki við allra skap en nokkrir nánir vinir sem kynntust henni best lýstu henni sem rólyndri, yfirvegaðri og íhugulli konu.
Enginn vafi er á að Georgia O’Keeffe er einn athyglisverðasti listmálari Bandaríkjanna. Hún sagðist sjálf hafa helgað líf sitt því að skapa myndir sem tjáðu víðerni og undur veraldarinnar sem hún lifði í Hverfulleiki tilverunnar og hin stuttu blómaskeið náttúrunnar koma aftur og aftur fyrir í myndum hennar sem hafa yfir sér kyrrð og fegurð sem er engu lík.