Haustin eru alltaf sá tími þegar íslenskar konur vilja fylgjast með tískunni og klæðast vel enda veðurfarið til þess fallið. Haustin hér eru oft ótrúlega falleg þegar sólin er lágt á lofti og myndar ljós og skugga, haustlitir koma í náttúruna og fatnaðinn sömuleiðis. Við könnuðum hvað verður aðallega í tísku í vetur bæði liti, efni og flíkur. En eins og alltaf er sjón sögu ríkari, við látum myndirnar tala sínu máli og vonum að konur finni eitthvað við sitt hæfi.
Fallegir og hlýir haustlitir
Fallegir haustlitir eru áberandi eins og gefur að skilja en brúnir tónar sérstaklega eins og búrgúndíbrúnn, brúnn og kamel. Vínrautt og grænir tónar eru líka áberandi ásamt svörtu sem er jú sígilt og grænbláum lit. Svo má sjá liti sem brjóta þetta upp eins og fagurblaán. Kögur er líka í tísku og fiskibeinamynstur í ullarjökkum og hélbarðamynstrið heldur líka velli.
Mokkaskinn, leður og rúskinn
Áferð skipti máli þennan veturinn og náttúruleg efni verða áberandi þar á meðal leður, mokkaskinn og rúskinn en einnig silki og ull.
Þær konur sem eiga skinnflík inni í skáp ættu að dusta rykið af henni því vintage-flíkur eru í tísku og trench coat-sniðið sést víða í leður- og rúskinnskápum. Upplagt er að dusta rykið af því sem til er eða fá sér nýja flík sem mun endast, enda hver kona vel klædd í slíkri flík.
Silki og ull – sígild efni
Slaufublússur hafa verið áberandi og halda áfram að vera í hátísku í vetur. Þær eru alltaf smart og klæðilegar hvort sem þær eru úr silki, satíni eða bómull. Kasmír og ull eru gæðaefni og hægt að fá fallegar ullarpeysur víða, hvort sem er laussniðnar, hnepptar eða meira aðsniðnar.
Blazerar og fiskibeinamynstur
Blazerar eru alltaf flottir og hægt að nota þá við pils, buxur og kjóla. Blazerar með fiskibeinamynstri eru í hátísku þennan vetur. Hér er mynd af einum slíkum frá Ralph Lauren.
Síð pils eru sígild og klæðileg og þau eru í tísku, hvort sem er úr satíni eða silki. Þau eru falleg við blazera og auðvelt að klæða þau upp. Mikið úrval er af slíkum pilsum á góðu verði í verslunum Ntc., bæði Companys í Kringlunni og Karaktter í Smáralind.
Tískan í ár er afar falleg þetta haustið og áhersla er lögð á vönduð efni og falleg snið. Engin ein lína er meira áberandi en önnur. Buxur koma bæði víðar og þrengri. Þá eru slæður og klútar vinsælir enda alltaf fallegt að skarta klút í fallegum litatónum sem fer viðkomandi konu vel næst andlitinu. Síðar, jafnvel grófar, hálsfestar m.a. úr tré eru komnar aftur í tísku, þannig að nú er um að gera að draga fram það sem maður á til og svo er alltaf smart að blanda saman hálsfestum sem eru fínlegri og um að gera að skarta sínu fegursta. Hér gildir að hver kona finni sinn stíl sem hentar henni, framboðið af fatnaði og fylgihlutum er mikið.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna