Mun fleiri konur en karlar á hjúkrunarheimilum

Þrjúhundruð milljónum króna á að verja á næsta ári til að mæta kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við byggingu þriggja nýrra hjúkrunarheimila með 241 hjúkrunarrými, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.  Gerð er tillaga um að 115 milljón króna fjárheimild fáist til rekstrar nýrra hjúkrunarrýma á Íslafirði og Egilssöðum og 78 milljón króna fjárheimild fáist til að bæta úr brýnni þörf fyrir hvíldarinnlagnir og ný úrræði fyrir aldraða.

Níu af hverjum tíu starfsmönnum eru konur

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að samkvæmt jafnréttismarkmiðum tillögunnar eigi karlar og konur að hafa sömu tækifæri til að komast inn á hjúkrunarheimili þar sem val íbúa miðast við heilsufar en ekki kyn. Hins vegar séu konur um tveir þriðju þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Auk þess eru konur um 90 prósent þeirra starfsmanna sem starfa á hjúkrunarheimilum. Auknar fjárheimildir í málaflokkinn eru því líklegri til að hafa áhrif á fleiri konur en karla bæði sem íbúa og í fjölda starfa. Nái tillagan fram að ganga mun hún viðhalda óbreyttu ástandi hvað varðar íbúa og starfsfólk en getur haft þau áhrif að létta umönnun af aðstandendum. Rannsóknir benda til að konur sinni því hlutverki frekar en karlar og því má gera ráð fyrir að tillagan hafi meiri áhrif á þær.

Óbreytt staða kynjanna

Hvað varðar hvíldarinnlagnir segir í frumvarpinu að konur og karlar eigi að hafa sömu tækifæri til að komast inn í hvíldarrými. Hins vegar bendi rannsóknir til þess að konur séu í meiri hluta aðstandenda í umönnunarhlutverki heima við en karlar. Því megi leiða líkur að því að hvíldarinnlagnir hafi áhrif á fleiri konur í því hlutverki en karla. Tillagan miðar að því að mæta þörfum þeirra sem eru veikastir og þurfa á mikilli hjúkrunarþjónustu og aðstoð að halda. Nái hún fram að ganga viðhaldi hún óbreyttri stöðu kynjanna hvað varðar notendur þjónustunnar og starfsfólk. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að innlagnir létti á umönnun heima fyrir en rannsóknir benda til að konur sinni því hlutverki í meira mæli en karlar.

 

 

Ritstjórn september 9, 2015 14:48