Má segja þetta við foreldra barnabarnanna okkar?

Vefurinn grandparents.com spurði nokkra foreldra sem fylgjast með vefsíðunni, hvað þeir myndu vilja segja við foreldra barnabarnanna sinna, ef þeir þyrftu ekki að óttast afleiðingarnar. Það kom í ljós að öfum og ömmum lá ýmislegt á hjarta sem snýr að uppeldi barnabarnanna. Margir veigra sér hins vegar við því að láta skoðanir sínar í ljósi, vegna þess að þeir vilja ekki særa tilfinningar barnanna sinna og það er líka erfitt að gagnrýna aðra fyrir það sem menn gerðu kannski ekki sjálfir sem uppalendur. Það er samt skemmtilegt að skoða svör afa og ömmu við ýmsu sem snýr að uppeldi barnabarnanna og setningarnar frá þeim birtast hér fyrir neðan í nokkrum flokkum . Flest af því væri þó áreiðanlega hægt að ræða við foreldra þeirra í góðu  tómi. En það má alveg fylgja með að yfirleitt voru það ömmurnar sem svöruðu.

Um tímann sem barnabörnin verja við skjáinn

Takið af þeim farsímana og spjaldtölvurnar og sendið þau út að leika.

Elskið þau meira en ykkur sjálf og símana ykkar.

Sendið börnin út að leika og leggið tölvurnar til hliðar.

Um foreldrahlutverkið

Hagið ykkur eins og foreldrar barnanna, ekki vinir þeirra.

Það hjálpaði mér enginn að ala ykkur börnin mín  upp….takið ábyrgð á ykkar börnum og gerið ekki kröfur um að einhverjir aðrir ali þau upp.

Ekki múta börnunum til að gera það sem þú vilt að þau geri.

Um hvernig þau haga uppeldinu

 Slakið á, börnin þurfa ekki að vera á fullu allan daginn, alla daga.

Hættið að öskra.

Kærastinn þinn er ekki góður fyrir börnin þín.

Verðið fullorðin, börnin þarfnast ykkar. Við ölum upp tvö af barnabörnunum okkar.

Ekki nota börnin til að ná ykkur niðri á öðru fólki.

Sama hvað þér finnst um foreldra þína eða tengdafjölskyldu, ekki tala illa um þau fyrir framan börnin .

Um tíma með barnabörnunum.

Leyfið þeim einstaka sinnum að vera ein með okkur.

Leyfið mér að hitta barnabörnin.

Leyfið henni að gista hjá okkur að minnsta kosti eitt kvöld í mánuði. Og til viðbótar, okkur langar til  að hitta hana oftar en 2-3 klukkustundir í mánuði.

Um dýrmætar samverustundir með börnunum.

Njótið tímans með þeim. Þau eru svo fljót að verða fullorðin.

Þau vaxta ótrúlega hratt. Stoppið og finni ilminn af rósunum,

Það er ekkert jafn mikilvægt og börnin ykkar. Verjið eins miklum tíma með þeim og þið getið.

Ekki láta eigin vonbrigði í lífinu koma upp á milli ykkar og barnanna ykkar. Þó lífið sé erfitt, verið til staðar fyrir þau. Þau þurfa á ykkur að halda.

Og svolítið hrós í lokin.

Þið standið ykkur frábærlega með börnin.

Þakka ykkur fyrir þessi dásamlegu barnabörn.

Ég er stolt af ykkur.

Þakka ykkur fyrir tvær yndislegar ömmustelpur og hvað þið hafið alið þær vel upp.

Ritstjórn desember 11, 2017 15:58