Aktu áhyggjulaus inn í veturinn

Veturinn er farinn að minna á sig og þá þarf að huga að því hvort að bílinn sé klár. Það er ýmislegt fleira sem þarf að vera í lagi en hjólbarðar og rúðuþurrkur.  „Við bjóðum upp á sérstaka vetrarskoðun og höfum gert undanfarinn áratug,“ segir Haraldur Þorsteinsson, þjónustustjóri hjá Bernhard, Vatnagörðum.

„Við skiptum um olíur á vél og síur. Það er farið yfir ástand viftureimar, stýrisreimar og tímareimar. Það er athugað hvort það eru olíuleki í gírkassa og hvort það er nægur hemlavökvi. Við skoðum hvort stýrisendinn sé í lagi, spindilkúlur og rafgeymir. Skoðum hvort það er nóg af frostlegi á bílnum  og að sjálfsögðu er farið yfir hvort allar perur eru í lagi og þurrkublöðin.“

Margir átta sig ekki á því að frostlögurinn og bremsuvökvinn á bílnum gengur úr sér. „Frostvökvinn og bremsuvökvinn endast í um það bil fimm ár. Þegar forstlögurinn fer að ganga úr sér getur hann tært vatnskassann og þá getur myndast stífla sem leiðir til þess að headpakkningin fer,“ segir Haraldur og bætir við að ástand hjólbarða sé skoðað vandlega.

„Ef öll þessi atriði eru í lagi teljum við að fólk geti ekið áhyggjulaust út í veturinn,“ segir Haraldur. Hann segir að vetrarskoðun kosti 24.990 og komi í ljós að bílinn þarfnist einhverra viðgerða sé boðinn 20 prósent afsláttur af þeim.

Það fer svo eftir því hvort fólk hyggur á einhver vetarferðalög hvaða útbúnaður ætti að vera í bílnum.  Skafa er þó það sem flestir þurfa að nota einhvern tímann yfir vetrartímann. Það getur líka komið að góðum notum að hafa skóflu í bílnum, dráttartóg og hleðslutæki fyrir símann.

Í þessari mynd sem Samgöngustofa hefur látið gera er fjallað um hvernig best sé að undirbúa bílinn fyrir vetrarakstur. Það borgar sig að fara yfir þessi atriði snemma þannig að vetrarfærðin komi ökumönnum ekki á óvart.

 

Ritstjórn október 26, 2016 12:53