Má tala um allar tilfinningar nema trúna?

„Trúin og trúartilfinningin virðist eiga það erfitt uppdráttar í nútímasamfélagi að það er erfitt fyrir fólk að koma með hana fram í dagsljósið og tala um hana eins og hverja aðra tilfinningu“, segir séra Helga Soffía Konráðsdóttir sóknarprestur í Háteigskirkju og prófastur í  Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, þegar blaðamaður Lifðu núna tók hana tali um kristna trú í tilefni páskanna. Hún bætir því við að það skjóti skökku við að í dag sé fólk hvatt til að ræða opinskátt um tilfinningar sínar, það þyki sjálfsagt að ræða kynlíf sitt og kynhneigð, áfengisneyslu og margs konar áföll, en ekki trúna.

Við geymum trúna fyrir okkur

Helga Soffía segist reyna að skilja þetta. Það sé verkefni prestsins að boða trúna, biðja með fólki og fyrir fólki. „Ef trúnni er þokað út á jaðarinn í lífinu erum við í erfiðum málum með verkefni kirkjunnar. Mér finnst þetta lýsa samfélagi okkar. Við tölum um að við séum svo opin fyrir öllu og opinberum líf okkar á Facebook og Instagram, en geymum trúna fyrir okkur. Stundum finnst mér að prestarnir „lúffi“ fyrir þessu og reyni að lækka þröskuldinn inn í trúna og hefðina meira en góðu hófi gegnir. Ég vil frekar halda áfram á sömu leið og kirkjan hefur fylgt, að játa trúna, að halda áfram að segja við fólk, ég skal biðja fyrir þér, eða má ég biðja fyrir þér?“

Hinn trúarlegi arfur er alls staðar í menningunni

„Trúin hefur verið hluti af menningu okkar í aldanna rás og er enn. Hún er ekki fyrir utan venjulegt daglegt líf.  Alþingi er sett á hverju ári að undangenginni athöfn í Dómkirkjunni þar sem beðið er fyrir landi og þjóð. Þar er verið að minnast þess sem þjóðin hefur í gegnum tíðina sótt stuðning til og sungnir eru sálmar sem eru samdir af íslenskum skáldum. Flestir hafa lært sálma utan að í skóla og í fermingarfræðslunni. Hinn trúarlegi arfur er alls staðar í menningunni“, segir Helga Soffía og bendir á að við séum með kross í fánanum okkar, alveg eins og önnur Norðurlönd. „Þetta er kross Krists“, bætir hún við.

Heimsókn í kirkju bara leyfð í einkareknum skólum

Helga Soffía hefur heyrt í  fólki sem finnst ástæða til að spyrja þá sem bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum hvort það samræmist stefnu þeirra að skólabörn fari í heimsókn í kirkjur. „Í þessum heimsóknum er verið að kenna um arfleifðina sem trúin skilur eftir sig í menningunni, kenna þeim sitthvað um listaverkin í kirkjunni, táknmál kirkjunnar og arkitektúr. Fyrir jólin er þeim sagt frá jólaguðspjallinu og fæðingu Jesú í Betlehem. Þetta má ekki lengur nema í einkareknum skólum. Meirihluti foreldranna í grunnskólunum er algerlega sammála því að börnin fari í kirkju, en ef einn eða tveir neita getur það verið snúið í framkvæmd. Við sendum foreldrunum ævinlega fyrirfram, nákvæma lýsingu á því sem farið verður yfir í heimsókninni“, segir hún.

Víðar en hér sem fólk vill lítið vita af trúnni

„Það er ýmislegt sem fer forgörðum ef þessi samskipti milli skólans og kirkjunnar glatast“, segir Helga Soffía og nefnir þar sérstaklega svokallað áfallaráð í samstarfi skóla og kirkju sem hafi verið starfandi í sóknum. „Ef foreldri fellur frá, kennari deyr eða annað áfall verður í skólanum hef ég verið kölluð til og tekið samtal um það“. Hún segir að það sé ekki einungis á Íslandi þar sem fólk vilji lítið vita af trúnni. „Við erum ekkert bara að lýsa íslensku samfélagi í þessum efnum, heldur vestrænum þróuðum samfélögum í Evrópu og Norður-Ameríku“.

Trúin ein af grunnþörfum manneskjunnar

„Við sem erum í kirkjunni lítum á trúna sem eina af grunnþörfum manneskjunnar. Okkur finnst það hvorki flókið né öðruvísi að vera trúaður“, segir Helga Soffía.  „Trúarbrögð eru alls staðar meðal fólks í veröldinni. Það iðka allir einhvers konar trú með einhverjum hætti. Það sem kirkjan er að gera í dag, er að styðja fólk til að vera almennilegar manneskjur, trúin á guð er ætluð til þess að styrkja fólk í því að vera manneskjur, menn á meðal manna, en ekki til að búa til heilagra manna elítur. Við eigum ekki að dæma nokkurn mann, það er ekki okkar hlutverk. Það þarf að rækta alla þætti mannlegs lífs, eitt af því er að fólk trúir, eða trúir ekki. Þeir sem eru kristinnar trúar, ákalla Jesú Krist fyrir heilagan anda og trúa á þennan guð sem skapara sinn. Trú á upprisinn drottinn er þungamiðja páskahátíðarinnar. Ég kalla það firringu að fólk megi ekki ræða trúna, maðurinn fjarlægist sjálfan sig sem manneskju, þannig skynja ég þetta,“ segir hún.

Að láta skíra lítið barn eða ekki

Helga Soffía segist hafa hitt tvær konur í sundi sem voru að tala um skírnina. „Mér finnst svo sorglegt að unga fólkið skuli ekki láta skíra börnin sín, sagði önnur og hin svaraði. Hugsaðu þér að eignast svona dásamlegt lítið barn og fólk veit alveg að lífið getur verið með ýmsu móti. Af hverju vilja mamma og pabbi sem vilja barninu sínu allt það besta, af hverju vilja þau ekki færa Guði barnið sitt?“. Helga segist sammála því að þetta sé sorglegt og það sé ástæða til að ræða þetta við unga fólkið. Hún hafi sem prestur átt innihaldsrík samtöl við unga foreldra um það hvort þau ættu að láta skíra barnið sitt eða ekki og segir að það hafi ekki allir sömu sýn á það. Foreldrar aldir upp við svipaðar aðstæður, geti haft mismunandi skoðanir á þessu.

Trúin kemur til baka með aldrinum

Helga Soffía segir einnig að þótt fólk gerist fráhverft trúnni komi hún aftur. Trúin eigi greiða leið að mönnum á tveimur æviskeiðum. Þegar þeir séu börn og þegar þeir verði gamlir. „Ég held að trúin komi til baka með aldrinum. Við verðum auðmjúk gagnvart lífinu og tilverunni. Við höfum ekkert allt á hreinu og fólk ætti að hafa lært það í gegnum Covid að við getum ekki skipulagt allt. Þá skiptir máli að vera vel rótfastur og þekkja til hvaða bjargráða maður grípur, þegar lífið fer með mann í óvæntar áttir“.

Helga Soffía hefur verið prestur í 36 ár og hefur þjónað víða, bæði á Íslandi og í útlöndum. Hún var prestur í Svíþjóð og bjó í Japan um tveggja ára skeið, hún hefur verið prestur í Háteigskirkju síðan 1993 og prófastur í Reykjavíkurprófastdæmi vestra síðan 2015.

 

Ritstjórn apríl 17, 2022 08:00