Hikar ekki við að breyta um kúrs í lífinu

 

Jóhanna Vigdís og Þorsteinn

Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona er ein af þessum manneskjum sem okkur Íslendingum finnst við eiga sameiginlega. Hún hefur komið okkur fyrir sjónir á leiksviðum hér og þar, bæði stórum sem smáum og oft leikið persónur sem standa hjarta þjóðarinnar nærri. Nú er þessi hæfileikaríka leik- og söngkona komin á miðjan aldur og tók meðvitaða ákvörðun um að hvíla leiklistina um sinn. “Ég er alls ekki að leggja á flótta en ég viðurkenni að eftir áralanga vinnu í leikhúsunum læddist sú hugsun að mér fyrir nokkru að kannski væri gott að slaka aðeins á. Í langan tíma hefur takturinn verið þannig að ég er alltaf á leiðinni í vinnuna þegar aðrir eru að koma heim eftir daginn. Við hjónin höfum gjarnan mæst í gættinni.” Nú er Jóhanna farin að vinna í tengslum við menntamál hjá Samtökum Iðnaðarins sem hún segir að sé geysilega spennandi og fjölbreytt starf.

Lúxusvandamál

“Auðvitað er það lúxusvandamál að hafa aftur og aftur lent í sýningum sem hafa gengið sérlega vel. En um leið og það er auðvitað gleðiefni þegar vel gengur fer ekki hjá því að orkan sem fer í hverja sýningu sé lýjandi til lengdar því sýningarnar geta verið allt að sex sinnum í viku,” segir Jóhanna. Hún fór seint að læra leiklist en hafði tekið burtfararpróf bæði í söng og á píanó áður sem nýttist henni vel þegar hún ákvað að bæta leiklistinni við. Hún útskrifaðist úr leiklistarskólanum 1999, þá 31 árs. Jóhanna var svo 38 ára þegar hún eignaðist eignaðist fyrra barnið og segist hafa verið algerlega tilbúin í barneignir þá.

 “The show must go on”

Hæfileikar Jóhönnu hafa gert henni kleift að leika jafnt í söngleikjum og dramastykkjum.

Jóhanna er gift Þorsteini Guðbjörnssyni en hann er húsasmíðameistari, viðskiptafræðingur og nú síðast lauk hann MPM námi frá HR vorið 2017 en það er master í verkefnastjórn. Eitt árið voru þau bæði í HR sem Jóhanna segir að hafi verið mjög skemmilegur tími. “Ég útskrifaðist með MBA gráðu og hann með MPM gráðu” segir hún og hlær. Þessi lífsglaða kona hikar sannarlega ekki við að breyta um kúrs í lífinu ef henni sýnist svo.

Þau Þorsteinn eiga saman tvo syni, 10 og 12 ára og svo segist Jóhanna hafa fengið tvö bónusbörn sem Þorsteinn kom með á heimilið úr fyrra hjónabandi og þau búi hjá þeim. Nú eru drengirnir, sem þau eiga saman, að sigla inn í táningsaldurinn sem er hluti af ástæðunni fyrir því að Jóhanna vill vera meira til staðar.

“Mér finnst reyndar alltaf jafn gaman að vera á sviði og takast á við ólík hlutverk,” segir Jóhanna. “En aðalókosturinn við leiklistina er að ráða sér aldrei sjálfur. “The show must go on” og þá skiptir engu máli hvort maður er þreyttur og ósofinn eða með flensu. Maður verður að fara á sviðið og klára sig á verkefninu.”

 Konur á miðjum aldri

 Jóhanna segir að oft sé sagt um konur á miðjum aldri að þær fái þörf fyrir breytingu. “Stundum ákveða þær að skilja, hætta að drekka eða fara í nám til að breyta um vinnu. Ég er ekki skilin og drekk enn,” segir Jóhanna og hlær. “En ég valdi að fara í nám og það var mjög  skemmtilegt.” Hún kláraði námið í HR 2016. “Ég fór í námið eftir Mary Poppins sýninguna og fyrir Mamma mía en ég viðurkenni alveg að þetta var brjálæðislega erfitt með leikhúsvinunni. Sérstaklega af því að námið byggist mikið á hópavinnu og þegar allir aðrir eru lausir erum við listamennirnir að vinna. Ég fékk reyndar námsleyfi eitt misseri á seinna árinu en byrjaði að æfa í Mamma mía sýningunni í lok námstímans. Leikhúsið er búið að vera gott við mig og þau sýndu því mikinn skilning að mig langaði að breyta til. Ég fékk námsleyfi fyrir námið og nú er litið á þetta sem starfsleyfi hvað sem verður. Þetta er það sem ég vil gera núna og finnst hið nýfengna frelsi óskaplega gott. Ef ég vil hætta að vinna kl. 2 og vinna frekar heima um kvöldið get ég gert það sem er rosalega ólíkt því sem gerist í leikhúsinu þar sem allt manns líf var skipulagt af öðrum.”

 Er nú að vinna með “venjulegu fólki”

 Jóhanna hlær að því að núna sé hún að vinna með “venjulegu fólki”. “Svo kemur það mér svo skemmtilega á óvart að þetta “venjulega  fólk” er rosalega skapandi og fjörugt,” segir Jóhanna og hlær.

Hugmyndin að því að fara í nám segir hún að hafi farið að gerjast með sér 2014 en þegar hún fékk svo tilboð um að leika í Mamma mía hafi hún ekki getað hafnað því. Hún brosir þegar hún segir frá því að hún hafi hugsað með sér að það væri kannski bara gott að hætta á toppnum.

 Að þekkja sinn vitjunartíma

 “Nú eru komnir svo margir leikarar sem geta gert hlutina jafnvel ef ekki betur á meðan ég er sjálf að búa mér til nýja og spennandi framtíð,” segir Jóhanna og bætir við að hún fylgist vel með á hliðarlínunni. “Nú ætla ég að halla mér aftur og njóta og elska.”

Jóhanna nýtur þess í bili að vera laus við pressuna sem fylgir leiklistinni.

 Örfáar leikkonur endast

 “Ég sá sjálfa mig aldrei fyrir mér sem eldri leikkonu,” segir Jóhanna. “Það eru einungis örfáar leikkonur sem hafa enst og þar má nefna Kristbjörgu Kjeld, Margréti Helgu og Sigrúnu Eddu. Þessar konur eru svo miklir listamenn að það verður allt að gulli sem þær gera. Það eru bara svo fáar konur sem ná svona langt og mig langar ekki að eldast og verða beiska leikkonan.”

 Óskaplega heimakær

“Leiklistin er frábært starf þegar maður er ólofaður og barnlaus en málin flækjast þegar fjölskylda er komin í breytuna. Ég er óskaplega heimakær og finnst gott að halda mér til hlés en nú nýt ég þess ríkulega að fara á leiksýningar og sjá kollegana brillera. Ég veit svo vel hversu mikil vinna liggur að baki hverri sýningu.”

 Vill hafa stjórnina

 Jóhanna segir að með auknum þroska vilji flestir vera gerendur í eigin lífi. “Það er kannski það sem ég er að gera með því að mennta mig til annars en að starfa bara í leikhúsi.” Hún segist núna vera með allskonar skemmtileg verkefni í gangi, m.a. í tengslum við tónlistina sem hún hafi ekki getað sinnt meðfram leiklistinni. Þegar allt kemur til alls er þessi hæfileikaríka leikkona gerandinn í sínu eigin lífi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 5, 2018 12:05