Lít ég vel út?

Sigrún Stefánsdóttir

Dr.Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi

Það gerði hlé á snjókomunni í morgun og ég notaði tækifærið og skaust í banka. Ég leysti erindið og ákvað svo að heilsa upp á ömmustrák sem þar vinnur. Hann sýndi mér stoltur myndir af syninum sem fæddist inn í covid og við höfum því varla séð „live“ af öryggisástæðum. Þegar ég kvaddi sagði ég honum hvað mér þætti hann líta vel út. Hann horfði brosandi á mig og sagði:  Sömuleiðis, amma mín. – Ég skellti upp úr bak við grímuna. Lít ég vel út?  Nei, svo sannarlega ekki. Mér þykja þessar grímur ömurlega ljótar og leiðinlegar eftir því. En maður lætur sig hafa það enda málstaðurinn góður. Við grímunotkunina bætist svo við að maður er hættur að nenna að setja upp „andlit“. Varalitur situr bara fastur í grímunni og augnháralitur klessist út um allt þegar gleraugun verða þakin móðu í hvert skipti sem maður kemur inn úr kuldanum. Þetta þekkja allir sem eru með grímu og gleraugu samtímis.

Jón Gnarr gerði skemmtilegt grín í Áramótaskaupin af því hvernig við verðum öll eins bak við grímurnar. Hann var farinn að kaupa sér rúm með ókunngri konu og ná í vitlaust barn í skólann. Það er ekki úti í hött. Ég hitti konu með stóra loðhúfu niður að augum og auðvitað með grímu og gleraugu. Hún heilsaði með mjúkri röddu. Ég horfði í augun á henni og varð að játa að ég þekkti hana ekki fyrr en hún lyfti grímunni eldsnöggt.

Vinkona mín sagðist vera farin að taka eftir því hve hrukkótt við værum öll í kringum augun, nokkuð sem hún hafði aldrei hugsað út í. Hún lýsti því líka hvernig hún hefði gengið niður mann í matvöruverslun, blind af móðunni á gleraugunum.

Það eru margir að gera út á grímuframleiðslu. Grímur í alls konar litum, munstrum og tilþrifum. Ég verð hins vegar að játa að mér þykja þær allar ljótar. Ég hata grímur og finnst allir ljótir með þær. Það eina góða við grímuna mína, fyrir utan að vernda mig gegn covid, er að ég er yfirleitt að köfnun komin þegar ég að nálgast afgreiðsluborðið í verslun þannig að ég kem mér út áður en ég kaupi einhvern óþarfa.  Fátt er svo með öllu illt. En mikið verð ég glöð þegar ég get aftur heilsað brosandi fólk á förnum vegi og jafnvel fengið klapp á öxlina, grímulaus.

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 1, 2021 08:00