Margskonar lög um eldra fólk

Það gilda ýmiss lagaákvæði um eldra fólk. Á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands er að finna yfirlit yfir helstu lög og lagabálka sem gilda um þennan hóp.  Þar segir:

 

Á síðustu árum hefur hlutfallslega fjölgað mjög í hópi aldraðra á Íslandi. Samkvæmt lögum um málefni aldraðra teljast til aldraðra einstaklingar sem náð hafa 67 ára aldri. Opinberum starfsmönnum er gert að láta af störfum þegar þeir verða 70 ára og félög eldri borgara eru opin öllum einstaklingum 60 ára og eldri. Því má segja að aldraðir séu fólk á aldrinum yfir sextugu en auðvitað er aldur mjög afstætt hugtak því aldur leggst á ólíkan hátt á mismunandi einstaklinga.

 

Lög um málefni aldraðra

Árið 1982 var sett fyrsta heildstæða löggjöfin um málefni aldraðra. Tilgangur hennar var að skipuleggja betur þjónustu við aldraða, t.d með því að tengja hana heilbrigðisþjónustu heilsugæslustöðva og félagslegri þjónustu á vegum sveitarfélaganna. Árið 1989 voru lögin endurskoðuð og ný lög voru sett um málefni aldraðra nr. 82/1989 en þau gengu í gildi 1. janúar árið 1990. Aftur voru lögin endurskoðuð og eru nú í gildi lög nr. 125/1999 en þau voru samþykkt á Alþingi 31. desember árið 1999.

Lögin fela í sér þau markmið að gera öldruðum fært að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er og að öldruðum sé tryggð þjónusta þegar hennar er þörf og í samræmi við þarfir hvers og eins. Ásamt því er lögð áhersla á að aldraðir njóti jafnréttis og að sjálfstæði þeirra sé virt.

Á Íslandi er yfirstjórn öldrunarmála í höndum Velferðaráðherra. Ráðuneytið hefur frumkvæði að stefnumótun um málefni er varða aldraða og á það einnig að annast áætlanagerð í málaflokknum fyrir landið í heild sinni. Samkvæmt lögunum skipar velferðarráðherra fimm manna nefnd sem hefur málefni aldraðra á sinni könnu. Er einn nefndarmaðurinn tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Verkefni nefndarinnar eru ráðgefandi ásamt því að vera tengiliður á milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.

Þjónustuhópar aldraðra

Í hverju heilsugæsluumdæmi starfa þjónustuhópar aldraðra. Í þeim hópi sitja fimm fulltrúar, öldrunarlæknir og hjúkrunarfræðingur skipa sinn hvorn fulltrúan, sveitastjórnir skipa tvo fulltrúa sem skulu hafa þekkingu á félagslegri þjónustu við aldraða og að lokum tilnefna samtök eldri borgara á svæðinu einn fulltrúa. Hlutverk þjónustuhópsins er að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra. Hópurinn á einnig að gera tillögur til sveitastjórna um öldrunarþjónustu ásamt því að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þurfa og kynna þeim þá kosti sem þeim standa til boða.

Framkvæmdasjóður aldraðra

Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum árið 1981. Hefur hann það hlutverk að vinna að uppbyggingu öldrunarþjónustu á Íslandi. Fjármagn sjóðsins á að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva fyrir aldraða. Sjóðurinn á einnig að styrkja nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem nýtt er fyrir þjónustu í málefnum aldraðra. Sjóðurinn styrkir einnig sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að þróa skipulagða heimaþjónustu fyrir aldraða. Ásamt því er sjóðnum ætlað að styrkja rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum ásamt öðrum verkefnum.

Réttindi aldraðra

Í íslenskum lögum er að finna margs konar ákvæði sem hafa það markmið að gæta að hagsmunum þeirra sem geta ekki, vegna ýmissa ástæðna, borið fulla ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum. Hver einstaklingur eldist á mismunandi hátt og sumir aldraðir eru ófærir um að gæta hagsmuna sinna.

Í 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um sakhæfi, þar sem segir að þeim mönnum skuli ekki refsað sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna verkum sínum. Rétt er þó að taka fram að ölvun eða vímuástand sem einstaklingur hefur sjálfur komið sér í leiðir ekki til ósakhæfis.

Í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 er að finna ákvæði sem leyst getur einstaklinga undan ábyrgð sinni á samningi ef þeir eru taldir ósanngjarnir. Samkvæmt 36. gr. laganna má víkja samningi í heild sinni eða að hluta til frá, eða breyta honum, ef að það er talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, samkvæmt nánari skilgreiningu á því hvað fellur þar undir síðar í ákvæðinu. Jafnframt því kemur fram í ákvæðinu að við mat á aðstæðum skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningaviðræður og atvika sem síðar komu til. Ákvæði þetta er sérlega mikilvægt til að vernda þá sem þess þurfa gegn misnotkun annarra á skilningsskorti þess sem í hlut á hverju sinni.

Þegar kemur að mannréttindum aldraðra eru það helst réttur til aðgengis og þátttöku, réttur til framfærslu og félagsþjónustu, réttur til persónufrelsis og friðhelgi einkalífs, réttur til verndar fjölskyldulífs, réttur til heilbrigðis- og endurmenntunar, réttur til atvinnu og tómstunda, búsetu og eigin heimilis og bann við ómannlegri og vanvirðandi meðferð sem koma við sögu.

 

Ritstjórn júlí 2, 2019 07:14