Vilja sömu mannréttindi og aðrir

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

Getur það staðist jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að fólk sé tvískattað eftir 67 ára aldur? Að einn aldurshópur sé tekinn út úr, hann sé skattlagður hjá Ríkisskattstjóra eins og lög gera ráð fyrir með alla landsmenn sem hafa tekjur og síðan sé hann „skattlagður“ aftur hjá Tryggingastofnun ríksins?  Þar lækka greiðslurnar all verulega, um leið og viðkomandi hefur einhverjar greiðslur úr lífeyrissjóði. Þó það megi færa rök fyrir því að það eigi að beina greiðslum ríkisins til þeirra sem hafa minnst á milli handanna, eru skerðingarnar í almannatryggingakerfinu alltof miklar og byrja við tekjumörk sem eru alltof alltof lág. Með herkjum tókst að hækka frítekjumark þeirra sem enn eru starfandi þegar eftirlaunaaldri er náð, úr 25.000 á mánuði í 100.000 krónur á mánuði.  Þ.e. menn mega hafa 1.200.000 krónur á ári í atvinnutekjur, án þess að það fari að hafa áhrif á eftirlaunin. Í Danmörku eru skerðingar í kerfinu vegna atvinnutekna, en þær byrja þó ekki fyrr en fólk er komið með tekjur sem teljast þokkalegar.

Þegar verið var að lögbinda greiðslur manna í lífeyrissjóði, var þeim sagt að féð yrði síðan notað til að þeir gætu átt  áhyggjulaust ævikvöld. Þessir peningar myndu bætast við það sem ríkið greiddi fólki í eftirlaun. Þeir sem í dag eru að byrja að taka út lífeyrinn úr lífeyrissjóðnum sínum, vakna hins vegar upp við vondan draum og fá almennt mun lægri greiðslur en þeir ætluðu. Sjá einungis lítinn hluta lífeyrisins sem þeir borguðu árum saman. Maður sem ég hitti nýlega sagði að tveir vinir hans sem aldrei hefðu greitt í lífeyrissjóð, fengju sömu mánaðargreiðslur og hann sem borgaði í lífeyrissjóð í 50 ár. Það þótti honum undarlegt. Annar sagðist ekki sjá eftir öðru meira en að hafa greitt í lífeyrissjóð. Hefðu menn vitað það sem þeir vita nú, fimmtíu árum síðar, hefðu þeir aldrei látið sér detta í hug að borga í lífeyrissjóð. Það hefði ekki verið hægt að koma þessu kerfi á, nema vegna þess að fólk trúði því að það væri að bæta hag sinn á efri árum.

Grái herinn hefur höfðað mál á hendur ríkinu vegna þessa og það verður fróðlegt að sjá hvað út úr því kemur. Skoðanir hafa verið skiptar á þessum málaferlinu, en hvort sem málið vinnst eða tapast, þá  er brýnt að fá úr því skorið, hvort þetta fyrirkomulag stenst ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er erfitt að ímynda sér að eldra fólk eigi ekki að njóta sömu mannréttinda og aðrir, það er að afla tekna og borga af þeim sama skatt, á sama hátt og allir aðrir í samfélaginu.

Þegar rætt er um afnám skerðinganna, virðast margir helst hafa af því áhyggjur að þeir sem hafa góð eftirlaun, eins og til dæmis alþingismenn og ráðherrar, muni fá greiðslur frá Tryggingastofnun. Það er skringileg röksemdafærsla, því ég hef sárasjaldan heyrt þá skoðun hjá eftirlaunafólki að hálaunamenn eigi að fá greiðslur frá TR.  Eins og kerfið er í dag, fær enginn greiðslur frá stofnuninni sem er með meira en 590.000 krónur í mánaðarlaun. Þau kerfi sem við búum við eru mannanna verk. Það er ekkert því til fyrirstöðu að hafa þak í kerfinu og líka gólf, þar sem enginn fengi lægri greiðslur en sem nemur lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Það er vissulega þannig, að lífeyrissjóðirnir hafa tekið yfir æ stærri hluta af lífeyrisgreiðslum eftirlaunafólks og það stefnir í að þeir muni í framtíðinni greiða öllu vinnandi fólki eftirlaun þegar þar að kemur.  Þá verður hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í þessu kerfi mun minna. En gallinn er bara sá að kerfið er ekki fullburða enn og margir fá alls ekki fullan lífeyri úr lífeyrissjóði. Það eru enn 10-15 ár í að menn fái öll sín eftirlaun úr lífeyrissjóðum. Fram að þeim tíma þarf að búa við kerfið eins og það er, vonandi þó með einhverjum breytingum, sem gera fólki kleift að lifa af eftirlaununum og búa í sama skattaumhverfi og aðrir þegnar landsins.

Meginmarkmiðið er að eftirlaunafólk njóti áfram almennra mannréttinda, en missi þau ekki þegar 67 ára aldri er náð.

 

Erna Indriðadóttir nóvember 23, 2020 06:23