Hughreystandi fjölbreytni

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Þegar pakistanska baráttukonan, Malala Yousafzay, tók við fiðarverðlaunum Nóbels í Ósló fyrir nokkru, hélt hún ræðu eins og vaninn er við slík tækifæri. Þessi sautján ára unga kona hefur vakið heimsathygli fyrir baráttu sína fyrir rétti stúlkna til að mennta sig. Næsta víst er að flestir, ef ekki allir, sem heyrðu ræðu Malölu eða sáu útskrift af henni, jafnvel þó ekki væri nema lítið brot þar af, hafi hrifist með. Ræðan var áhrifarík og allt öðruvísi en það sem við fáum að heyra eða sjá nánast daglega í fréttum, til dæmist þegar stjórnmálamenn og aðrir slíkir taka til máls, og segja eitt en meina oft á tíðum annað. Svo ekki sé nú minnst á allar innihaldsrýru ræðurnar sem heyrast við hinu ýmsu tækifæri, eins og næsta víst er að mikið framboð verður af um komandi áramót, eins og oftast áður.

Það er einkum þrennt varðandi Malölu, sem ástæða er fyrir okkur hér á landi til að taka eftir: Í fyrsta lagi er það viðhorfið til menntunar; í annan stað hin hógværa og yfirvegaða framkoma hennar, og í þriðja lagi er það aldur þessarar miklu baráttukonu.

Í fyrsta lagi: Á sama tíma og Malala berst fyrir rétti stúlkna til að mennta sig, og leggur líf sitt stöðugt í hættu, þá eru íslensk stjórnvöld að fara í akkúrat öfuga átt. Öfgamennirnir í heimalandi Malölu vilja útiloka ungar stúlkur frá því að mennta sig. Íslensk stjórnvöl draga úr möguleikum karla og kvenna, sem komin eru yfir 25 ára aldur, til að mennta sig, með því að meina þeim vist í framhaldsskólum. Það má því að vissu leyti segja að það sé meira jafnrétti í skerðingunni hjá okkur. Það hefði auðvitað mátt halda að það væri frekar ástæða til að verðlauna þá sem vilja reyna að rífa sig upp og auka menntun sína frekar en refsa þeim. En til viðbótar við þetta framlag íslenskra stjórnvalda til menntunar þá ganga þau skrefinu lengra og hækka virðisaukaskatt á bókum. Varla er það hugsað til að stuðla að auknum lestri. Þrátt fyrir þetta þá er næsta víst að við munum fá að heyra talsmenn stjórnvalda tala fjálglega um það á hátíðarstundum, að þeir vilji efla menntun og stuðla að auknum lestri, einnig meðal stúlkna, eins og Malala berst fyrir. Það væri ekki í fyrsta sinn sem stjórnmálamenn myndu segja eitt en meina annað.

Í annan stað: Öll framkoma Malölu við verðlaunaafhenginguna í Ósló var eins og svo algent er, þegar fólk af hennar stærðargráðu kemur fram. Yfirvegunin er nánast smitandi. Það er eitthvað annað en þegar stjórnmálamenn eða aðrir álíka fá tækifæri til að koma fram, hvort sem er í einhverjum ræðustól eða í viðtölum í fjölmiðlum, þá eyða þeir oft meiri tíma í að blammera aðra og kenna öðrum um, í stað þess að segja okkur hvað þeir standa fyrir sjálfir. Yfirvegun er sjaldgæft yfirbragð slíkra uppákoma.

Í þriðja lagi: Malala var ekki ein um hituna þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt. Indverjinn Kailash Satyarthi, hlaut einnig verðlaun, en hann hefur ásamt samtökum sem hann er í forsvari fyrir, barist fyrir réttindum barna í heimalandi sínu. Satyarthi er sextugur. Þetta er nefnt hér af ákveðinni ástæðu, nefnilega, vegna viðbragða sem nýjasti þátturinn í Sjónvarpinu kallaði fram. Fyrsti þátturinn í Hringborðinu var sendur út um svipað leyti og friðarðverlaunin voru afhent. Svo virðist sem aldur stjórnenda þessa sjónvarpsþáttar hafi vakið mesta athygli margra áhorfenda. Af þremur stjórnendum eru tveir á sjötugsaldri og einn á áttræðisaldri. Fjölmargir bloggarar og aðrir þátttakendur í kommentakerfum netmiðlanna töluðu eiginlega ekki neitt annað en aldur stjórnendanna. Og það merkilega er að á meðal þessa fólks sem lét skoðanir sínar í ljós var nokkuð um fjölmiðlafólk. Þetta er í raun ótrúlegt, því þátturinn var mjög fræðandi. Og af hverju að vera á móti fjölbreytni. Er hægt að gera betur í fjölmiðlum en einmitt með því að auka hana? Það var eins og það skipti sumt fólk engu máli hvað sagt var í þessum nýja sjónvarpsþætti. Getur verið að þetta sé ein birtingarmynd þess hvenig vinnumarkaðurinn er að tapa, með því að hleypa eldra fólki með reynslu síður inn á vinnumarkaðinn aftur, ef það lendir út af honum af einhverjum ástæðum? Það skyldi þó ekki vera. Vegna þessa var hughreystandi að horfa upp á það, að Nóbelsverðlaunanefndin valdi eldri karl til að deila friðarverðlaununum með hinni ungu baráttukonu frá Pakistan. Þar var sýnt fram á að það eru verkin sem tala en ekki tölustafir í fæðingarvottorði. Svo var það nú ekki til að draga úr ánægjunni, og þar með álitinu á nefndinni, þegar í ljós kom að þessi eldri karl, hann Satyarthi, flutti einnig innihaldsríka þakkarræðu af mikilli yfirvegun, eins og hin unga Malala. Íslenskir stjórnmálamenn og aðrir álíka geta nefnilega einnig lært af honum og tekið sé hann til fyrirmyndar, í stað þess að bjóða sífellt upp á eitthvað hjal.

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson desember 16, 2014 13:40