Með ástríðufullan áhuga fyrir fólki

Allflestir kannast við stöllurnar Patsy og Ednu úr sjónvarpsþáttunum Absolutely Fabulous því varla finnast skemmtilegri tískudrósir. Joanna Lumley fór á kostum í hlutverki Patsyjar en íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa einnig fengið að kynnast annarri hlið á henni. Joanna hefur gríðarlegan áhuga á ferðalögum og í ferðaþáttum sem hún hefur gert fyrir BBC ferðast hún um fjarlægar og nálægar slóðir og bregður upp fallegum myndum af sögu, siðum og mannlífi hjá þeim þjóðum sem hún heimsækir.

Joanna hefur lag á að nálgast fólkið á næman hátt og koma auga á áhugaverða hluti sem fara gjarnan framhjá túristum. Hún upplifir alls staðar gestrisni og góðvild og hefur meðal annars sagt: „Örlæti fólks í Litlu-Asíu er ótrúlegt,“ segir hún í viðtali á SAGA. „Það býður þér að gista og væri tilbúið að gefa þér fötin sem það stendur í.“

Hún var sérstaklega hrifin af Íran en þangað fór hún um meðan hún fetaði í fótspor Marco Polo og annarra kaupmanna á miðöldum er fluttu silki frá Kína til Feneyja. Erfitt reyndist fyrir kvikmyndagerðarfólkið að fá leyfi til að mynda í Íran en það fékkst þó að lokum. Hún kom líka við í minna þekktum löndum er liggja innan Silkivegarins þar á meðal eru Úsbekistan, Kyrgistan, Tajikistan, Túrkmenistan og Kazakhstan. Þetta eru mjög framandi slóðir og margt sem kom á óvart. Til að mynda er Tashkent, höfuðborg, Úsbekistan nútímaleg borg með breiðgötum, stórum trjám, skrúðgörðum og vel til höfðu fólki sem allt eins gæti verið á ferð milli húsa í París.

Fetaði í fótspor Alexanders mikla

Að sögn Joönnu eru ferðaþættirnir mun erfiðari í vinnslu en leiknir sjónvarpsþættir gerðir eftir skálduðu handriti en á móti kemur að hún fær tækifæri til að sjá og kynnast mörgum af undrum veraldar. Meðal þeirra rústir Persepolis í suðvestur Íran. Alexander mikli brenndi borgina til grunna í innrás sinni inni í Litlu-Asíu fyrir um 2000 árum. „Að vita að maður sé að feta í fótspor nokkurra mikilfenglegustu þjóðsagnapersóna allra tíma – þar á meðal Alexanders mikla – er einfaldlega stórkostlegt,“ segir hún en svo mikil áhrif hafði þetta á hana að hún sendi póstkort til vina sinna í London og sagði þeim að pakka ofan í ferðatöskur og koma umsvifalaust út.

Þegar hún var barn dreymdi hana um að ganga eftir Kínamúrnum og sá draumur rættist við gerð þáttanna um Silkiveginn. Hún varð ekki fyrir vonbrigðum og lýsti upplifuninni sem, nánast fullkominni. Hún segist heldur aldrei hafa verið hrædd eða óróleg þótt hún þvældist um afskekktar slóðir fjarri öllum helstu túristastöðum.

Það er ástríðufullur áhugi hennar á fólki sem heldur henni gangandi þótt stundum hafi klósettaðstæður eða skortur á slíku gengið fram af henni meðan á ferðum hennar hefur staðið. Henni finnst alltaf áhugaverðast að hitta fólkið, kynnast því og sjá þær aðstæður sem það býr við.

Joanna Lamond Lumley fæddist 1. maí 1946 í Srinagar í Kasmír-héraði á Indlandi. Pabbi hennar barðist með 6. herdeild Gurkha Riffles í seinni heimstyrjöldinni. Gurkha-hersveitirnar voru að mestu skipaðar Indverjum undir stjórn breskra foringja. Þeir voru þekktir fyrir hugrekki sitt og ósérhlífni í bardögum og sóttu víða mjög hart fram. Í júní árið 1944 áttu þeir í bardaga í Burma, sem nú heitir Myanmar, þegar einn Gurkha-hermannanna bjargaði lífi foringja síns, föður Joönnu. Lumley-fjölskyldan gleymdi aldrei þessari hetjudáð og mörgum árum síðar barðist Joanna fyrir því með ráðum og dáð og indversku hermennirnir fengju ríkisborgarrétt í Bretlandi.

Frá Malasíu til Hastings

Fjölskyldan settist að í Malasíu eftir stríð og þaðan var Joanna send átta ára gömul til náms í St Mary’s Convent School í Hastings. En þegar stríðinu lauk og Indland fékk sjálfstæði sneri Lumley-fjölskyldan heim. Joanna fór ung að vinna sem fyrirsæta. Aðeins sextán ára sótti hún um í Royal Academy of Dramatic Art en komst ekki í gegnum prufurnar vegna þess að hún þótti of sæt og sexí. Fyrir framan myndavélina gekk henni hins vegar allt í haginn og hún og Twiggy voru vinsælustu módelin og varla hægt að opna tímarit öðruvísi en þær blöstu við.

„Ég er sjálfri mér nóg,“ segir hún, „og nokkuð góð í að standa með sjálfri mér og berjast sjálf þegar þess þarf.“ Það er sannarlega rétt. Á sjöunda áratugnum var Joanna ímynd glæsileikans og í hlutverki sínu í Absolutely Fabulous leikur hún að sumu leyti sjálfa sig, eins og hún hefði getað orðið ef hún hefði kosið að skemmta sér um of. Hún eignaðist hins vegar soninn, Jamie, árið 1967 og tók móðurhlutverkið strax alvarlega. Faðir hans, ljósmyndarinn Michael Claydon, var ekki inni í myndinni. Það var hins vegar ekki auðvelt að vera einstæð móðir í Bretlandi á þessum árum og þurfa að vinna fyrir sér. Joanna fékk taugáfall.

Eftir það fjaraði töluvert undan starfsferlinum. Fyrirsætustörfum fækkaði og henni buðust ekki annað en smáhlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Fyrst í James Bond-myndinni On Her Majesty’s Secret Service og síðan í kom Coronation Street og Steptoe and Son. Á leikhæfileikana reyndi fyrst verulega þegar hún fékk aðalhlutverkið í þáttunum The New Avengers árið 1976. Fleiri hlutverk fylgdu í kjölfarið og hún kom fram í bæði sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Í einkalífinu ríkti ákveðin kyrrstaða en eftir að hafa skilið við Jeremy Lloyd eftir nokkurra mánaða hjónband  árið 1970 tók hún saman við Stephen Barlow, hljómsveitarstjóra og þau hafa verið gift síðan. Þau eiga hús í London og í Penpoint í Dumfrieshire í Skotlandi. Joanna er orðin amma en Jamie á tvær dætur.

Hún sló hins vegar ekki í gegn á heimsvísu fyrr en henni bauðst hlutverk Patsyar í Absolutely Fabulous. Það var mótleikkona hennar Jennifer Saunders sem átti hugmyndina af þáttunum og bauð Joönnu að leika keðjureykjandi, tískumeðvitaða, drykkjusjúka og pillétandi tískudrós. Joanna stökk á tækifærið og hampaði BAFTA-verðlaunum fyrir vikið. Árið 2016 var svo gerð kvikmynd um þær stöllur og ævintýri þeirra.

Þrautseig og þolinmóð

Mörg hlutverk hafa fylgt í kjölfar Absolutely Fabulous-þáttanna og hún líklega aldrei verið uppteknari. Hægt er að fullyrða að þrautseigja hennar hafi borgað sig og þolinmæðin, ekki bara hvað starfsferilinn varðar heldur þau ótal mál sem hún hefur í gegnum tíðina kosið að leggja lið sitt. Hún er mikill mannréttindafrömuður. Auk baráttu hennar fyrir réttindum Gurkha-hermanna til að setjast að í Bretlandi má nefna að hún styður opinberlega samtökin CHANCE for Nepal en þau reyna að koma börnum í því fátæka landi til hjálpar og ljær einnig stuðning samtökunum Trust in Children. Hún hefur einnig verið liðtæk þegar kemur að því að vernda og byggja upp menningarverðmæti bæði í Bretlandi og víðar.

Joanna hefur miklar áhyggjur af framtíð jarðar. „Við erum að eyðileggja náttúruna einmitt núna,“ segir hún. „Við erum að eyðileggja vegna þess að svolítið of mörg okkar eru aðeins of gráðug. Við hugsum ekki um hvernig við hendum hlutum og gerum okkur ekki grein fyrir að við erum hluti náttúrunnar. Hún er ekki okkar eign. Við erum hluti hennar og það að sýna henni ekki virðingu er gæti komið aftan að okkur. Við búum á þessari stórkostlegu plánetu, fullri af alls konar stórkostlegum hlutum sem við gætum ekki einu sinni dreymt um og margir þeirra hafa ekki enn verið uppgötvaðir. Við ættum því ekki að rústa henni.“

Með Jennifer Saunders mótleikkonu sinni í þáttunum Absolutely Fabulous.

Náttúran getur endurnýjað sig

Eftir að hún fór til Ástralíu deildi í hún áhyggjum sínum af þeirri ógn er steðjar að Kóralrifinu mikla. „Við erum öll áhyggjufull,“ segir hún. „Manni hreinlega blöskrar. Það er ógnvekjandi að á okkar dögum geta einhverjar stórar skepnur dáið út og það er okkur ekki sérlega stórt áfall vegna þess að við vissum að þetta gæti gerst.“

En hér vísar Joanna til þess að Kóralrifið mikla er allt ein stór lífvera auk allra smærri tegundanna sem lifa í, á og við það. „Eitt af því sem við höfum uppgötvað í gegnum aldirnar eru að náttúran leitar jafnvægis og hún veit hvernig á að takast á við hlutina. Hún getur endurnýjað sig og lagað sig jafnvel eftir stórkostlegar skemmdir og skaða hefur hún lag á að koma til baka ef við bara gefum henni tækifæri.“

Ástríða Joönnu fyrir náttúruvernd kemur hugsanlega einhverjum á óvart. Hún er þekkt fyrir að vera meðal best klæddu leikvenna Bretlands. Hún þykir ávallt smart og fallega til fara. Sjálf segist hún ekki verja miklum tíma í föt eða val á fatnaði. „Fólk heldur að ég sé glamúrgella í laumi. Ég klæði mig mjög mikið upp á fyrir opinbera atburði en í sannleika sagt er ég hræðileg í raun og veru. Ég klæðist oftast sorglegum, gömlum leppum.“ En það verða lokaorð þessar 79 ára baráttukonu sem ber með sér ótrúlegan sjarma og væri flott þótt hún klæddist strigapoka.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 26, 2025 07:00