Sigurður Bragason á merkilegan feril sem söngvari en hann hefur sungið í helstu tónleikasölum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og ávallt fengið lofsamlega dóma. Sigurður hefur komið víða við á ferli sínum sem kórstjórnandi, tónskáld og tónlistarkennari. Nú þegar hann er orðinn sjötugur gefur hann út hljómdiskinn Blómljóð með lögum eftir sig og er nánast tilbúinn með nýjan einsöngsdisk.
Sigurður fæddist í Reykjavík og ólst upp á Flókagötunni. „Tónlistin var mikið í kringum mig, mamma lærði á píanó hjá Árna Kristjánssyni og spilaði List og Chopin, Mozart og Beethoven en pabbi safnaði plötum með óperusöngvurum og söng í kórum. Bítlatónlistin kom þegar ég var unglingur og auðvitað hreifst ég með en hún náði mér ekki eins og klassíska tónlistin. Ég fór að læra á píanó fyrir alvöru 16 ára og var í eitt ár hjá Aage Lorange, sem í raun þótti seint, en móðir mín vildi að ég færi í Tónlistarskólann í Reykjavík eins og hún hafði gert. Ég komst að hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni sem var stórkostlegur kennari og minn mentor og vinur,“ segir Sigurður en leiðir þeirra áttu eftir að liggja saman í Nýja tónlistarskólanum þar sem þeir kenndu báðir til margra ára. „Hann ráðlagði mér endalaust, m.a. að fara í tónlistarkennaradeildina, ég myndi læra kórstjórn, hljómfræði, útsetningar og kennslufræði o.fl. Ég lærði þar söng hjá Rut L. Magnússon og þau ráðlögðu bæði mér að halda áfram námi eftir útskrift. Ég fór í Söngskólann og lærði hjá Magnúsi Jónssyni, tók 8. stig og fór svo til Ítalíu.“
Sigurður var þarna 29 ára og kominn með konu og son. „Ég var þá búinn að syngja tvö óperuhlutverk í Íslensku Óperunni hér heima, í Töfraflautunni og í Sótaranum eftir Britten. Ég fór í söngnám í skóla sem var rétt við borgina Piazenca, nálægt Mílanó, en fór svo til náms í Mílanó og var í einkatímum hjá Pier Miranda Ferraro, frægum söngvara og kennara við Verdi-tónlistarháskólann. Hann var mjög strangur og eftirsóttur kennari og hafði m.a. sungið mikið með Maríu Callas. Ég lærði heilmikið hjá honum og allt small einhvern veginn saman, þarna átti ég einn dásamlegasta tímann í lífinu. Maður þurfti að mæta með nokkur ný verk vikulega í tímana og nemendur gátu hlustað hver á annan sem maður lærði mikið á. Við Guðrún, konan mín, og Valdimar, sonur minn, fengum yndislega íbúð í Piazenza og lifðum eins og blómi í eggi en ég málaði líka þarna,“ segir Sigurður og bendir á mynd á umslagi nýjasta disks síns. „Þegar ég kom heim fékk ég hlutverk munksins Sacristan í óperunni Toska. Ég söng svo Aeneas í Dido og Aeneas eftir Purcell og svolítið seinna Marcello í La Boheme en þá kynnist ég Sigurði Demetz. Það vildi mjög einkennilega til. Eina nóttina dreymir mig að það kemur ungur maður til mín og segir: „Jæja, Sigurður, nú verður þú að fara að koma áður en það verður of seint.“ „Nú,“ segi ég, ungur maðurinn um þrítugt. Hann segist vera Sigurður Demetz. Þegar draumnum var lokið fór ég að skoða myndir af Sigurði og þá sá ég eina af honum ungum og þetta var nákvæmlega sami maður og mig dreymdi. Ég hringdi strax í hann og ég var hjá honum í tvo vetur. Hann átti mjög vel við mig sem kennari og var gott framhald af ítalska skólanum . Mér fannst mér fara mjög mikið fram hjá honum, það skipti sköpum fyrir mig sem söngvara.“
Boðið að syngja í helstu tónlistarsölum heims
Á þessum tíma varð Sigurður bæjarlistamaður í Kópavogi og bauðst að syngja í vinabæjum á Norðurlöndunum og fékk mjög góða dóma þar. „Við sendum þessa dóma víða, m.a. í Kulturant í Bonn. Bróðir minn, Guðni, vann í sendiráðinu þar og sendi dómana fyrir mig en þá var ég búinn að gera fyrstu plötuna með Þóru Fríðu Sæmundsdóttur og við sendum plötuna með. Það kom boð um að syngja á Sumartónlistarhátíðinni í Bonn og ég söng tónleika á móti Kammersveit New York-borgar í Kammermusik-sal Beethovens-Haus.“ Sigurður hlaut aftur mikið lof gagnrýnenda og var í kjölfarið boðið að syngja kvöldtónleika í Wigmore Hall í London, 1993. Tónleikarir gengu mjög vel, Sigurður fékk frábæra dóma virtustu gagnrýnenda, m.a. í Opera Now og Musical Opinion, og nú biðu fleiri frægir tónleikasalir hans m.a. Kennedy Center í Washington og Concergebouw í Amsterdam. „Ég söng í Concertgebow með Vovka Ashkenazy. Við áttum farsælt samstarf og gerðum hljómdisk. Ég fór síðan til Frakklands og Þýskalands með Guðmundi Emilssyni hljómsveitarstjóra og síðar með Bjarna Jónatanssyni píanóleikara til Buenos Aries sem var mikið ævintýri.
Andreas Loesch sem var einn af yfirmönnum „Listaráðs“ Bonnborgar varð mikill vinur minn og Guðna bróður míns. Hann hafði mikinn Íslandsáhuga eftir að hafa komið hingað sem stúdent. Hann bauð 30 íslenskum listamönnum, m.a. kammerhljómsveit sem Guðmundur Emilsson stjórnaði, að koma til Bonn á Sumarlistarhátíðina. Hann hafði svo aftur samband og til að bjóða 80 íslenskum listamönnum, það þyrfti að semja óperu. Atli Heimir samdi þá Tunglskinseyjuna við óperutexta Sigurðar Pálssonar, ég söng Kalman prins á móti Signýju Sæmundsdóttur og Ingveldi Ólafsdóttur. Við fórum í þrjár borgir í Þýskalandi og svo var okkur boðið til Kína en ég fór ekki því ég fékk boð um að syngja í Einleikssal Carnegie Hall og í Corcoran listamiðstöðinni ásamt Hjálmi Sighvatssyni píanóleikara sem hefur verið minn helsti meðleikari í gegnum árin og síðan í Concertgebow í Amsterdam með Vovka sem ég þáði,“ segir Sigurður. Á sama tíma kenndi hann mikið og stjórnaði kórum.
Veiktist á tónleikaferðalagi af sjaldgæfri liðagigt
„Í kringum 2000 vann ég mjög mikið. Mér var boðið að syngja aftur í Wigmore á afmælisári þar og síðan aftur í Einleikssal Carnegie Hall og í Kennedy Center, ég lauk vinnudeginum um 22.30 og þá fór ég að æfa með Ólafi Elíassyni til tvö, hálfþrjú á nóttunni í marga mánuði. Ég hefði ekki getað þetta nema af því ég stundaði Kriya-jóga sem byggir á mörg þúsund ára ótrúlegri tækni, gefur manni mikla orku og gerir röddinni gott. Síðar kynntust við Guðni bróðir minn Sebastiano Brusco ítölskum píanista, sem bauð mér að vera listrænn ráðgjafi við tónlistarhátíð í Róm og buðum við rúmlega 30 Íslendingum til að taka þátt á hátíðinni. Við Sebastiano byrjuðum að vinna saman og hann bauð mér að syngja víða á Ítalíu og þar með var ég byrjaður aftur.“
Nýr hljómdiskur í tilefni 70 ára afmælisins
Sigurði var boðið að syngja með Vladimir Ivanof og hljómsveitinni Saraband í Bayreuth og í kjölfarið var honum boðið að syngja í Villa Wahnfried tónleikasal á heimili Wagners árið 2022 í tónlistarröð hússins sem var í tengslum við á Wagner-hátíðina og enn fékk Sigurður glimrandi dóma fyrir túlkun og söng, 68 ára gamall. „Hann er með hjarta Íslands í röddinni“, sagði einn þeirra. Dómarnir voru sendir áfram og Sigurði boðið að syngja á þremur listahátíðum á Ítalíu sem hann tiltölulega nýkominn frá þar sem hann söng m.a. á 20 ára afmæli listahátíðarinnar í Castilglione Del Lago. Í einum dómnum sagði gagnrýnandi að tónleikar Sigurðar hafi verið einir þeir bestu sem hann hafi heyrt á hátíðinni í 20 ár. Og nú er búið að bjóða Sigurði að halda tónleika í Kína. „Ferðalagið með tónleikum hefði tekið um tvo mánuði en ég er með jólatónleika Kammerkórs Reykjavíkur og að fylgja eftir nýja disknum og fleira þannig að ég ákvað að vera heima nú í vetur því boðið stendur líka á næsta ári.“ Lögin á disknum hefur Sigurður samið á 30 ára tímabili og er hann gefinn út í tilefni sjötíu ára afmælis hans. Diskurinn fæst í öllum helstu diska- og bókabúðum og með Sigurði eru afbragðs listamenn svo sem Jóna G. Kolbrúnardóttir, Egill Árni Pálsson Kammerkór Reykjavíkur og félagar úr Barbörukórnum, en alls hefur Sigurður gefið út fimm hljómdiska og auk lagasmíðanna samið verk fyrir kóra og lagt sig fram um að kynna íslensk sönglög og tónskáld víða um heim.
Söngvarar eiga að sitja við sama borð og leikarar
Sigurður er ekki skoðanalaus þegar kemur að mikilvægi tónlistar. „Það fara allt of litlir peningar til tónlistarskólanna og eins og ríki og borg átti sig ekki á hvað tónlistarmenntun skiptir gríðarlega miklu máli; að börn og unglingar fái fræðslu um tónlist og að njóta þess að syngja eða iðka tónlist. Ég kenndi tónmennt 2012-2019 og þetta var mjög skemmtilegt starf, tónmennt, tónlist og söngur styðja við málþroska, lestrarskilning, lestrarhraða o.fl. Eftir ákveðinn tíma voru krakkarnir farnir að skilja þó nokkuð mörg orð í ljóðum, eins og t.d. unnarsteinn eða útilegumenn sem sumir héldu að væru túristar, og dalalæða, sem einhverjir spurðu hvort að væri köttur. Eins er með Þjóðaróperuna, það hefur allt verið sett á ís eftir að ákveðið var að stofna hana, engin verkefni ákveðin sem maður hefur heyrt um. Söngvarar hafa beðið í áratugi eftir að verða ráðnir við óperu eins og leikarar við leikhús, það er einkennilegt að enn í dag séu þessi mál ekki betri.“
Lögin koma oft í draumi
Sigurður hefur upplifað margt á tónleikaferðum sínum en í margmilljónaborginni Buenos Aires var ýmislegt sem kom á óvart. „Gagnrýnendur komu og kysstu okkur Bjarna eftir tónleika, ég hef hvorki fyrr né síðar upplifað það. Ég týndi fólkinu mínu þarna á götu í svakalegum fólksstraumi og mundi ekki nafnið á hótelinu. Þar sem ég stóð gripinn mikilli angist, var skyndilega bankað á öxlina á mér og sagt: „Hr. Bragason, ég var á tónleikunum þínum í gær, vinir þínir eru hjá bankanum, ég skal fylgja þér þangað. Og það gerði hann.“
Sigurður hefur í mörgu að snúast, fyrir utan að fylgja disknum eftir þá eru tónleikar með Kammerkór Reykjavíkur fram undan og síðan ferð með kórnum til Spánar þar sem hann mun koma fram í Nerja og Malaga. „Ég er reyndar líka búinn að taka upp nánast heilan geisladisk en Ástir, örlög, draugar og spaug er vinnuheitið. Þarna eru íslensk lög m.a. eftir Atla Heimi og lag eftir mig við ljóð Þórarins Eldjárns sem heitir Forvörðurinn og er frábært ljóð. Kveikjan að laginu var fyndinn atburður á kórtónleikaferðalagi í dómkirkjunni í Assisi á Ítalíu.“ Sigurður segir að oft komi lögin til sín í draumi, m.a. Ave María sem er einkar fallegt lag og verið mikið flutt, önnur þegar hann lesi ljóð og mörg tengist minningum sem kvikni við að lesa ljóð. „Mig langaði til að gefa þetta efni út á diski með textum, það skiptir svo miklu máli, og tilurð laganna,“ segir þessi hæverski tónlistarmaður sem átt hefur glæsilegan og fjölbreyttan tónlistarferil.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.