Gjáin milli kynslóða

Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti er fædd 1951. Hún er fullkomið dæmi um að í dag er sjötug manneskja í sama ástandi og fimmtug var fyrir fjörutíu árum. Lára er vel metinn lögfræðingur með sérþekkingu og til hennar er gjarnan leitað þegar mál þarfnast frekari útskýringa í fjölmiðlum.

Lára segir að þótt tímarnir hafi breyst gífurlega í líftíma foreldra okkar og afa og ömmu sé það ekkert miðað við það sem þeir sem fæddust um miðja síðustu öld hafa upplifað. ,,Í dag er heilsa fólks og tækifæri til að halda sér við svo allt annað en var áður. Nú er fólk líkamlega hæfara miklu lengur og nú sjáum við áttrætt fólk til dæmis klífa Kilimanjaro sem er mikið þrekvirki, jafnvel fyrir mun yngra fólk,” segir Lára sem ólst upp í sama húsi og amma hennar og afi. ,,Amma fæddist í torfbæ og var elst 17 systkina. Hún bjó við hlóðaeldhús og spann á rokk og prjónaði og varð mjög fullorðin. Ég hugsaði oft að amma hefði upplifað svo rosalegar breytingar á líftíma sínum. Allt í einu var hægt að keyra um á bílum, tala í síma og fá rennandi vatn heima við. En þegar ég fer að bera hennar líf saman við það sem ég hef upplifað þá er það enn meira. Ég var í sveit sem barn á bæ þar sem var ekki rafmagn og kamarinn var staðsettur yfir flórnum. Þar var ekkert heitt vatn og þetta var 1960. Svo upplifi ég tæknibyltinguna sem varð með tilkomu tölvanna.”

Breytingar á vinnumarkaði og óréttmætar uppsagnir

Nú eru raddirnar sem tala um mismunun á vinnumarkaði háværar og eldra fólki finnst oft illa með það farið.

Lára segir að lög frá 2018 kveði skýrt á um að ekki megi mismuna fólki á vinnumarkaði. Þar sé komið dæmi um verndandi ákvæði fyrir eldra fólk. Lögin segja að greiða skuli fólki bætur ef um óréttmætar uppsagnir er að ræða. Starfsmenn eigi þó ekki rétt á að fá starf aftur sem þeir missa.  Þannig sé réttarkerfið hjá okkur en fólk upplifi oft höfnun þegar komi að starfslokum.

Hvað eru mannréttindi?

,,Launafólk verður að vera viðbúið því að til þess séu gerðar kröfur á vinnumarkaði,” svarar Lára aðspurð hvort ekki séu mannréttindi að fá að halda vinnu sinni. ,,Atvinnufrelsi  sem hluti mannréttinda sem fjallað er um í stjórnarskrá nær ekki til réttinda starfsmanns til þess að halda vinnu sinni. Þegar öllu er á botninn hvolft verða allir að sýna sjálfsbjargarviðleitni því við getum ekki krafist þess af hinu opinbera eða öðrum að okkur séu færðir hlutirnir í fang án nokkurrar fyrirhafnar. Að minnsta kosti hefur löggjafinn ekki tryggt okkur slíkan rétt ennþá.

Einn þriðji hluti alls vinnuafls í landinu vinnur hjá Ríki og sveitarfélögum. Þessi hópur  fólks nýtur meiri verndar en fólk á almennum vinnumarkaði, t.d. þegar kemur að uppsögnum.  Á almennum vinnumarkaði hefur atvinnurekandi rúmar heimildir til að segja starfsmönnum upp en þessi réttur er mun takmarkaðri hjá hinu opinbera. Atvinnurekandi verður hins vegar ekki þvingaður til að hafa starfsmann í vinnu sem hann ekki vill. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að atvinnurekandi hafi gerst brotlegur og sagt upp starfsmanni með ólögmætum hætti verður honum í mesta lagi gert að greiða starfsmanni bætur sem taka mið af beinu fjártjóni sem verður aldrei metið meira en sem nemur launum á uppsagnarfresti.”

Elsti aldurshópurinn órétti beittur

,,Eitt er vinnumarkaðurinn og svo getum við velt fyrir okkur öllum þessum áskorunum sem mæta eldra fólki á hverjum degi,” segir Lára. ,,Ég veit ekki hvernig þetta fólk, sem var ekki alið upp á tímum netvæðingar eða síma, á nú að eiga viðskipti í gegnum netbanka. Ég get nefnt sem dæmi að ég á sjálf fullt í fangi þegar ég fæ reikning frá sýslumanni í heimabankann. Ég reyni að setja stafi inn á eitthvert form og ýta á þar til gert svæði og svo gerist ekki neitt. Það þýðir ekkert fyrir mig að hringja í Sýslumann því þar svarar enginn. Ég fyllist samviskubiti yfir að ég skuldi eitthvað út á tilkynningu sem ég fékk og ég get ekki svarað tilkynningunni og ég er bara sjötug. Ég get rétt ímyndað mér skelfingu þeirra sem eru enn ver staddir en ég. Ég er lögfræðingur og á að vera sú manneskja sem á að geta leiðbeint öðrum. Hjá mér er sem betur fer skrifstofustjóri, sem er mjög fær í öllum þessum samskiptum, en hún klórar sér líka stundum í hausnum.”

Hugtökin ekki á valdi þeirra eldri

Lára er að tala um opinberu stofnanirnar sem hafa tekið upp sömu vinnubrögð, þar sé ekki lengur svarað í síma. ,,Manni er bent á netsíðu til að leita upplýsinga og þar er manni bent á að fara inn á annan vef. Síðan þarf maður að fletta í gegnum ótal vefsíður um hitt og þetta áður en kemur að því sem þú ert að spyrja um og þá eru upplýsingarnar meira að segja óljósar. Það er ekki síst af því að orðin og hugtökin sem mæta manni eru þess eðlis að eldra fólk hefur þau almennt ekki á valdi sínu. Þá er ég að tala um tölvuhugtökin eins og netið, skjáinn, vafrann og svo framvegis. Fólk getur illa tjáð sig og skýrt út vandamálið sem það stendur frammi fyrir. Ég velti þessu fyrir mér og geri ráð fyrir að þetta sé raunverulegt vandamál fyrir fjölda manns,” segir Lára.

Gjáin milli kynslóða verður til

,,Þegar maður mætir þessum vandamálum er ráðið gjarnan að fá börnin eða jafnvel barnabörnin til að hjálpa,” segir Lára og brosir. ,,Þegar þetta unga fólk áttar sig á að fyrirmynd þeirra í lífinu veldur ekki svona vandamáli sem fyrir þeim yngri er afar einfalt, auðvelt og augljóst verður gengisfelling. Þá fara þau yngri að líta á þau eldri sem gamaldags og jafnvel dálítið kjánaleg fyrir að átta sig ekki á því sem fyrir þeim er mjög einfalt. Barnabörnin okkar eru svo fljót að tileinka sér nýjustu tækni að það er erfitt að fylgja þeim. Þarna skapast gjá milli kynslóða og aldursfordómar verða til. Þetta er ég að rekast á í mínu lífi og svo eru það þeir sem eiga ekki börn eða barnabörn og geta ekki leitað neitt eftir aðstoð. Svo kemur einhver heim til þessa fólks einu sinni í viku að þrífa og viðkomandi talar ekki einu sinni íslensku. Ég er hrædd um að margir fari meira og meira að upplifa þennan veruleika.”

Sérfræðiþekking úreldist

Lára segir að eðlilega sé mjög erfitt fyrir fólk þegar það rennur upp fyrir því að sérfræðiþekking þess er allt í einu einskis virði. ,,Við getum nefnt loftskeytamenn sem höfðu menntun í seinni heimsstyrjöldinni sem var gulls ígildi. Þeir, sem höfðu þessa kunnáttu, höfðu jafn há laun og yfirmennirnir á skipunum. Og allt í einu getum við talað í síma hvar og hvenær sem er og þá skiptir kunnátta loftskeytamannsins engu máli lengur og það er ekkert um að ræða að sætta sig ekki við það. Önnur grein sem hefur smám saman verið að úreldast er bókagerðin og prentiðnaðurinn. Nú er allt önnur tækni en var og það verður ekki aftur snúið,” segir Lára en hún hefur verið lögfræðingur bókagerðarmanna frá því 1994 ,,Ég hef séð hvernig félagið hefur skroppið saman og hvernig prentiðnaðurinn heyrir nú meira sögunni til. Setjarar voru fróðustu menn því þeir lásu allar bækur sem settar voru en á ótrúlega skömmum tíma er veruleikinn breyttur og ekki er lengur þörf fyrir þetta fróða fólk.”

Geigvænlegar breytingar eftir miðja 20. öldina

Enginn stöðvar tímans rás og hver og einn verður að nýta tækifærin sem bjóðast til að halda í hæfni sína þrátt fyrir hækkandi aldur. Mikilvægi hreyfingar er öllum ljós fyrir líkamlega hreysti og svo eru auðvitað í boði ýmiss konar námskeið til að viðhalda andlegri getu.

Forfeður okkar stóðu öll frammi fyrir sama vandamálinu þegar þau eltust því breytingar sem verða á líftíma einnar manneskju eru oft meiri en við getum höndlað. Óhætt er að segja að til verði gífurleg sóun þegar reynsla og þekking eru allt í einu einskis metin, þegar fólki er sagt upp vinnu vegna aldurs.

Svo er það dæmið af loftskeytamanninum eða prentaranum sem sannarlega bjuggu yfir mikilli þekkingu sem allt í einu var ekki þörf fyrir lengur. Ætli við þurfum ekki öll að búa okkur undir að svo geti farið með þekkingu okkar og reynslu. Tækniþróunin verður sífellt örari og það sem var í gær verður ekki eins á morgun. Og þá er eins gott að búa sig undir breytta tilveru og njóta hennar eins og hún er,ef við mögulega getum. Öll njótum við framfaranna á heilbrigðissviðinu því á tíma ömmu og afa var annar hver maður til dæmis með falskar tennur en nú sést það vandamál varla lengur sem betur fer. Nú getur níræð manneskja tuggið ólseigt kjöt ef hún vill en nú þarf hún þess ekki lengur. Það, út af fyrir sig, er tímanna tákn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar. Viðtalið birtist fyrst hjá Lifðu núna í júlí 2022

Ritstjórn nóvember 25, 2022 07:00