Tengdar greinar

Fyrst íslenskra kvenna á topp Mt. Blanc

Ólafía Aðalsteinsdóttir er sjötug og segist flagga aldrinum glöð. Hún hreyfir sig mikið þrátt fyrir að hafa lent í erfiðum veikindum og er í hálfu starfi, segir það gefa sér orku að starfa og hitta góða vinnufélaga auk þess að gera gagn. Hún er lífsglöð, hugrökk og hefur tamið sér jákvæðni. Ólafía er ekkert að flíka afrekum sínum en hún var fyrst kvenna til að komast á topp Mt. Blanc.

Ólafía fæddist árið 1953 og ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í Melaskóla en eftir 10 ára bekk flutti fjölskyldan í Safamýri.

„Mér finnst ég vera úr Safamýrinni, en ég á eldri systur sem kláraði sitt nám í Melaskóla og Hagaskóla – hún telur sig vera úr Vesturbænum og svo á ég tvo bræður sem gengu í Vogaskóla og telja sig vera úr Vogunum.“

Ólafía fór í sveit á sumrin og segir hjónin hafa verið gæðamanneskjur sem höfðu mikil áhrif á sig, útiveran og sveitastörfin áttu líka vel við hana. Hún vann síðar í sumarbúðum skáta á Úlfljótsvatni og segir forstöðukonuna þar einnig hafa haft gríðarleg áhrif á sig. „Hjá henni voru ekki til nein vandamál – bara lausnir og ég tók þetta viðhorf mér til fyrirmyndar. Ég gekk ég í skátana sem barn og kynntist þar ótal ævintýrum og útilífi, ásamt því að eignast þar góða vini til lífstíðar.

Á unglingsárum mínum var algengt að hópar og einstaklingar færu upp á Hellisheiði í skátaskála þar. Þangað var farið í öllum veðrum, oft að vetri til, og þá þurfti að ganga jafnvel frá Skíðaskálanum í Hveradölum og inn til fjallanna á heiðinni þar sem skálarnir kúra. Þetta var mikið ævintýri og við félagarnir bundumst órjúfanlegum vinaböndum á þessum árum.“

Ævintýraferð á hæsta fjall Evrópu

Árið 1975 þegar skátastarfinu lauk, gekk Ólafía til liðs við Hjálparsveit skáta í Reykjavík og er enn viðloðandi þann félagsskap. Þar kynntist hún ferðalögum inn á öræfi og þá kviknaði áhuginn á fjallgöngu. Á þessum árum áttu ekki margir bíla sem komust út af þjóðveginum en í framhaldi af þessum ferðum ákváðu átta félagar úr HSSR að leggja í för á hæsta fjall í Evrópu, Mt. Blanc.

„Við fórum á fjallið í ágústmánuði 1975. Mt. Blanc var þá hæsta fjall Evrópu, en það átti síðar eftir að breytast við fall Sovétríkjanna, nú er Elbrus í Rússlandi sem er 5.642 m hæsta fjall Evrópu. Við höfðum fylgst með þegar félagar úr Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum klifu fjallið 1973 og það kitlaði að reyna.

Þarna var ég 22 ára en í túrnum voru sex strákar og við tvær systurnar. Það var erfitt að kaupa gjaldeyri og maður varð eiginlega að kaupa hann svart. Við lögðum upp frá Kaupmannahöfn á tveimur bílaleigubílum og vorum margar vikur í ferðinni. Hópurinn hafði undirbúið sig með göngum á fjöll, rötun, skyndihjálp o.fl. auk þess sem þrír af strákunum höfðu farið til Sviss og komið heim með þekkingu á nýjum fjallabúnaði o.fl. sem við byggjum á í dag. Við vorum fimm sem náðum á toppinn, hin þrjú þjáðust af háfjallaveiki og komust ekki síðasta legginn, enda er fjallið 4.805 m. Ég varð því fyrsta íslenska konan sem náði að standa á toppi hæðsta fjalls Evrópu.

Við fórum víða í þessum túr og m.a. var ætlunin að ganga á frægt fjall í Sviss, Matterhorn, en við urðum frá að hverfa vegna veðurs en það er tæknilega erfitt fjall.“

Ólafía segir að það hafa verið mikil upplifun fyrir ungt fólk að komast í svona túr en seinna þegar hún var 49 ára komst hún á enn hærra fjall.

„Það var Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku og 5.895 m. Við vorum sjö saman, og sumir eldri en ég, sem gengum á fjallið og allir komust upp. Það var líka mikið ævintýri og eftirminnilegt. Þá var með í för m.a. núverandi eiginmaður minn.“

Nýtur þess að hreyfa sig 

Ólafía segir að hreyfingin sé lífsstíll, hún reyni að stunda margskonar hreyfingu og hún gefi sér ekki eftir sama hvernig viðrar. Hún hefur m.a. stundað sjósund frá 2008 og segir það frábært fyrir þá sem geta.

„Ég syndi a.m.k. tvisvar í viku í sundlaug, fer einu sinni í viku í Nauthólsvík og syndi þar í köldum sjónum. Ég geri þetta allan ársins hring og ef það er mjög kalt eða hvasst, þá stoppa ég bara stutt í köldum sjónum, eða fer í Lónið. Aðalatriðið er að skrópa ekki. Ef eitthvað er núvitund, þá er það sjósund. Maður hugsar bara um að anda og taka sundtökin, það hreinsar hugann.“

Ólafía hefur í mörg ár gengið mánaðarlega á fjöll, bæði með Ferðafélagi Íslands, þar sem hún var um árabil hluti af farastjórateymi, og ein en hún setti sér það markmið fyrir fáeinum árum að fara mánaðarlega á Esju og Úlfarsfell og segist vera búin að finna 12 mismunandi leiðir á fjallið sem henti sér.

„Ég hef gaman af svona áskorunum, þótt ég setji mér þær sjálf, það er liðin tíð að ég komist hratt yfir en ég kemst alla leið og það er mitt markmið. Ég fer líka öðru hvoru á gönguskíði, bæði í braut og utanbrautar en í mörg ár var það eitt það skemmtilegasta sem ég gerði. Ég hjóla daglega í og úr vinnu og þar að auki nýt ég þess að hjóla lengri leiðir, 60-70 km leiðir í kringum Reykjavík, til Hafnarfjarðar og út á Álftanes, ég er nú með rafmagnshjól sem auðveldar mér verulega hjólreiðarnar.

Í mörg ár fórum við hjónin í sumarfrí á hjólum, fórum vítt og breytt um okkar fallega Ísland með kerru aftan í öðru hjólinu, þar sem búnaður okkar var. Við slógum upp tjaldi hér og þar eða gistum í Bændagistingu. Þetta gat verið frá þriggja daga ferð upp í tíu til ellefu daga. Ég veit fátt skemmtilegra en að hjóla um landið. Finna lyktina og fá vindinn á sig.“

Ólafía segist einnig gutla svolítið í golfi, með manninum sínum en heilsu hans vegna er golfið eiginlega eina hreyfingin sem þau geti núorðið verið saman í.

„Í eina tíð voru götuhlaup mitt helsta áhugamál. Ég tók þátt í alls konar hlaupum og komst m.a. til Gautaborgar til að hlaupa hálft maraþon. Það var mikil upplifun og ég hafði gaman af að róa á kayak og átti skemmtilegan bát. Ég var í frábærum félagsskap Kayakklúbbsins og naut þess að róa öðru hvoru með góðum félögum og komst m.a. nokkrum sinnum út í eyjarnar á Breiðafirði. Það var algjört ævintýri.“

Gefandi að starfa á vinnumarkaði 

Þótt Ólafía hafi ávallt stundað hreyfingu af kappi hefur hún farið í gegnum sín veikindi en ekki látið það stöðva sig. Hún veiktist af krabbameini í þvagblöðru fyrir sjö árum og eftir veikindaleyfið sneri hún ekki aftur í bankann þar sem hún starfaði.

„Eftir veikindaleyfið var gerður við mig starfslokasamningur, þannig að ég lauk mínu lífi á vinnumarkaði fyrr en ég hafði hugsað mér. Ég fór í blöðrubrottnám og hef síðan verið með þvagstóma. Allt varðandi stómað hefur gengið mjög vel og ekki hindrað mig í að hreyfa mig. Ég er stolt af að bera stómað og stend keik í sturtunni í sundlauginni með lítinn þvagpoka á kviðnum.“

Ólafía segist hafa náð sér vel af þessum veikindum. Hún vildi hafa eitthvað fyrir stafni og gerðist dagmamma í tvö ár.

„Mér leið illa í baki eftir þetta og endaði í stórri skurðaðgerð. Ég fór í hryggspengingu sem einnig tókst með ágætum og náði mér vel af þeim veikindum, þrátt fyrir að krækja mér í blóðtappa í bæði lungu; það eru til svo frábærir læknar og frábær lyf.

Ég reyndi að gera eins og fyrir mig var lagt en það var reyndar dálítið erfitt á köflum því ég átti bágt með að hemja mig, en það tókst nú samt.“

Ólafía er enn starfandi á vinnumarkaði þrátt fyrir að vera orðin sjötug, hún segir það gefa sér orku.

„Í dag er ég starfandi sem sjúkraliði á Landspítalanum í 50% starfi. Ég réði mig árið 2021 á Covid-göngudeildina, en þegar Covid fjaraði út, hóf ég störf á annarri göngudeild á spítalanum þar sem ég starfa enn. Að vakna til vinnu daglega er frábært og ekki síður þegar maður starfar með frábærum vinnufélögum. Það er eitthvað sem ég kann afskaplega vel að meta og ég hreinlega sæki mér orku í vinnuna og kem endurnærð heim. Þótt launin séu ekki há og tæplega helmingur þeirra fari í skatt, þá er ég ánægð að geta lagt hönd á plóginn og greitt skatta í ríkiskassann.“

Áhugamál Ólafíu snúast um fleira en útivist. Hún hefur gaman af að elda góðan mat og bjóða heim, syngur í kór og prjónar. „Eftir aðgerðina á bakinu þegar mér var kippt út úr allri hreyfingu tók ég upp á að bjóða fólki í mat og spil. Ég hef lengi haft gaman af að elda góðan mat og bjóða fjölskyldu og vinum. Þetta hentaði mér alveg ágætlega og mér finnst það mjög skemmtilegt. Ég hef alltaf verið iðin við handavinnu og síðastliðið ár náði ég að prjóna peysur með sama mynstri á alla fjölskylduna, eða 14 manns. Í mörg ár hef ég líka sungið með kór sem heitir Skátakórinn. Það gefur mér mikið að taka þátt í því starfi, þar eru tekin fyrir lög af ýmsum toga, bæði innlend og erlend.“

Ólafía er augljóslega einstaklega jákvæð manneskja og dugleg. Enn í dag er hún teinrétt og eins og ung stúlka í hreyfingum. Hún hefur ekki gefið eftir þegar veikindi hafa bankað á dyrnar heldur eflst við þau og fer í sund með stóma. Hugarfarið ræður þar miklu. Sjálf segist hún líka hafa fengið góðan stuðning frá sínum nánustu. Hún hvetur alla til að finna hreyfingu við sitt hæfi.

„Ég hef tileinkað mér að vera með glasið alltaf hálffullt en ekki hálftómt, það skiptir mig máli að sjá björtu hliðarnar á tilverunni. Ég gríp í stundum í frasa sem er svona: „Ef enginn gerir neitt, þá gerist ekki neitt.“ Í skátunum var maður alinn upp við að stíga fram en ekki reikna með að allir hinir gerðu hlutina. Það má ekki gleyma að ég á afskaplega góða að sem hafa stutt mig á erfiðum tímum og dregið mig af stað þegar ég hressist eftir veikindi. Hreyfing er gulls ígildi og ég hvet alla til að finna eitthvað við sitti hæfi, úti eða inni. Aðalatriðið er að fara af stað.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn mars 28, 2024 07:00