Tengdar greinar

Mikilvægt að geta gefið af sér

Kór eldri borgara í Garðabæ, eða Garðakórinn, heldur upp á 25 ára afmæli sitt í vor en hann var stofnaður árið 2000. Stjórnandi kórsins er Jóhann Baldvinsson, organisti í Vídalínskirkju, en hann segir að kórinn, sem er  blandaður kór, sé vel virkur og haldi bæði tónleika og syngi víða. Jóhann segir ánægjulegt að stjórna kórnum, þetta sé góður félagsskapur og að söngurinn endurnæri og veiti gleði, bæði þeim sem syngja og hinum sem hlusta. Jóhann hefur verið stjórnandi kórsins í 20 ár alls, eða frá árinu 2005 og „fer að verða gjaldgengur líka“ eins og hann segir hlæjandi en hann tók við af Kristínu Pjetursdóttur sem var með kórinn í upphafi og stjórnaði honum í fimm ár.

Afmælistónleikar fram undan

Tónleikarnir sem haldnir verða í tilefni af 25 ára afmæli kórsins verða í Vídalínskirkju, laugardaginn 17. maí. Efnisskráin er skemmtileg og með kórnum verða píanóleikari og bassaleikari. „Efnisskárin er blönduð. Það verður sitt lítið af hverju, íslensk lög og svo erum við með gömul danslög eins og Hreðavatnsvalsinn, Við gegnum tvö og þekkt lög úr óperettum, til dæmis Ég gef þér vorsins rauðu rós, úr óperettunni Fuglasalanum eftir Carl Friedrich Zeller. Prógrammið er skemmtileg og þetta verður gaman.“

Aðspurður segir Jóhann að aldursbilið á meðlimum kórsins sé breitt. „Þarna er fólk frá 65+ og upp í rúmlega nírætt. Þetta er bæði hresst fólk og mjög skemmtilegur og breiður hópur. Þarna eru tónmenntakennarar, og fólk sem hefur sungið í kórum, kennarar, lögfræðingar, hæstaréttardómarar og bara fólk úr öllum áttum.“

Hafið þið verið dugleg að halda tónleika og hvernig æfið þið? „Við æfum einu sinni í viku í Vídalínskirkju og höldum árlega bæði aðventutónleika, eða jólatónleika, og svo vortónleika. Við erum þá oft með einhvern gestakór með okkur. Við höfum til dæmis verið með Vorboðana úr Mosfellsbæ og Gaflarakórinn úr Hafnarfirði hefur oft verið með okkur en svo höfum við stundum verið ein eins og til að mynda á 15 ára afmælistónleikum kórsins og það verður þannig líka núna á þessum afmælistónleikum í maí. Upphaflega áttu tónleikarnir að vera á 20 ára afmælis kórsins en þá kom covid og ekkert varð úr þeim þannig að við höldum upp á þetta afmæli í staðinn. Við vorum búin að skipuleggja ferð á Austurland og fórum hana bara ári seinna en við vorum búin að borga allt og hættum auðvitað ekkert við.“

Ferðalög út á land

Það er nóg að gera hjá kórnum við að syngja auk þess sem kórinn fer árlega í hinar ýmsu ferðir sér til gamans. „Við förum reglulega á dvalarheimili og syngjum þar en við fáum mikið af beiðnum um að syngja á dvalarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Á hverju vori höfum við farið í stuttar ferðir út á land sem hafa verið mjög skemmtilegar. Við höfum oftast farið á Suðurland en líka norður og sungum til dæmis með kórnum á Hvammstanga. Við höfum farið til Akureyrar, á Austurland og einu sinni til Eyja sem var rosalega gaman, það var alveg frábær ferð. Það er mikið fjör í hópnum,“ segir Jóhann.

„Margir eru í kórnum árum saman, ég var að skoða um daginn myndir frá 15 ára afmæli kórsins og það eru glettilega margir sem eru enn að syngja með okkur. Bæði er félagsskapurinn góður og fólkið mjög ánægt,“ segir Jóhann með áherslu. „Það hættu tvær konur í fyrra sem voru einar af stofnfélögunum og höfðu þá verið í kórnum í 24 ár og eru nú komnar yfir nírætt. Það gerir svo rosalega mikið fyrir fólk að syngja, það veitir lífsgleði, samkennd og margt fleira. Þau tilkynna manni ef þau fara til dæmis til Spánar með góðum fyrirvara því þetta er samviskusamt fólk. Hópurinn er mjög skemmtilegur og ég finn hvað það gefur fólkinu mikið að syngja í kórnum.“

 

Félagslegt gildi að vera í kór og kemur í veg fyrir einangrun 

Jóhann segir kórstarfið mikilvægt. „Það er gefandi að fá að syngja fyrir aðra og fólkið nýtur þess að gefa af sér með þessum hætti ekki síst vegna þess að það er þakklátt starf sem gleður.“

Er eitthvað fleira fram undan en afmælistónleikarnir?  „Já, það er heilmikið fram undan. Við fáum styrk frá Garðabæ af því kórstarfið telst til félagsstarfs Garðabæjar, við förum reglulega í Jónshús, þar sem er félagsstaf eldri borgara í Garðabæ, og á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ. Kórfélagarnir njóta þess að fara á mismunandi dvalarheimili og syngja fyrir fólkið þar. Við förum reglulega að syngja á Hrafnistu í Hafnarfirði, fyrir stuttu sungum við á Sléttunni í Reykjavík. Það er mjög mikilvægt að geta gefið af sér og svo fáum við alltaf svo ótrúlega góðar móttökur. Eftir sönginn á Sléttunni um daginn og var boðið upp á kaffi og alls konar fínerí og fólk sat og spjallaði. Það var mikil ánægja, söngurinn gefur öllum, bæði söngvurum og áheyrendum. Það er gaman að fá svona móttökur, finna að það er metið sem er verið að gera og félagsskapurinn er öflugur. Auk afmælistónleikanna og aðventutónleika er kórinn með mat og skemmtun í safnaðarheimili Vídalínskirkju á aðventunni. En fram undan eru tónleikar í Boðaþingi og svo afmælistónleikarnir í maí. Við æfum í Vídalínskirkju og syngjum svo alltaf tvisvar á ári í messu eldri borgara í Vídalínskirkju. Að vera í kór er mjög félagslegt og kemur í veg fyrir einangrun á efri árum. Fólk fylgist vel hvert með öðru í kórnum og ef einhver er veikur er fylgst vel með honum, fólkið sýnir mikla samkennd.“

Þess má einnig geta að í júní sl. söng Garðakórinn í Hörpuhorni í Hörpu og var það mikil upplifun og heiður að fá að  syngja þar.

 

Jóhann segir hópinn í kórnum breiðan. „Í kórnum er fólk sem hefur aldrei sungið en hefur rödd. Það þarf bara að læra á hana en maður tekur sér tíma með fólk á þessum aldri og er ekkert að flýta sér. Ég hef breidd í lagavali og hef raddsett mjög mikið fyrir kórinn, meðal annars gömul dægurlög. Mér finnst það mjög gaman og ég aðlaga raddsetninguna að hópnum. Maður veit hvað maður er með í höndunum og getur stýrt þessu svolítið,“ segir Jóhann en óhætt er að segja að kórinn búi vel að hafa kórstjóra sem getur raddsett og það fyrir hópinn eins og hann er hverju sinni

Jóhann hefur verið lengi starfandi sem organisti en það starf er mjög bindandi, messur á sunnudögum og þegar aðrir eiga frí um hátíðir eins og jól og páska þá er mikið að gera hjá organistum. Hann segist hlakka svolítið til að fara að taka það rólegar, ekki síst til að geta heimsótt barnabarnið sem búi erlendis. „Ég hóf minn feril sem organisti 18 ára gamall og hef verið að hátt í 60 ár. Ég byrjaði á Möðruvöllum í Hörgárdal og er organisti í Vídalínskirkju auk þess sem ég hefur sungið í athafnakórum. Nú fer maður að vilja losa sig, ég á barnabarn sem er erlendis en ég get nú haldið áfram að vera með kórinn svona í afleysingum,“ segir hann brosandi.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn mars 28, 2025 07:00