Tengdar greinar

Fékk annað tækifæri til að lifa lífinu lifandi

Hjónin á góðri stundu við Helgufoss í Mosfellsdal.

Sverri Þorsteinsson er ekki einfalt að skilgreina sem eitthvað eitt þótt í dag sé hann þekktastur fyrir að reka eitt blómlegasta ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni, Happy Campers ehf. síðan 2009. Allflestir viðskiptavina hans eru útlendingar, þótt sífellt fleiri Íslendingar hafi nú áttað sig á þessum skemmtilega ferðamáta sem ferðabílar eru. ,,Að geta ferðast frjálst og notið íslenskrar náttúru er eitthvað sem margir hafa kosið og okkar fyrirtæki var það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi,“ segir Sverrir.

Segja má að Sverrir hafi alist upp í Bláfjöllum þar sem faðir hans, Þorsteinn Hjaltason, var forstöðumaður í tæp þrjátíu ár. Sverrir varð því snemma mjög góður skíðamaður og fékkst meðal annars við skíðakennslu í Bláfjöllum. Það var svo í Kerlingarfjöllum 1983 sem leiðir hans og Herdísar Jónsdóttur, eiginkonu hans, lágu saman. ,,Við erum svona ,,Kerlingafjallapar“ segir Sverrir og brosir. Þau hjónin eiga ævintýraþrána sameiginlega og eru enn að lifa drauminn sinn saman þrátt fyrir áfall sem Sverrir varð fyrir árið 2019.

Öll menntun Sverris nýtist honum

Sverrir menntaði sig fyrst sem matreiðslumaður og lærði það á Loftleiðum í gamla daga en starfaði aldrei við þá iðn. Hann kann því vel að elda sem hefur nýst honum vel í ævintýraferðum vítt og breitt.  Seinna fór hann í flugnám á Íslandi og Kanada og er bæði með atvinnuflugmannsréttindi og flugkennararéttindi en ástandið í flugheiminum þá, eða um 1990, var þannig að Sverrir fékk ekki vinnu við fagið. Hann hefði hugsanlega getað fengið illa launaða vinnu  að fljúga smárellum í Afríku en þótti Sverrir sé ævintýragjarn freistaðist hann ekki í þá vegferð. ,,Þá vorum við Herdís búin að eignast tvo syni og valið var einfalt fyrir mig að vera heima. Sverrir eignaðist litlar flugvélar og flaug töluvert næstu ár sér til ánægju.   Svo tóku við nokkur ár við verslunarrekstur, opnun Intersport á Íslandi 1998 og síðar meir rekstur barnavöruverslunarinnar Baby Sam. Haustið 2007 fór hann í MBA nám sem honum þótti bæði óskaplega skemmtilegt og nýttist honum vel þegar þau hjónin stofnuðu fyrirtæki sitt ,,Happy Campers“ árið 2009.

Hugmyndin kviknaði eftir mótorhjólaferð

Sverrir í Mótorhjólaferð í óbyggðum Marokkó vorið 2023.

Sverrir í mótorhjólaferð í óbyggðum Marokkó vorið 2023.

Sverrir segir að það sem hafi gagnast honum einna mest í lífinu sé að vera handlaginn og getað bjargað sér sjálfur. Það lærði hann eflaust fyrst við að alast upp á heimili þar sem fólk bjargaði sér sjálft. Faðir hans var menntaður bifvélavirki og átti verkstæði og þar hjálpaði Sverrir þegar við átti.  Vorið 2007 fóru Sverrir og Einar eldri bróðir hans í mótorhjólaferð, fyrstir Íslendinga í kringum hnöttinn.  Samtals um 36.000. km og tók ferðin 95 daga. Sverrir segir að ferðin hafi verið mikið ævintýri og mikill lærdómur sem þeir bræður hlutu og áskoranir sem þurfti að takast á við næstum daglega.

Í þessu mótorhjólaævintýri lærði Sverrir margt um lífið og tilveruna og m.a. hvernig maður ferðast um með lítinn farangur. ,,Þegar ég kom heim fór ég í Háskólann í Reykjavík og kláraði MBA námið og þá kviknaði þessi hugmynd með ferðabíla þar sem fólk getur ferðast létt og getur ferðast frjálst fyrir sanngjarnt verð um okkar fallega land.  Happy ferðabílarnir okkar hafa verið mjög vinsælir hjá erlendum ferðamönnum og við höfum vaxið á hverju ári  á Íslandi og einnig rekum við Happy Campers í Höfðaborg í Suður Afríku sem er spennandi verkefni.

Afdrifarík skíðaferð

Sverrir nýtur nú lífsins í góðviðrinu á Íslandi.

Skíðamennska hefur verið stór hluti af lífi Sverris og farnar hafa verið ófáar skíðaferðir í Alpana og víðar. Hann ákvað að fara í góðra vina hópi til Frakklands veturinn 2019. Aðdragandinn er alltaf stór hluti ferðalagsins og Sverri hafði hlakkað mikið til og undirbúið sig vel. Hluti Hópsins var svo að skíða saman 4. apríl á svæði þar sem var mikil þoka og aðstæður krefjandi.  Þá gerist það að Sverrir, í þessum astæðum, féll niður snjóhengju og lendir þannig að hann fékk gríðarlegt höfuðhögg en brotnaði ekkert öllum að óvörum. Það er munur á þeim sem eru þjálfaðir í að detta eins og skíðafólk eða óvönum,  sem detta á jafnsléttu og brotna því þeir stífna upp. Það er haldið að heilinn hafi brugðist rétt við og látið Sverri falla máttlausan og þess vegna hafi hann ekki brotnað en höfuðhöggið var slæmt og miklir heilaáverkar hlutust af því ásamt tímabundinni lömun. Það var svo í júní  sama ár sem Sverrir fór að vita af sér en er í dag blessunarlega á allt öðrum stað eftir slysið. Hann man  ekki neitt frá þessum hræðilega atburði, hvorki aðdragandann eða mánuðina á eftir. Herdís kom út til Frakklands og flaug með Sverri heim af gjörgæslu í sjúkraflugi. Hann gat þá ekki gengið og smám saman rann upp fyrir Herdísi hversu alvarlegt ástandið var. Sverrir var fluttur á taugadeildina á Landspítalanum þar sem hann var rannsakaður og áætlun sett í gang og þaðan á Grensásdeildina þar sem hann var meðhöndlaður í rúma þrjá mánuði. ,,Þar er stórkostlegt fagfólk og hjálpaði mér gífurlega mikið. Ég fór strax að taka framförum þótt ég væri óþreyjufullur en árangur kom fljótt í ljós. Mér var sagt síðar að þar sem ég hefði haft svo gott hreyfiminni hefði endurhæfingin gengið betur.  Eflaust var ég líka óþolinmóður og vildi láta hlutina gerast hratt þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því á þeim tíma.  Heilaáverkar eru sannarlega alvarlegir og ekki alltaf auðvelt að eiga við og engir  tveir eru eins, hvert tilfelli er sérstakt.  Mín gæfa var að fá mitt líf og þrótt aftur og líklega hefur atgervi mitt á þessum tíma hjálpað mér til baka, en vissulega var ég líka heppinn að fá annað tækifæri.  Vinir mínir í ferðinni sem komu að mér í þessum erfiðu aðstæðum eiga líka mitt allra besta þakklæti fyrir skjót og snör viðbrögð og verð ég þeim ævinlega þakklátur.“

Konan hjá honum öllum stundum

Herdís var hjá Sverri öllum stundum frá og með Frakklandi og á Grensásdeildinni og studdi sinn mann . Sverri segir brosandi að hún hafi í fyrstu þurft að kynna sig þótt minnið um hana hafi komið fljótt. ,,Það var sko ekki amalegt að fá nýja konu á hverjum degi,“ grínast Sverrir en í gríninu er alvara. ,,Herdís hefur staðið með mér eins og klettur og án hennar væri ég ekki á þeim stað sem ég er núna. Ég hef stundum hugsað að það ætti að vera meiri aðstoð við aðstandendur þeirra sem lenda í alvarlegum veikindum eða slysum því hlutur þeirra er svo stór og mikilvægur og vill gleymast.“

Sjálfsásökunin

Eitt af því sem Sverrir segir að hafi angrað hann einna mest við slysið er hvað hann hafi gert vitlaust sjálfur þegar hann datt. ,,Ég er næstum fæddur á skíðum og var keppnismaður sem ungur strákur í íþróttinni. Ég fór fljótlega að hugsa hvernig gæti staðið á því að ég hafi dottið og hvað ég hefði  gert rangt til þess að svona illa færi en ég á ekkert svar.  Þetta skiptir svo sem engu máli en þetta er dæmi um þráhyggju sem ég gat dottið í. Ég hef farið á skíði síðan og er búinn að finna út að ég kann þetta allt enn þá og get skíðað en í mér er óöryggi sem er líklega ekki óeðlilegt eftir svona lífsreynslu en það angrar mig stundum.“

Fjölskyldan 

Sverrir og Herdís með fjársjóðinn sinn. Á myndina vantar yngsta barnabarnið.

Sverrir og Herdís eiga saman fjögur börn, þrjá myndarlega syni og glæsilega dóttur sem er yngst og er rúmlega tvítug. Strákarnir eru á aldrinum 30 – 36 ára og nú eiga þau sjö barnabörn á aldrinum 5 ára og yngri. ,,Við njótum þess ríkulega að vera afi og amma og vöndum okkur mikið við það hlutverk í lífinu,“ segir Sverrir og brosir og segir söguna af því þegar yngsti sonurinn kom alvarlegur í bragði til hans og bað hann að setjast því hann þyrfti að segja honum svolítið mikilvægt. ,,Ég settist og undirbjó mig undir vondar fréttir þegar hann segir við mig: ,,Pabbi, nú ert þú opinberlega orðinn litli, feiti karlinn í fjölskyldunni.“ Ég er sem sagt 190 á hæð og var yfirleitt stærstur þar sem ég var en synirnir þrír urðu allir 198 á hæð og þarna hafði sá yngsti náð þessu marki og ég orðinn minnstur,“ segir Sverrir og skellihlær. ,,Þau hafa öll stundað körfubolta og staðið sig mjög vel.  Dóttir okkar náði að komast í landsliðið þrisvar sinnum fyrir tvítugt og ég var mjög stoltur af henni og þeim öllum. Þau tóku körfuboltann fram yfir skíðin þegar þau voru börn og unglingar og við nutum þess vel að fylgjast með þeim í þeirri íþrótt,“ segir Sverrir og rifjar upp öll skiptin sem þau fylgdu þeim í keppnisferðir og mót. ,,Ég ók oft rútunum sem ferðast var í og var með. Þeim þótti gott að við værum á staðnum þótt þau væru ekkert að skipta sér mikið af okkur í þessum ferðum,“ segir Sverrir og brosir.

Börnin þeirra Sverris og Herdísar hafa öll starfað við fyrirtækið á einn eða annan hátt og í dag eru tveir synir þeirra sem sinna framkvæmdarstjórn og fjármálum þess. ,,Líf okkar fjölskyldunnar snýst í kringum fyrirtækið meira og minna, því Ísland er ,,í tísku“ um þessar mundir sem svo oft áður. Ferðamannastraumurinn eykst jafnt og þétt og nú bætist við enn aftur eitt stykki eldgos svo ekki minnkar áhugi útlendinga á landinu okkar en við erum reynsluboltar eftir margra ára rekstur í ferðaþjónustunni.  Ég hef stundum strítt vini mínum sem er læknir og borið hans vinnu saman við mína. Viðskiptavinir hans koma til hans með vandamál á meðan okkar viðskiptavinir koma glaðir og eftirvæntingarfullir og fara frá okkur enn glaðari,“ segir Sverrir brosandi.

Börn Sverris og Herdísar heita Þorsteinn, Haukur, Fanndís María og Jón.

Að horfa á glasið hálffullt

Lífshlaup Sverris hefur í raun verið eitt stórt ævintýri þar sem hvert sportið á fætur öðru hefur tekið sitt pláss. Hann segir að í bataferlinu hafi hann á tímabili misst áhugann á nánast öllu, þar á meðal sporti. ,,Hugsanleg skýring á þessu áhugaleysi er sú að ég varð alltaf fyrir svo miklum vonbrigðum. Þegar ég var að stíga upp úr þessu áfalli varð ég ansi ákafur. Ég setti mér m.a. markmið að gera þetta og hitt og setti markið allt of hátt og varð alltaf fyrir vonbrigðum. Þannig braut ég sjálfan mig niður hægt og rólega og þurfti að læra á lífið upp á nýtt og setja mér ný markmið.  Það er í raun ekki fyrr en fyrst núna, á fjórða ári eftir slysið, að ég hef náð að skilja raunverulega stöðuna eins og hún er og sjá sjálfan mig sem mann sem þarf ekki alltaf að vera á hæstu tindum . Um leið vaknar þakklætið yfir því hvað ég á og hef. Það er kúnstin að horfa á glasið hálffullt en ekki hálftómt.

Vissulega koma dagar eins og hjá öllum þar sem er mótvindur en þannig er lífið og í dag veit ég að það gengur yfir.  Ég er farinn að hjóla aftur mér til ánægju, hreyfa mótorhjólið mitt og spila golf með góðum vinum og njóta lífsins í deginum.

Mikilvægt að vakna til verka

Þegar upp er staðir segir Sverrir að nú sé hann kominn á þann stað að geta forgangsraðað betur í lífinu. Nú viti hann að það sem skipti hann mestu máli í lífinu sé að vera sáttur. ,,Það er einmitt það sem er næst mér, fjölskyldan með öllu sem henni fylgir, eiginkonan, börnin og ekki síst barnabörnin sem eru fjársjóðurinn í lífinu. Ég sé nú líka í mjög skýru ljósi hversu mikil sannindi voru í orðum tengdaföður míns þegar hann sagði að það væri svo mikilvægt að ,,vakna til verka“. Það er að segja að hafa alltaf einhver verkefni að vakna til. Alveg sama hvort það er að slá garðinn þinn eða ganga á Everest. Lífið getur verið mikið puð og púl en þegar upp er staðið er það afraksturinn eftir allt puðið sem skiptir máli og þá er eins gott að maður hafi vandað til verka,“ segir Sverrir Þorsteinsson og hlakkar til framtíðarinnar og er fullur þakklætis fyrir að hafa fengið annað tækifæri til að lifa lífinu lifandi.

 Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 14, 2023 07:00