Ekki eðlilegt að lífeyrislaun eldri borgara hækki bara einu sinni á ári

Mikil umræða hefur verið um kjör eldri borgara, en heldur dregur í sundur með kjörum þeirra og annarra þegna í samfélaginu, að því er fram kemur í nýjasta tölublaði LEB blaðsins (blaðs Landssambands eldri borgara) Laun fólks á vinnumarkaði hækka í samræmi við kjarasamninga og iðulega afturvirkt um marga mánuði, en laun eldri borgara hækka einu sinni á ári í takt við vísitölu neysluverðs. Lifðu núna sendi nokkrar spurningar til fulltrúa stjórnmálaflokkanna í velferðarnefnd Alþingis og innti þá eftir afstöðu þeirra til kjaramála eldri borgara og skerðinganna svokölluðu.  Þrjú svör hafa þegar borist og birst í stafrófsröð og hérna koma svör frá Guðmundi Inga Kristinssyni fulltrúa Flokks fólksins í nefndinni.

Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?

Flokkur fólksins hefur barist gegn skerðingum í almannatryggingakerfinu á Alþingi. Það er eitt af forgangsmálum flokksins að hætta skerðingum og núllstilla almanntryggingakerfið, sem er orðið að fjárhagslegu ofbeldiskerfi í boði þeirra stjórnvalda sem hafa komið því á og með því leitt fjölda eldri borgara og öryrkja ekki bara í fátækt, heldur í sárafátækt.

Vörn ríkisins gegn málsókn Grá hersins verður að þeir skerði ekki lífeyrissjóðgreiðslurnar, heldur bætur almannatrygginga. Þá þarf að svara spurningunni  hvort löglegt sé að skerða grunnlífeyri almanntrygginga og fá svar við því fyrir dómstólum.

Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu eins og staðreyndin er?

Nei það er ekki eðlilegt að lífeyrislaun eldri borgara hækki bara einu sinni á ári. Lífeyrislaun almannatrygginga skulu hækka samkvæmt launavísitölu og bara samkvæmt neysluvísitölu ef hún er hagkvæmari. Því miður brjóta ríkisstjórnir eftir ríkisstjórnir 69.gr. almannatryggingalaga og hækka bara einu sinni á ári og þá ólöglega samkvæmt neysluvísitölu, en ekki launavísitölu, eins og þeim ber samkvæmt lögum.

Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?

Það á að afnema skerðingarnar strax og koma á mannsæmandi einföldu kerfi, þar sem enginn þarf að lifa við eða undir fátæktarmörkum. Því miður er það ekki í plönum þessarar ríkisstjórnar og þá ekki heldur hjá þeim flokkum sem komu þessu kerfi á legg og hafa varið það í þessari ömurlegu mynd, eins og það er í dag. Skerðingar í almannatryggingakerfinu skila 60 milljörðum króna á ári, sem sýnir hvað þetta er fáránlega mikið fjárhagslegt ofbeldi. Þetta er þeirra réttlæti ásamt því að 30% vantar upp á lífeyrislaunin frá bankahruni 2008.

Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar er að koma á aftur „ krónu á móti krónu“ skerðingum hjá þeim eldri borgurum sem hafa orðið fyrir búsetuskerðingum, með því að þeir eiga bara rétt á 90% almanntryggingalífeyri og að allar aðrar tekjur skerðist hjá þeim „króna á móti króna“. Þessir einstaklingar verða bara 90% ríkisborgarar í þeirra augum, sem er ömurlegt og þeim til skammar.

Ef rétt væri þá væri enginn sem er núna á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins með minna en 320.000 krónur efir skatt og ekki undir 350.000 krónum eftir skatt ef persónuafslátturinn hefði hækkað eins og hann átti að gera.

Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna?

Skerðingar vegna atvinnutekna er fáránlegar og á að hætta strax, vegna þess að ríkið tapar á þeim skerðingum. Flokkur fólksins lagði fram frumvarp um að hætta skerðingu atvinnutekna, en því miður sá núverandi ríkistjórn til þess að það yrði ekki að lögum.

Útreikningar sýna að ef ríkið hætti skerðingum vegna atvinnutekna myndi það bæta stöðu ríkissjóðs um hundruð milljóna króna, ef ekki milljarð króna. Að refsa fólki með skerðingum fyrir að vera að vinna er heimska, ekkert annað.

Hér fyrir neðan má sjá frumvörp Flokk fólksins um þessi mál, en Guðmundur Ingi sendi Lifðu núna þennan lista:

Almannatryggingar (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna) , 25. september 2018
Almannatryggingar (frítekjumark vegna lífeyristekna) , 13. maí 2019
Almannatryggingar (kostnaður við framkvæmd greiðslna) , 12. september 2019
Almannatryggingar (frítekjumark vegna lífeyristekna) , 12. september 2019
Almannatryggingar (fjárhæð bóta) , 19. september 2019

Ritstjórn ágúst 27, 2020 07:10