Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar
Við lifum sannarlega fordæmalausa tíma enda plága eins og sú sem nú herjar á heiminn aldrei náð viðlíka útbreiðslu. Við sem þjóð höfum hins vegar gengið í gegnum allskonar hremmingar sem hafa um lengri eða skemmri tíma haft mikil áhrif á þjóðfélagið en við náð að komast í gegnum storminn og fóta okkur á ný í breyttum veruleika. Hvert og eitt okkar á líka minningar um miklar sorgir og erfiðleika sem við höfum um tíma talið að við myndum aldrei ná að jafna okkur á. Ég hef enga trú á að tíminn lækni sár en held hins vegar að með tímanum lærum við að lifa með ýmsu sem við fáum ekki breytt. Við eigum heldur ekki bara þungbærar og erfiðar minningar. Eftirminnilegustu minningarnar eru oft af mikilli sorg eða einlægri gleði en slíkar minningar endurspegla ekki nema stuttan kafla í lífi okkar. Löngu kaflarnir eru hversdagslegri en kannski felst mesta hamingjan í þeim.
Árla morguns 23. janúar 1973 vaknaði ég við að vekjaraklukkan hringdi. Eins og vænta má á þessum árstíma var svartamyrkur. Klukkan var líka bara 7 en ég átti að vera mætt til kennslu klukkan 8. Eins og aðra morgna fór ég fyrst fram í eldhús til þess að kveikja á hraðsuðukatlinum áður en ég færi í sturtu. Þegar ég leit út um eldhúsgluggann sá ég að allir gluggar í húsinu á móti voru uppljómaðir og húsmóðirin stóð úti á svölum sem var óvenjulegt á þessum tima dags. Þegar ég kveikti á útvarpinu komst ég að hvað um var að vera. Eldgos var hafið í Heimaey, þaðan sem nágrannakonan var ættuð, og verið að flytja alla íbúa eyjarinnar á brott. Þetta var einn af dögunum sem gleymast aldrei. Fyrstu fréttir voru ekki góðar en sem betur fer fór allt vel. Nágrannakonan tók á móti hluta fjölskyldu sinnar sem bjó hjá henni um skeið og í bekk hjá mér settust nokkrir nemendur frá Vestmannaeyjum sem eldgosið hafði hrakið að heiman. Síðan eru liðin mörg ár og Vestmannaeyjar aftur orðnar blómlegur og fallegur bær með iðandi mannlífi.
Önnur eldri minning kemur líka upp í hugann; morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta. Lengi vel þóttist ég muna bæði stað og stund þegar ég frétti af þeim voðaviðburði sem skók heimsbyggðina – þó ekki í jafnríkum mæli og Covidveiran gerir nú. Ég taldi mig hafa verið í tíma með skólasystrum mínum í Kvennaskólanum og þóttist muna að einhverjar þeirra hafi brostið í grát yfir þessum hörmungarfréttum. En þegar ég fór að kanna málið nánar komst ég að því að þessi minning mín á við engin rök að styðjast. Þann myrka dag 22. nóvember 1963 þegar Kennedy var myrtur var ég í öðrum skóla og með öðrum nemendum í bekk og hvernig sem ég reyni að grafa upp minningar um þennan dag man ég ekki eftir neinum í bekknum mínum sem brast í grát yfir fréttunum þó að sannarlega hafi verið tilefni til. Svona grátt geta minningarnar stundum leikið mann.
Þegar ég varð fimmtug ákvað ég að halda veislu og bjóða fjölda manns. Ég fékk leigðan sal, pantaði veitingar og hárgreiðslu og hlakkaði mikið til að halda góða og skemmtilega veislu. Daginn áður féll snjófóð á Flateyri og 20 manns fórust. Þær eru sannarlega ekki falskar minningarnar sem ég á um þann hörmungardag. Í staðinn fyrir að undirbúa veisluna og leyfa mér að hlakka til sat ég hnípin og yfir mig helltust minningar um annan afmælisdag, tuttugu árum áður. Þann dag fékk ég þær fréttir að besta vinkona mín hefði farist í bílslysi. Hvernig átti ég að geta haldið stóra veislu undir þessum kringumstæðum? Niðurstaðan varð samt sú að veislan var haldin og lífið hélt áfram. Líf Vestmannaeyinganna hélt áfram þó í breyttri mynd væri og í Bandaríkjunum tók nýr forseti við stjórnartaumunum. Líf þeirra sem lifðu af snjóflóðin á Flateyri hélt líka áfram þó að það hafi aldrei orðið eins og það var meðan ástvinir þeirra lifðu.
Veðrið hefur ekki beinlínis leikið við okkur það sem af er árinu. En undanfarna daga hefur samt aðeins rofað til, að minnsta kosti hér sunnan heiða. Í dag setti ég mannbroddana undir kuldaskóna og hélt út í fallegt vetrarveðrið. Reyndar skein sól í heiði þannig að göngustígurinn sem ég fer oftast var nánast snjólaus og ég hefði því getað sleppt mannbroddunum. En allur er varinn góður. Það er gott að ganga rösklega og hrista aðeins af sér drungann sem óneitanlega hvílir yfir okkur þessa dagana. Það er líka gott að minna sig á ýmis smáatriði í daglegu lífi sem veita gleði og ánægju; Kaffibollinn á morgnana, unglingurinn sem sendir þér ritgerð til yfirlestrar, vinkonan sem var að lesa sömu bók og þú og hlýleg orð eiginmannsins sem spyr á morgnana hvernig þú hafir sofið. Það er svo margt í lífinu sem full ástæða er til að gleðjast yfir og njóta. Hið sama á við um þessi litlu atriði í daglegu lífi okkar og möguleika okkar á að losna undan því að láta veirusýkingu fara illa með okkur – það er mest í okkar eigin höndum hvernig fer. Við berum ábyrgð á okkar lífi og líka á lífi og tilveru annarra. Við verðum að sýna sjálfum okkur og öðrum tillitssemi og virðingu
Allt hið liðna er ljúft að geyma
láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma.
-segðu engum manni hitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar,hjartað mitt!