Fjölbreytnin í fábreytninni

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.

Fyrir rúmum tveimur árum fór ég síðast til útlanda en þá fór ég í skemmtilega ferð til Spánar. Síðan ekki söguna meir. Nú stendur reyndar til að haldið verði út í heim í næsta mánuði en eins og málin standa er eins gott að draga andann djúpt og vera búin undir að ekkert verði úr því ævintýri. Máltækið segir: „Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða.“

Við hjón erum dugleg að fara í leikhús og sækja ýmsa listviðburði og höfum um árabil verið með fasta leikhúsmiða. Jólatónleikar hafa líka verið fastur liður á dagskrá okkar í áratugi og sum árin höfum við jafnvel sótt þrenna jólatónleika. En það er með tónleikana eins og utanlandsferðirnar. Ófyrirséðar kringumstæður hafa breytt hefðum okkar eins og fjölmargra annarra. Ég gæti haldið áfram að telja upp ýmislegt fleira eins og boð og veislur sem hafa verið slegin af eða frestað, fundi sem er hætt við eða þar sem dagskráin fer fram á netinu, jarðarfarir sem streymt er frá eða aðeins tiltekinn fjöldi má vera viðstaddur, íþróttakappleiki þar sem engir áhorfendur mega fylgjast með og fleira og fleira. En þegar ég skoða málið nánar kemur upp önnur og mun bjartari mynd.

Ég hef haft fyrir sið árum saman að kaupa borðdagatal í lok hvers árs. Ég kýs að hafa það frekar stórt til þess að geta skráð í reit hvers dags ýmislegt til minnis. Til dæmis heimboð, leikhús, ferðalög, leikfimitíma, læknatíma, gönguferðir eða annað sem tilheyrir mínu daglega lífi. Borðdagatal liðins árs talar sínu máli og fyllir upp í gloppótt minni mitt. Það segir mér að þó að ýmsu hafi verið slegið á frest og annað fellt niður hélt lífið áfram og hver dagur bar með sér eitthvað sem ég hef talið ástæðu til að skrá hjá mér. Ég ætla sannarlega ekki að nefna hér allt það sem á daga mína hefur drifið en langar að tína til nokkur atriði sem sýna fjölbreytileika tilverunnar í allri fábreytninni.

Janúar

Eins og endranær fór ég út að ganga og hef skráð hjá mér að ég hafi gengið úti, ein eða með vinkonum, 8 sinnum. Tvisvar sinnum sótti ég Rotaryfund á öldum ljósvakans. Tvisvar sinnum var okkur hjónum boðið í kvöldmat og einu sinni komu gestir til okkar í mat. Í janúar fór ég í fyrsta skipti í golfhermi. Eftirminnilegast af því sem ég hef skráð hjá mér er jarðarför. Frændi minn var jarðsunginn um miðjan mánuðinn. Hann bjó skammt frá mér og við tókum alltaf tal saman þegar við hittumst á förnum vegi; hann að rölta með hundinn sinn um götuna sem ég bý við og ég annaðhvort á leið heim eða að heiman. Hann féll frá allt of snemma. Sökum fjöldatakmarkana mátti aðeins ákveðinn fjöldi vera við jarðarförina og mér þótti vænt um að fá boð um slíkt. Jarðarfarir eru engar skemmtisamkomur en það er dýrmætt að geta sýnt hinum látnu virðingu sína og ættingjum og vinum samúð. Athöfnin var einstaklega falleg. Frændi minn hafði sjálfur ákveðið frá hvaða kirkju jarðarförin skyldi fara fram, hver ætti að jarðsyngja, hvaða tónlist yrði flutt við útförina og einsöngvarana sem sungu. Allt var valið af mikilli smekkvísi eins og frænda míns var von og visa. Rúmri viku síðar fylgdi ég öðrum frænda til grafar, föðurbróður hins fyrrnefnda, og enn voru fjöldatakmarkanir í gildi. Sú útför var ekki síður falleg og viðeigandi og endurspeglaði líf og tilveru frænda míns sem var orðinn háaldraður þegar hann féll frá. Það var gott að hitta hans stóru og góðu fjölskyldu og finna hlýjuna og góðu minningarnar sem hann skilur eftir sig.

Febrúar

Reglulegar heimsóknir til sjúkraþjálfara héldu áfram og ég finn hvað þær eru mér mikils virði. Gott fyrir skrokkinn á mér en líka alltaf gaman að tala við hressan og líflegan sjúkraþjálfarann sem liggur ekki á skoðunum sínum. Áfram gengið og nýjar slóðir fetaðar. Ein ferðin gengin með bridgeféögum mínum og mökum. Gott og gaman að hitta vinina. Ganga og spjalla um lífsins gagn og nauðsynjar. Fór á snyrtistofu, í fótsnyrtingu og lét laga á mér hárið. Engin ástæða til að líta út eins og herfa þó að „kófið“ sé yfir og allt um kring. Hélt áfram að spila golf í golfhermi og mætti í fyrsta skipti til að spila bridge með vinkonum eftir langan tíma.

Mars

Fylgdi góðum vini til grafar. Hann féll frá í hörmulegu bílslysi í febrúar. Leiðir okkar hafa legið saman frá því að við vorum unglingar. Hann skilur eftir sig mikið tómarúm en minningar sem ég á um hann og samskipti okkar í gegnum árin lifa með mér. Lítil vinkona mín bauð mér í afmælið sitt. Gott að fara í barnaafmæli og njóta samskipta við börn. Þrátt fyrir allt er lífið sterkara en dauðinn. Bauð tveimur vinkonum í mat. Dýrmætt að hitta vini sína og styrkja sambönd, ekki hvað síst þegar á móti blæs. Fór í Þjóðleikhúsið og sá sýninguna Vertu Úlfur. Stórkostleg sýning – með þeim eftirminnilegustu sem ég hef nokkru sinni séð. Leikur, leikstjórn og handrit – allt eins og best verður á kosið. Sá sýninguna Oleanna í Borgarleikhúsinu. Sýningin kom mér skemmtilega á óvart og ég naut hennar; ekki síst þar sem með mér í för voru maðurinn minn og sonardóttir, eins og reyndar líka á sýningunni í Þjóðleikhúsinu.

Apríl

Gestir hér í mat um páskana. Hélt mig við „fjölskyldukúluna“ enda allur varinn góður. Matarboð hjá syni okkar og fjölskyldu sem reyndar eru mjög dugleg að bjóða okkur í mat. Hitti góðar vinkonur í hádegismat í mánuðinum og fékk mína fyrstu bólusetningu gegn Covíd 1. Nýr tími runninn upp.

Maí

Gekk að eldstöðvunum á Reykjanesi. Ferðin er kannski ekki í frásögur færandi enda hafa þúsundir lagt land undir fót og séð eldgosið. En ferðin var ákveðinn sigur fyrir mig. Ég fór með syni, tengdadóttur og tveimur barnabörnum. Þau fóru hraðar yfir en ég en fylgdust vel með mér. Og ég komst alla leið, ósködduð, sem er mikill sigur fyrir mig. Ekki síst með tilliti til þess að ég hef farið í liðskipti á báðum hnjám. Klukkan var orðið eitt eftir miðnætti þegar ég kom heim. Þreytt en alsæl. Loksins kom að því að hægt væri að mæta í stórafmæli. Fjöldatakmörkun samt í gildi. Mjög gott og skemmtilegt afmæli. Og ekki vantaði umræðuefni. Helstu spurningarnar voru: „Ertu búin að láta bólusetja þig? Hvaða efni fékkstu?“ Eða: „Hefurðu gengið að eldstöðvunum?“ Fermingarveisla í lok mánaðar. Enn minni fjöldatakmarkanir. Gaman og góð veisla. Heimsótti Sky Lagoon í Kópavogi með góðum vinkonum. Mjög sérstakt.

Júní

Farin að spila golf á golfvellinum hér í Garðabæ. Fínt að spila í golfhermi en þvílíkur munur að spila á „alvöru“ golfvelli. Við hjón áttum í mánuðinum 55 ára brúðkaupsafmæli og fórum út að borða með fjölskyldunni í tilefni dagsins. Tók þátt í golfmóti á Kiðjabergi. Sonardóttir mín útskrifaðist með BA-próf í lögfræði. Fórum í Borgarnes, spiluðum golf og gistum á fínu hóteli við golfvöllinn.

Júlí

Þrátt fyrir rigningarsumar hér sunnan heiða hef ég oft skráð hjá mér að ég hafi farið í golf. Í júli tók ég meðal annars þátt í golfmóti í Korpunni, spilaði við vinahóp á Akranesi og tók þátt í afmælismóti vinar okkar sem fram fór á vellinum í Borgarnesi. Við hjón dvöldum í viku á Akureyri í dásamlegu veðri. Einn daginn fórum við með ferju út í Hrísey. Þann dag var hitinn 26 stig og mér leið eins og ég væri loksins komin til útlanda. Fórum líka til Húsavíkur og ég fór í sjóböðin við Húsavík. Einstök upplifun.

Ágúst

Þó að sumarið hafi verið blautt og kalt hér sunnan heiða spilaði ég nokkrum sinnum golf í mánuðinum, meðal annars með vinkonum á Nesvelli. Við hjón spiluðum síðan golf við vinahóp hér í Garðabæ. Enduðum þannig golfsumarið og borðum hér heima hjá okkur eftir leikinn.

September

Fór með tveimur vinkonum út að borða og í leikhús. Sáum „Er ég mamma mín“ í Borgarleikhúsinu. Mjög eftirminnileg og góð sýning. Ég er ekki sammála því að sýningin sé „sprenghlægileg“ eins og kom fram í auglýsingu Borgarleikhússins. Mér finnst leikritið mun merkilegra en svo að þessi stimpill eigi við. Vinkona bauð mér í mat í Grindavík! Góð ferð sem kom mér skemmtilega á óvart enda er þetta í fyrsta skipti sem ég heimsæki veitingahús í Grindavík. Haldið upp á stórafmæli eiginmannsins hér heima. Ströngustu fjöldatakmarkanir ekki lengur í gildi en við ákváðum að hafa ekki of stóran gestahóp þannig að allir gætu notið sín. Afmælisbarnið fékk þyrluferð að eldgosinu í afmælisgjöf frá syni okkar og fjölskyldu. Ég fékk að fljóta með og um borð voru líka sonur okkar og tvö barnabarnanna og að sjálfsögðu flugstjórinn. Stórkostlegt sjónarspil. Eðli málsins samkæmt þurfi að taka mið af veðri og vindum til að hægt væri að fljúga. Allt skipulagt með mikilli leynd og afmælisbarnið frétti ekki af ferðinni fyrr en samdægurs. Þyrluferðin var farin 15. september. Þremur dögum síðar lauk gosinu. Frábær afmælismánuður.

Október

Ég sá söngleikinn Pálmar í sal Fjölbrautaskóla Garðabæjar. Höfundar og leikarar eru ungt fólk sem stundaði listnám í skapandi sumarstörfum síðstliðið sumar hér í Garðabæ. Einstaklega skemmtileg sýning. Ekki hvað síst þar sem við þekkjum vel aðalpersónuna, Pálmar. Borðaði með systur minni og frænkum í matsal Norræna hússins. Áttum góða stund saman. Byrjaði í nýrri leikfimi fyrir eldri borgara sem kennd er við Janus. Frábærir tímar. Mér hentar vel að viðhafa ákveðna reglufestu í tilverunni. Til dæmis með því að mæta tvisvar í viku í leikfimi. Sótti Rotaryfundi. Alltaf gaman og ákveðin endurmenntun fólgin í því að hlusta á erindin sem flutt eru á fundunum. Þau eru í senn skemmtileg og fróðleg.

Nóvember

Við hjón sáum Níu Líf Bubba Morthens í Borgarleikhúsinu. Mjög góð sýning þó að hávaðinn hafi verið ansi mikill á köflum fyrir fólk eins og okkur. Ég hef alltaf vitað að Bubbi hefur samið falleg lög en ekki áttað mig á hvað mörg laga hans eru orðin sígild í íslenskri tónlist. Eins og til dæmis „Þessi fallegi dagur“.

Desember

Minna um að vera en efni stóðu til. Veiran lætur ekki að sér hæða og enn á ný gildir orðtakið: „Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða.“

— — — — —

Eins og sést á þessari yfirferð minni ríkir engin lognmolla í lífi mínu þó að ég hafi ekki tínt til nema hluta af því sem á daga mína dreif á liðnu ári. Ég hef fengið aðra mótefnasprautu og örvunarsprautu, farið í skimun oftar en einu sinni og nokkrum sinnum í hraðpróf. Sem betur fer hef ég komið vel út úr öllum þessum prófum og bólusetningum. Líklega vegna þess að ég hlýði þeim sem gerst þekkja, treysti vísindamönnum og sérfræðingum í málefnum veirunnar og viðhef varúðarráðstafanir þegar það á við.

Eins og endranær erum við á margan hátt gerendur í eigin lífi. Eftir því sem ég verð eldri og hef upplifað meira, gott og slæmt, geri ég mér betur grein fyrir því að við ráðum ekki við margt að því sem upp á kann að koma í lífi okkar enda lífið ekki alltaf auðvelt, fyrirsjáanlegt eða sanngjarnt. Það er hins vegar að miklu leyti í okkar höndum hvernig við bregðumst við því sem við stöndum frammi fyrir um ævina.

Gullveig Sæmundsdóttir janúar 10, 2022 07:00