„Mögulega verð ég með kjötöxi og hjörtu í poka“

Búast má við hrollvekjandi umræðu á Borgarbókasafninu Spönginni næstkomandi mánudag. Til að fagna skammdegi og nýafstaðinni Hrekkjavöku mánudaginn 3. nóvember heimsækir rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen Borgarbókasafnið Spönginni og flytur fyrirlestur um hrollvekjur og hryllingsskrif.

„Þótt mér hafi tekist að hræða fólk í bókunum mínum þarf nú ekki að óttast mig sjálfan,“ tekur Emil fram og hlær, þegar hann er spurður hvort búast megi við svakalegri umræðu á safninu. „Mögulega verð ég með kjötöxi og hjörtu í poka meðferðis en það verður fyrir matarboð um kvöldið. Lofa,“ bætir hann við og kímir.

Emil er einn af frumkvöðlum fantasía og skyldra bókmenntagreina á Íslandi og var meðal annars metsöluhöfundur hjá Storytel þar sem hann lagði áherslu á hrollvekjur með bókum á borð við Dauðaleið, Hælið og Ó, Karítas. Nýlega kom út þrettánda skáldsagan hans, Eilífðarvetur.

Öllum ætlaður – nema kannski yngsta aldurshópnum

Í fyrirlestrinum á Borgarbókasafninu Spönginni ætlar Emil að fara stuttlega yfir sögu hrollvekjunnar, tala um mismunandi tegundir hryllings, fjalla um hrollvekjur á Íslandi og gefar innsýn í eigið skrifferli; hvað ber að hafa í huga þegar hrollvekjur eru skrifaðar.

Fyrirlesturinn hefst kl. 16:30. Hann er opinn öllum og ætlaður öllum aldurshópum, nema kannski þeim yngsta því ýmislegt ógnvekjandi verður á glærunum.