Nær 600 ný hjúkrunarrými á næstu árum

Alls eru 790 hjúkrunarrými á framkvæmdaáætlun til ársins 2023, þar af er fjölgun um rúmlega 580 rými og endurbætur á yfir 200 rýmum. Þetta kom fram á Alþingi í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar . Í svarinu er einnig fjallað um uppbyggingu á þessu sviði og hvernig þessi mál hafa þróast frá árinu 2009. Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um þetta í gær en þar segir:

Eins og segir í svari ráðherra var í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 ráðist í aðgerðir til að draga saman útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarrýmum var fækkað þar sem þörfin var talin minnst eða rými ekki í notkun. Í einhverjum tilvikum forgangsröðuðu heilbrigðisstofnanir verkefnum þannig að þær fækkuðu hjúkrunarrýmum og nýttu fjármunina til annarra verkefna í kjarnastarfsemi sinni og loks voru dæmi um að hjúkrunarheimilum væri lokað vegna ófullnægjandi aðbúnaðar eða vegna ákvörðunar forstöðumanns um að hætta rekstri.

Miklar endurbætur en lítil fjölgun hjúkrunarrýma

Uppbygging hjúkrunarheimila undanfarin 10 ár hefur að mestu falist í nauðsynlegum endurbótum á eldri rýmum. Byggð hafa verið 392 hjúkrunarrými og 302 verið aflögð. Fjölgun nemur því einungis 90 hjúkrunarrýmum á þessum 10 árum, þar af voru 40 þeirra vígð á þessu ári á Seltjarnarnesi. Næstu áfangar felast í opnun nýs Sólvagns í Hafnarfirði og hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík með samtals 100 nýjum rýmum.

Mikil uppbygging framundan

Samkvæmt framkvæmdaáætlun verður 140 rýma fjölgun nú í ár, við opnun Seltjarnar á Seltjarnarnesi, Sólvangs í Hafnarfirði og hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík.

Árið 2020 verður fjölgun hjúkrunarrýma um 60 við opnun nýs hjúkrunarheimilis í Árborg sem áætlað er að opni í lok ársins 2020. Hluti af þeim rýmum koma í stað þeirra rýma sem lokað var á Kumbaravogi og á Blesastöðum árin 2016 og 2017.

Árið 2021 verður fjölgun hjúkrunarrýma um 45 samkvæmt framkvæmdaáætlun þegar nýtt hjúkrunarheimili opnar á Húsavík og á Höfn í Hornafirði með endurbótum og fjölgun rýma en endurbótum á hjúkrunarheimilinu í Stykkishólmi á að ljúka það ár.

Árið 2022 er gert ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili opni við Boðaþing í Kópavogi sem dregist hefur í 2 ár vegna dómsmáls.

Á yfirstandandi framkvæmdaáætlun sem nær fram til 2023 er ekki komin tímasetning á verklok þeirra  hjúkrunarheimila sem áformað er að byggja í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ, á Akureyri og á höfðuðborgarsvæðinu en framkvæmdirnar munu fela í sér fjölgun hjúkrunarrýma sem nemur 276 rýmum og endurbætur á 30 rýmum.

 

Ritstjórn febrúar 27, 2019 09:02