Það getur verið flókið fyrir afa og ömmu að finna réttu gjöfina

Flestar ömmur og afar hafa gaman af því að gefa barnabörnunum gjafir. Það getur hins vegar verið flókið að gefa börnunum því foreldrarnir þurfa að leggja blessun sína yfir gjöfina. Hér eru nokkur ráð fyrir afa og ömmu þegar kemur að því að kaupa gjöf fyrir barnabörnin, ráðin eru fengin af síðunni https://www.liveabout.com.

  1. Ekki gefa börnunum eitthvað sem þið vitið að foreldrana langar til að gefa þeim hvort sem það kostar mikið eða lítið. Það getur sært foreldrana og eyðilagt gleðina yfir gjöfinni.
  2. Flest leikföng eru framleidd fyrir börn á ákveðnum aldri. Það ætti því að vera auðvelt að kaupa eitthvað sem hæfir aldri barnsins. Afar og ömmur halda oft að þeirra barnabörn séu þroskaðri en jafnaldrar þeirra og því sé í lagi að kaupa leikföng handa þeim sem ætluð eru eldri börnum. Þau gleyma hins vegar að leikföng sem ætluð eru fyrir eldri börn geta reynst yngri börnum hættuleg. Í þeim geta leynst ýmsir smáhlutir sem geta reynst litlum börnum hættulegir.
  3. Forðist að kaupa eitthvað of stórt eða flókið. Ef ykkur langar að kaupa stórt leikfang ættuð þið að hugleiða hvort það sé eitthvað pláss fyrir hlutinn heima hjá barninu. Foreldrar með ung börn búa oft þröngt. Það sama gildir um flókna hluti til dæmis risa Lego. Hafa foreldrarnir einhvern tíma til að hjálpa börnunum að setja það saman? Sama á við um vísindaverkefni, langar foreldrana að vera í endalausum efnafræðitilraunum með börnunum?
  4. Ef þið ætlið að gefa börnunum leikföng sem búa til mikinn hávaða ættuð þið að ráðgast við foreldrana fyrst. Ef þið voruð til dæmis að hugsa um trommusett ættuð þið að reyna að setja ykkur í þeirra spor. Langar ykkur að vera vakin eldsnemma um helgar við trommuslátt. Hvað varðar önnur leikföng sem framleiða hávaða ættuð þið að athuga hvort hægt sé að slökkva á þeim eða lækka hljóðið í þeim.
  5. Eru einhver ákveðin leikföng sem foreldrar vilja ekki að börnin þeirra leiki sér með. Sumir vilja til dæmis ekki að börnin þeirra fái leikföng með rafhlöðum því þær eru mengandi. Aðrir vilja ekki að börn þeirra leiki sér með byssur. Spyrjið foreldrana áður en þið kaupið slík leikföng handa barnabörnunum.
  6. Ekki gera ráð fyrir því að drengir vilji bíla eða flugvélar og stelpur bara dúkkur. Margir foreldrar kjósa að börn þeirra fái leikföng sem eru ekki kyngreind.
  7. Ef þið spyrjið börnin hvað þau langi í segið þeim þá í leiðinni að það sé ekki víst að þið getið uppfyllt óskina. Stundum nefna börn einhverja hluti sem þau hafa séð mikið auglýsta. Það er alls ekki víst að slíkt henti þeim eða aldri þeirra.
  8. Flestir afar og ömmur reyna að kaupa jafn dýrar eða ódýrar gjafir handa barnabörnunum. Það geta hins vegar komið upp aðstæður þar sem það er réttlætanlegt að gefa sumum meira en öðrum. Til dæmis ef foreldrar einhverra af barnabörnunum eru illa settir fjárhagslega. Gjafir handa táningum eru líka oft dýrari en handa smábörnum. Mismunun getur því alveg verið réttlætanleg.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá getur það valdið taugaæsingi hjá sumum börnum að fá gjafir. Sum börn búa til lista yfir það sem þau langar í og eiga erfitt með að þiggja gjafir sem eru ekki á listanum. Önnur börn elska að láta koma sér á óvart. Þið ættuð að athuga í hvor flokkinn barnabörnin ykkar falla.

Ritstjórn desember 12, 2018 12:49