Það er vandi að velja sólarvörn

Það spáir góðu veðri næstu dagana og því örugglega margir sem hafa hug á því að flatmaga út í sólinni. Það þarf hins vegar að gæta að sér og bera á sig sólarvörn. En hvernig á að velja hana og hvað á að hafa í huga. Neytendasamtökin gáfu fyrir ári út leiðabeiningar um hvað hafa beri í huga þegar fólk velur sér sólarvörn. Þar sem það spáir góðu næstu dagana fannst Lifðu núna ekki úr vegi að rifja þessi fínu ráð upp.

  1. Án ilmefna
    Ef fram kemur á umbúðum að það sé án ilmefna innheldur sólarvörnin engin ilmefni, þar á meðal engin þeirra 26 ilmefna sem skylt er að geta um á umbúðum samkvæmt ESB-reglum og sem gilda einnig hér á landi. Það er ástæða til að líta eftir þessu þar sem ilmefni geta valdið ofnæmisviðbrögðum. Á innihaldslistanum getur þú séð hvaða ilmefni eru í sólarvörninni. Líta þarf eftir orðunum „parfume“ eða „fragrance“ til að sjá hvaða ilmefni er þar að finna. Náttúruleg ilmefni geta valdið sömu ofnæmisviðbrögðum og gerviilmefni.
  2. SPF
    SPF stendur fyrir Sun Protection Factor eða sólarvarnarstuðull. Talan segir að hve miklu leyti kremið ver húðina gegn UVB-geislum frá sólu, en þessir geislar eru aðal ástæðan fyrir sólbruna og geta einnig valdið húðkrabbameini. SPF talan er bara leiðbeinandi og val á sólarvörn fer eftir gerð húðar, hvenær dags það er notað og hvar á jörðinni viðkomandi er. Danska krabbameinsfélagið mælir þó með að sólarvörnin sé í það minnsta með tölunni 15.
  3. UVA
    Með UVA merki á umbúðum er framleiðandinn að lofa að sólarvörnin verndi húðina fyrir að minnsta kosti þriðjungi af UVA geislum miðað við uppgefið SPF. Næstum allar sólarvarnir vernda gegn þessum geislum. UVA-geislar gera húðina eldri en eðlilegt er en þeir geta einnig líkt og UVB-geislar valdið húðkrabbameini.
  4. Vatnshelt
    Á sumum tegundum sólarvarna er sérstaklega tekið fram að þær séu vatnsþéttar. Fullyrðingin gefur í skyn að tegundin sé betri en þær sem ekki eru það. En krafan um vatnsheldni sólarvarnar skiptir litlu máli. Aðeins helmingur af upphaflegri sólarvörn er til staðar eftir að farið hefur verið í vatn eða sjó. Fyrri rannsóknir á sólarvörn hafa leitt í ljós að margar tegundir eiga erfitt með að standast þessa kröfu. Því þarf að hafa það hugfast að smyrja sólarvörn á sig á nýjan leik eftir ferð í vatnið eða eftir að hafa  þurrkað sér með handklæði.
  5. Fyrir viðkvæma húð / hypoallergen
    Fullyrðingar um þetta gefa í skyn að viðkomandi sólarvörn sé betri en aðrar tegundir varðandi ofnæmi og viðbrögð húðar. Samt eru engar sérstakar kröfur gerðar til sólarvarnar með slíkum fullyrðingum, svo þær eru ekki trygging fyrir öruggara kremi. Slík sólarvörn getur bæði innihaldið efni sem valda ofnæmisviðbrögðum sem og hormónaraskandi efni.
  6. Endingartími
    Fjöldi mánaða sem sólarvörnin er í lagi eftir að umbúðir hafa verið rofnar, kemur fram á umbúðum. Sem megin reglu er hægt að ganga út frá því að hægt sé að nota sólarvörn frá síðasta sumri. Sólarvörn þar sem umbúðir hafa verið opnaðar dugar í um það bil ár. Ef umbúðir hafa ekki verið rofnar má reikna með að hún sé í lagi í þrjú ár. Kannaðu ávallt dagsetningu síðasta notkunardags. Einnig er mælt með að könnuð sé lykt og áferð fyrir notkun. Sólarvörn sem er orðin of gömul tapar eiginleikum sínum að vernda líkamann fyrir sól. Einnig  er hætta á neikvæðum viðbrögðum húðar ef notuð er of gömul sólarvörn.
  7. Sólarvörn fyrir börn
    Öll sólarvarnarkrem eru bæði fyrir börn og fullorðna. Það er enginn munur á sólarvörninni og heldur engar kröfur til sólarvarnar sem er ætluð börnum. Þannig að það er ekki trygging til að forðast varasöm efni eðahormónaraskandiefni að kaupa sólarvörn sem sérstaklega er ætluð börnum.
  8. (Nano)
    Í innihaldslýsingu á sumum tegundum sólarvarnar kemur fram „(nano)“, vegna þess að m.a. UV-sían „titanium dioxid“ er nanóefni. Það er óvissa um hversu skaðleg nanóefni geta verið.
  9. Magn
    Magnið í umbúðum er gefið upp í ml. Ef þú kaupir sólarvörn í 200 ml umbúðm er það nógu mikið til að bera á allan líkamann fimm sinnum miðað við fullorðinn einstakling. Ef notað er minna magn næst ekki sá styrkleiki sem gefin er upp á umbúðum. Mælt er með að fullorðnir noti 40 ml hverju sinni (rúmlega handfylli) og börn u.þ.b. 20 ml. Munið að smyrja sólarvörninni á líkamann reglulega og sérstaklega eftir að farið er í vatn.
  10. Prófað fyrir húðsjúkdómum (dermatologist tested)
    Á umbúðum margra húðkrema (þar á meðal sólarvörn)  koma fram upplýsingar um þetta. Samkvæmt gildandi reglum eru ekki skýrar kröfur um slíkt, þannig að það er ekki öruggt að um sé að ræða fullrannsakaða vöru.
  11. Svanurinn
    Sólarvarnarkrem sem bera norræna umhverfismerkið Svaninn eru meðal þeirra umhverfisvænustu á markaðnum. Þannig innihalda Svansmerktar sólarvarnir m.a. ekki efni sem talin eru verahormónaraskandiog né nanóefni.

 

 

 

Ritstjórn júní 6, 2016 10:15