Netþrjótar verða stöðugt snjallari

Netsvindl og alls kyns prettir til að hafa peninga af fólki með hjálp tækninnar hafa færst mjög í vöxt og beinlínis orðið að iðnaði í sumum löndum. Í upphafi voru einstaklingar að baki baki svindlinu en nú eru þetta heilu fyrirtækin þar sem fjöldi fólks starfar við að hringja í fólk, senda því skilaboð og setja sig í samband við það í gegnum netið.

Því miður er það einnig svo að tölvuþrjótar verða sífellt færari í því sem þeir gera og að auki gerir tæknin þeim kleift að skapa trúverðugra og öflugra svindl. En enn er ýmislegt sem kemur upp um svindlarana sem auðvelt er að sannreyna.

  1. Skoðið ævinlega úr hvaða netfangi póstur berst áður en þið klikkið á einhvern link eða farið að þeim fyrirmælum sem eru í póstinum. Það er augljóst að engin alþjóðleg fyrirtæki senda póst í sínu nafni úr hotmail, gmail eða einkanetföngum einstaklinga.
  2. Vertu alltaf tortryggin á allan póst frá opinberum stofnunum eða stórum þjónustufyrirtækjum. Sama hvort þið eigið von á sendingu með pósti, hafið verið í vandræðum með símann eða eruð nýbúin að skila skattframtali. Það má auðveldlega staðfesta að pósturinn er ekta með einu símtali..
  3. Ef þið fáið símhringingu frá erlendum aðila sama þótt það komi úr íslensku númeri afþakkið þjónustu hans nema hann geti lagt fram sönnun þess að hann raunverulega vinni fyrir það fyrirtæki sem hann segist vera umboðsmaður fyrir. Hann ætti að geta sent tölvupóst með slíkum upplýsingum ef hann er lögmætur. Microsoft, Meta eða önnur stórfyrirtæki í tölvubransanum hringja ekki í fólk til að bjóða aðstoð. Nýlega hefur borið á því að netþrjótar hringi úr íslenskum símanúmerum eða því sem virðast íslensk númer en eru raunverulega staddir einhvers staðar úti í heimi.
  4. Farðu ævinlega mjög varlega með allar upplýsingar um notendanöfn og lykilorð að öllum samfélagsmiðlum, mínum síðum og heimabanka. Geymdu lykilorðin á öruggum stað, annað hvort á öruggum síðum á netinu þar sem boðið er upp á vista lykilorð og notendanöfn á skipulegan hátt eða í læstu skjali í tölvunni þinni.
  5. Ef verslað er á netinu vertu ævinlega viss um að þú hafir flust yfir á örugga greiðslusíðu áður en þú gefur upp kortanúmerið.
  6. Reynið að fylgjast með hvers konar svindl er í gangi á hverjum tíma til að geta varast þau. Oft sendir íslenska lögreglan frá sér fréttatilkynningar sé eitthvað nýtt í gangi. Til dæmis fengu mjög margir Íslendingar tölvupóst frá Íslandspósti fyrir jólin þar sem sagt var að vandamál hefði komið upp vegna rangs heimilisfangs á sendingu til þeirra frá útlöndum. Þar sem margir höfðu pantað jólagjafir á netinu létu þó nokkrir blekkjast, fóru á linkinn og féllust á að borga einhverja smáupphæð sem sagt var að það kostaði að leiðrétta misritunina. Leikurinn var hins vegar til þess gerður að komast yfir kortanúmerið og umsvifalaust reynt að taka hærri upphæðir út af því. Nýlega voru líka sendir út svipaðir póstar sem virtust vera frá íslenskum skattyfirvöldum og þar var fólk hvatt til að klikka á link og gefa upp bankanúmer til að fá endurgreiðslu frá skattinum. Svindlararnir verða sífellt færari í að þýða með hjálp tækninnar texta og stela lógóum fyrirtækja og stofnana. Póstarnir verða þess vegna sífellt trúverðugri.
  7. Ef fólk verður vart við ný svindl eða fær póst sem lítur tortryggilega út getur það haft samband við lögregluna og látið vita. Hið sama gildir um banka, póstinn eða aðrar stofnanir starfsfólk þar fagnar því að fá að vita að svindl í þeirra nafni sé í gangi.
  8. Leitaðu til einhvers sem hefur tækniþekkingu ef þú hefur aðgang að slíkum einstakling og biddu hann að fara yfir póstinn.
  9. Vertu ávallt á varðbergi ef þú færð póst með gylliboðum eða tilkynningu um að þú hafir unnið verðlaun, samkeppni eða annað þar sem farið er fram á að þú gefir upp kortanúmer eða reikning svo hægt sé að leggja inn á þig. Það er einnig nokkuð góð vísbending að menn vinna aldrei neitt án þess að hafa skráð sig í keppni eða leik.
  10. Haldið ævinlega ró ykkar þótt þið fáið póst um að mikið liggi á að fá staðfestingu frá ykkur eða upplýsingar. Algengt er að svindlpóstar snúist um að ef ekki verði brugðist við samdægurs eða innan tveggja daga verði samfélagsmiðlareikningum lokað eða ákveðin forrit í tölvunni ekki aðgengileg. Svikapóstarnir í nafni Íslandspósts sögðu til dæmis að ef ekki yrði brugðist við yrði sendingin send til baka. Staðreyndin er sú að að það liggur aldrei svona mikið á þegar um er að ræða opinber fyrirtæki eða aðra aðila.

Þau lönd sem algengast er að netsvindlfyrirtæki séu staðsett í:

Indland

Nígería

Brasilía

Norður Kórea

Rúmenía

Bandaríkin

Kína

Rússland

Bretland

 

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

 

 

Ritstjórn mars 31, 2025 07:00